Kvennafar à la Hugi

16. maí 2006

Um daginn rifjaðist upp fyrir mér atvik frá menntaskólaárunum. Þá var ég á tímabili hrifinn af stelpu sem var með mér í kór MH, eina skiptið sem ég minnist þess að hafa hrifist af einhverju kvenkyns á mínum aldri. A.m.k. af tegundinni Homo Sapiens Sapiens.

Eitthvað kvöldið var ég að skokka í hlíðunum, það var komið myrkur og ljósastaurarnir voru af einhverri ástæðu ekki að þjóna samningsbundnu hlutverki sínu. Þegar ég var kominn í Hamrahlíðina sá ég umrædda stelpu framundan og greip að sjálfsögðu tækifærið, skokkaði upp að hliðinni á henni í myrkrinu, hægði á mér og varpaði mæðinni.

Hugi: "Góða kvöldið".
Stelpa: "Eh, góða kvöldið".
Hugi: "Hvað syngur í þér"?
Stelpa: "Bara... Eh.. Allt ágætt".
Hugi: "Hvaða ferðalag er á þér"?
Stelpa: "Eh... ég er bara á kvöldgöngu".
Hugi: "Er það nú ekki full djarft að vera ein á gangi svona í myrkrinu? Með alla þessa karlmenn á ferli?".
Stelpa: [þögn]

Þessar samræður voru ekki að ganga vel. Ég var bara engan veginn að ná sambandi. Ég skildi hvers vegna þegar bíll keyrði framhjá okkur og ljósi sló á andlitið á stelpunni - og ég áttaði mig á að ég hafði aldrei á ævinni séð hana áður.

Ég þakkaði fyrir spjallið, bauð pent gott kvöld og sprettaði svo í burtu, hraðar en ég hafði á ævinni gert áður.


Tjáskipti

Kiðhildur

úúúpsí :P

Kalli

Þú ert fæddur sjarmör Hugi. Ok... þetta var bara röng kona en ÞAÐ er ekki ÞÉR að kenna, ha?

DonPedro

Hún hefði nú átt að sjá tækifærið og smella sér undir verndarvæng þinn þótt þið þekktust lítið. Ég lít svo á að hún hafi klúðrað þessu. Hún er örugglega illa gift í dag, manni sem spýtir tánöglum við matarborðið og lyktar eins og Gaukur á Stöng á sunnudagsmorgni. Og ef þið vitið ekki hvernig Gaukurinn lyktar á Sunnudagsmorgni, þá hafið þið ekki lifað.

Kalli

Ég er viss um að Jón Ólafs veit það.

Hugi

Fæddur sjarmör já. Kalli, ég hef verið sakaður um margt, en þessi er nýr. Það fallegasta sem hefur verið sagt um fæðinguna hingað til er að ég hafi verið grár á litinn og hjúpaður grænu slími. Og þessi lýsing er frá pabba. Já, það væri nú aldeilis gaman að finna lyktina á Gauki á Stöng. Er ekki hægt að telja útlendingum trú um að þetta sé gott fyrir húðina og tappa þessu á flöskur, eins og okkur Íslendingum er einum lagið með iðnaðarúrgang? Og já, auðvitað átti ég að leyfa stúlkunni að setja sig undir öruggan verndarvæng sterkra karlmannshandleggja minna. En hugsa að ef ég hefði beðið nokkrum sekúndum lengur með að forða mér, þá væri ég ekki enn með "sprautaður með piparúða" á listanum yfir hluti sem ég á eftir að lenda í.

Lindablinda

Ég er enn að spá í hvaða kvenkyns á þínum aldri sem ekki var Homo Sapiens Sapiens þú hefur fyrr og jafnvel síðar hrifist af........?? My thoughts are scaring me. Ég myndi annars drepa fyrir að fá svona athygli á kvöldgöngu, bara svona til tilbreytingar. Flestir sem maður mætir á göngu ,hvort heldur er á degi eða nóttu eru fljótir að líta ofan í barm sér og Guð forði þeim frá því að bjóða daginn eður kvöldið. Leikarapartý áttu það oft til að enda á Gauk á Stöng á sunnudagsmorgnum. Það er ekkert annað en andlegt skipbrot fyrir þá sem í því lenda og líklegast ein aðalástæða fyrir því að ég nennti ekki að standa í því að koma mér á framfæri, enda er eina leiðin til þess á Íslandi að mæta í partýin. Kalli - þeir eru tveir Jónarnir. Áttu við annan eða báða?

Elín

" eina skiptið sem ég minnist þess að hafa hrifist af einhverju kvenkyns á mínum aldri. " HA? Ef ég kynni það myndi ég lyfta upp annari augabrúninni.

Gestur

Hugi, baby, ertu að reyna að segja okkur eitthvað?

baun

einmitt, ég hnaut um þessa setningu (eins og Elín) og hruflaði mig á sinni hægt að túlka þetta á ótal vegu: a. þú ert bara hrifinn af miklu yngri eða eldri konum b. þegar þú varst á þeim aldri þar sem kynhvöt karla er í hámarki, varst þú aldrei hrifinn af neinu kvenkyns c. minni þitt er afar gloppótt

Hugi

Hehe, nei, ekkert annað en að ég er illa skaddaður á geði. En það er ekkert sem ekkert ykkar ekki vissi ekki áður. Eða þannig :). Og til að fyrirbyggja allan misskilning, þá ek ég ekki um á rauðum sendiferðabíl með hanskahólfið fullt af súkkulaðistykkjum sem ég býð ungum stúlkum á förnum vegi, heldur virðist heilinnn í mér leita upp á við í aldri. Ekki langt, en upp á við :-). Gildir raunar um flest fólk sem ég umgengst, karlkyns eða kvenkyns. Og vá, nú er ég búinn að segja allt of mikið. Örugglega ólyfjan í kaffinu, hef samstarfsstelpur mínar grunaðar um að lauma regulega Rohypnoli í það og misnota svo líflausan líkama minn í númeraplötugeymslunni.

Hugi

Baun, Elín, afsakið, ég ætlaði ekki að trufla ykkur á sinni. Ég er að vísu með gloppóttara minni en Ronald Reagan, en ég hugsa að ég mundi muna eftir því ef ég hefði leitað eftir "Manly love" á menntaskólaárunum. Eða kannski er það eitthvað sem á eftir að rifjast upp hjá sálfræðingi einhvern daginn? Ég vona samt ekki. Innilega.

Gestur

Já, Hugi, ekki vera að trufla þá sem eru að kommenta hér á síðuna ÞÍNA á meðan þeir eru í vinnunni. Ég held að þú ættir að reyna fyrir þér með hláturnámskeið. Það myndi ekki vera þurrt auga í salnum.

Elías

Ég held að Hugi bara hreinlega átti sig ekki á hversu oversexed hans lesendahópur er. "Ha, hefur hann EKKI verið ástfanginn af öllum bekkjarsystrum sínum? Til hvers var hann annars að fara í kórinn, ha?"

Siggi Óla

Lykilorðin eru: "á mínum aldri". Hugi hrífst augljóslega af þroskuðum konum. Og þær af honum....heyhey waddayaknow? Pööööörfekt!

Sveinbjörn

Þroskuðum konum? Rugl og vitleysa. Hann vill ekkert hafa með þær að gera nema þær séu nýlega orðnar löglegar ;)

Sveinbjörn

Speaking of which, þú ert að verða svolítill svona "Tucker Max" (http://www.tuckermax.com) Íslands, með öllum þessum stórmerkilegu og sexually hlöðnu sögum úr lífi þínu. ;)

Elín

já ég skil þú leitar uppá við eins og Kalli.... hí hí. ps. Hefuru tekið eftir lesendahópnum þínum? Af því sem ég get lesið á milli línanna ekkert nema singul konur á besta aldri :D (hvað ertu annars gamall?)

Kalli

Eins og ég...? Jæja... Linda: ég er auðvitað að tala um þann Jóninn sem söng um sunnudagsmorguninn.

Gamli

ótrúlegt hvað sumar konur gera sig að miklum fíflum :)

Lindablinda

Konur gamli!!?? Þú veist að hann Hugi er karlmaður er það ekki?? Hann á sko allan heiðurinn af því að gera sig að fífli á þessari síðu.....nema þegar hún er síðan mín.

Hugi

Haha, takk, Gestur, held ég sleppi því :-). Og *hóst* þessi umræða um "smekk minn á þroskuðu kvenfólki" er farin að valda mér talverðum kinnroða. Hljómar eins og ég þræði elliheimili landsins á daginn og reyni að heilla stelpurnar þar með færni minni í að spila "Manna" í von um að geta fjarlægt gerfitennurnar úr einhverri þeirra með tungunni um kvöldið. Ég var nú bara að meina að ég hef alltaf umgengist fólk sem er fjórum, fimm árum eldra en ég og finnst ég eiga meira sameiginlegt með þeirri kynslóð en minni eigin. Ég er s.s. ekki samkynheigður barna- eða gamalmennaníðingur, þetta er bara fólkið sem er í kringum mig. Og hananú! :-) Roðnvöðvarnir nýkomnir úr aðgerð eftir síðustu vandræðalegu umræður og ég veit ekki hvort þeir þola meira álag í dag. Ég verð að hætta að blogga þegar fóturinn á mér er fastur í munninum. Elín, ég tek ekki eftir neinu undarlegu við lesendahópinn, hann er alveg stórskemmtilegur :-). En úr því þú spyrð, þá er ég af kynslóðinni sem er kennd við '79. Sveinbjörn, þessi Max Tucker er alveg gríðarlega disturbing náungi. Fróðlegar reynslusögur. Fróðlegar. Gamli, ég veit ekkert hvað þú ert að tala um, allt það kvenfólk og karlfólk sem kemur við sögu á þessari síðu er skemmtilegt, gáfað og fallegt. Ég er með fíflasíu á síðunni sem lokar á svoleiðis umferð.

Guðjón Helgi

hva sendiru ekki kvörtunarbréf til borgarinar vegna lélegar lýsingar þetta gæti verið grafið djúpt í sálatötrinu ;)

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin