Til uppfyllingar

13. október 2005

Þegar ég fer inn á baðherbergið mitt þessa dagana, þá get ekki annað en hugsað til eins mesta verkfræðiafreks sögualdar: Cloaca Maxima. Og það er ekki vegna flúrsins á veggjunum, öflugu stoðvirkjanna eða annarrar dirfsku í hönnun, nei, það er vegna fjölskrúðugrar og miður ánægjulegrar lyktarinnar. Eitthvert hræðilegt slys sem átti sér stað í pípulögnum Hagamels 51-53 í vetur orsakaði það að mikilvægur loftventill á þakinu stíflaðist. Hlutverk hans er að hleypa í gegnum sig loftsoginu þegar sturtað er niður í klósettum og þegar hann stíflast þá sogast vatnið úr öllum vatnslásum hússins í hvert skipti sem sturtað er niður einhversstaðar í húsinu. Fyrir vikið liggja tvö göt úr baðherberginu hjá mér beint niður í holræsi borgarinnar, og af lyktinni að dæma, þá held ég að Reykvíkingar verði að fara að huga alvarlega að mataræðinu!

Þegar ég varð ilmsins fyrst var hélt ég að hreinlæti væri gríðarlega ábótavant hjá mér og fyrstu vikurnar tók ég allnokkrar sveittar hreinsunartarnir á klósettinu, þar sem ég beinlínis háþrýstispúlaði allt settið að innan, utan og bakatil með 90°C heitu vatni úr sturtubarkanum. Það hjálpaði auðvitað ekkert og á endanum hringdi ég í manninn sem veit öll svör: Pabba. Hann stakk upp á að áðurnefndur loftventill væri vandamálið og ég held að það hafi bjargað geðheilsu minni þegar nágrannakona mín staðfesti meinið daginn eftir og svaraði játandi þegar ég spurði hana varlega hvort klósettið hjá henni lyktaði stundum eins og handarkrikarnir á Satan.

En nú er ég sem betur fer kominn í framkvæmdanefndina sem á að sjá um að laga þetta, þannig að þetta verður að líkindum komið í himnalag innan nokkurra ára. Þangað til gæti ég þess bara að hafa tappann öllum stundum í baðkarinu og vaskinum - og anda með munninum inni á klósetti.


Tjáskipti

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin