Ekki sonur Satans

22. febrúar 2009

Ég vaknaði í fyrrinótt við eitthvert undarlegt brambolt frammi í stofu. Ég reisti mig varlega upp og var að fara að smeygja mér í náttbuxurnar þegar Karl Sigurbjörnsson, Gunnar í Krossinum og Snorri í Betel ruddust skyndilega inn í svefnherbergið. Snorri benti á mig þar sem ég stóð svefndrukkinn með annan fótinn í náttbuxnaskálminni og hrópaði "þarna er hann - sá illi!" - svo þustu Karl og Gunnar fram, gripu undir sitthvorn handlegginn á mér og héldu mér föstum, þrumandi biblíuvers á latínu (eða smákökuuppskriftir, ég veit það ekki, ég kann ekki latínu) á meðan Snorri rakaði af mér hárið.

Þegar Snorri var búinn að raka allt af byrjuðu þeir að rannsaka hársvörðinn á mér. Eftir nokkra stund var Karl orðinn eitt spurningarmerki í framan og sagði hugsi "ég skil þetta ekki, spænski hellamunkurinn undir Hallgrímskirkju sagði að fæðingarbletturinn mundi birtast að næturlagi sunnudags í föstuinngangi". Svo hvessti hann augun á mig og spurði "Þú illi! Er þetta ekki Hagamelur 51, íbúð 2C!". Ég andvarpaði og skýrði kurteislega að þetta væri Hagamelur 53 - 51 væri næsti stigagangur. Þeir urðu svolítið vandræðalegir, en ég sagði þeim að þetta væri ekkert mál og algengur misskilningur. Svo gaf ég þeim kaffi og skonsur áður en þeir fóru yfir í næstu íbúð til að éta hjartað og lifrina úr Gunnari nágranna mínum, sem reyndist vera antikristur. Sem mig hefur raunar grunað lengi.

Og nú er mér kalt á hausnum. Og ég er ekki antikristur. Eintóm vonbrigði alltaf.


Tjáskipti

Halldór Eldjárn

Það er dáldið eins og þú sért með gyðingakollhúfu! Mjög svalt og trendy og PC. :P

Hugi

Hehe, já - ég tók eftir því. Innbyggð kollhúfa, mjög hentugt ef ég ákveð að skipta um trú. Finnst annars lítið svalt við þetta og hlakka til að fá hár aftur - fæ enn hressilegt taugaáfall og rek upp öskur í hvert skipti sem ég lít óvart í spegil. Mjög vandræðalegt á almannafæri.

Logi Helgu

Hjúkk...ég hélt að hármissirinn væri eitthvað smitandi sem væri að ganga niðri vinnu ;)

Esther

En þér ekki kalt á efri vörinni, er það?

Hugi

Varlega Logi - ég sá Sævar á röltinu með skæri í morgun. Það er enginn öruggur.

Hugi

Hmmm, Esther þú meinar það já... Yfirvaraskegg... Á maður að fara alla leið og fullkomna perraútlitið? Veit það samt ekki - ég er að verða loðinn á svo undarlegum stöðum að ég líkist orðið meira þæfðum ullarvettlingi en manneskju og verður eiginlega hvergi kalt, nema hugsanlega á augunum. Þau eru ekki loðin. Ennþá.

Jón Björn

Er verið að horfa mikið á Die Hard þessa dagana Hugi? Þú neyðist eiginlega til að safna börtum og yfirvaraskeggi til að fullkomna lúkkið.

Hugi

Jón Björn, það verður alltaf draumurinn að líta út eins og Villi prússakeisari. {macro:km:picture id="1000579"}

Atli

Þessi saga er lygi! Þig langaði bara svo svakalega að líkjast mér!

Hugi

*dæs* náðir mér Atli. Ég get bara ekkert að þessu gert, þú ert staðalímynd hins fullkomna karldýrs af tegundinni Homo Sapiens Sapiens. Grísk-íslenskt goð. Og ert búinn að kosta mig vel á fjórðu milljón í lýtaaðgerðir síðan við kynntumst!

baun

til hvers að vera með rautt hár og raka það svo af???

Syngibjörg

Ég spyr ,eins og Baun, - alveg í forundran WHY???

Hugi

Ég þakka hlýleg orð í garð rauðu lokkanna. Lifi Rauðlokkuheyfingin! En þetta var bara smávægileg tilraun og verður ekki viðvarandi ástand. Lagðist í rúmið í gærkvöld með stóra pakkningu af súkkulaðiís og hlustaði tárvotur á Bette Midler meðan ég skoðaði gamlar myndir af hárinu á mér. Ég sakna þess.

Sveinbjörn

Nú vantar bara að tattóvera eitt stykki hagenkreuz á ennið, og þá ertu flottur.

Hugi

Ertu alveg galinn! Það er svo agalega fortís eitthvað - nútímafasistinn tattóverar á sig bláan fálka.

Ósk

Þú ert ekki sonur snatans!

Eva

Vá...þetta er bara nokkuð flott :-P

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin