Það er magnað hvernig undirmeðvitundin getur farið með mann, og hvernig maður getur stöðugt verið að uppgötva þar undarlegar leifar frá bernsku.
Þegar ég fer á fætur á morgnana vippa ég mér alltaf fimlega framúr og lendi a.m.k. metra frá rúminu. Sama geri ég þegar ég fer að sofa á kvöldin, en þá stekk ég upp í rúm, og ég er að tala um alvöru stökk því ég tek stutt tilhlaup og læt mig svo vaða á ferðinni í tignarlegum boga (sem er hluti skýringarinnar á því hversvegna ég er einhleypur, því ef einhver er nógu óheppin til að verða fyrir mér þar þá er eins gott að viðkomandi hafi sterk sterk bein og góðar tennur).
Ég hef alltaf álitið þetta sjálfsagt og aldrei velt fyrir mér hvers vegna ég breytist í kengúru eftir miðnætti, en í gærkvöldi fór ég að íhuga þetta þar sem ég lá í rúminu og nuddaði tognaðan axlarvöðva eftir síðasta rúmstökk. Og þá gerði ég merkilega uppgötvun.
Það sem ég uppgötvaði var að heilinn í mér (sem ég tala alltaf um í þriðju persónu því hann er snargeðveikur, lifir algjörlega í sínum eigin heimi og ég vil ekkert hafa með hann að gera) virðist nokkuð viss um að undir rúminu mínu sé skrímsli. Og ef ég fer of nálægt því gæti það teygt sig undan rúminu og gripið í fótinn á mér.
Ég varð fremur hissa á þessari persónulegu hugljómun, hugsanlega vegna þess að ég er ekki fimm ára. Ég ákvað að sannreyna þetta, teygði annan fótinn varlega úr rúminu og tyllti honum á gólfið við hliðina á því og viti menn, samstundis greip mig gríðarleg ónotatilfinning svo ég kippti honum strax aftur upp.
Ég lá í keng og hló að mér í smá stund og íhugaði svo málið aðeins. Loks varð ég pirraður, muldraði við sjálfan mig "Þetta er nú meiri fjandans vitleysan", svipti af mér sænginni, fór á fætur og stillti mér upp með þrjóskusvip.
Og þannig, kæra dagbók, atvikaðist það að klukkan hálf-eitt í nótt stóð ég nakinn í myrkrinu við hliðina á rúminu mínu og sannaði þar með að skrímsli eru ekki til. Held ég.
magnað, ég er haldin nákvæmlega sömu tilfinningu og stend aldrei fyrir framan rúm sem ná ekki alveg niður á gólf. spurning um að taka af skarið eins og þú :)
Sko besta leiðin til að vinna á þessu er einfaldlega að hlaða nógu miklu drasli undir rúmið þannig að ekkert skrímsli komist þar fyrir. Svínvirkar. Sama gildir svo um fataskápa, bílskúra og fleira. Ég get fullyrt að það eru engin skrímsli í nokkrum einasta skáp hér á Þjórsárgötunni. Og ef ég man rétt voru heldur engin skrímsli nokkursstaðar í herberginu mínu á Magahel.
Ég er með svona fóbíu gagnvart sturtuhengjum. Í hvert skipti sem ég svo svipti þeim frá í hræðslukasti bregður mér, þó að það sé ekkert á bakvið. Býð ekki í það hvað gerist ef einn daginn eitthvað ER á bakvið!!
....... og ef ég verð nakin þegar og ef það gerist er spurning hvor verður hræddari - ég, eða skrímslið. Kannski var þitt skrímsli bara hrætt við dinglumdanglið??
Alveg laus við skápafóbíur en ég kannast við þetta með skrímslið undir rúminu. Ég veit að það búa skrímsli undir rúminu. Þegar ég var þriggja ára, eða svo, þá fékk ég ekki frið fyrir þessarri óvætt sem bjó undir rúminu mínu, og foreldrar mínir gengu svo langt að færa mig í annað herbergi tímabundið, sem lagaði ástandið aðeins. En ég sá líka ýmislegt þegar ég var krakki sem aðrir sáu ekki. Ég sé ekkert slíkt lengur. Og raddirnar í höfðinu á mér eru meira að segja hættar að hvísla að mér.. :-P
Hryssa, gleðilegt að vita að ég er ekki einn :-). Spurning um að stofna stuðningshóp? Ég prófaði að standa fyrir framan rúmið mitt áðan (hversu sorglegt er það) og er tvímælalaust ekki læknaður. En ég ætla að horfast í augu við óttann og labba að rúminu mínu í kvöld, haha. Daníel, ég prófa það.. Linda, merkilegt :). Ég þakka annars álitið sem þú hefur á mér en ég held að skrímslið hafi ekki séð dinglumdanglið. Það lafir ekki alveg niður fyrir rúmbrúnina.
Heh.. það er einn í heimsmetabók Guinness sem þannig er ástatt fyrir... Dinglumdanglið er svo langt að það er eiginlega frekar skott... Og svo líður víst yfir hann ef hann verður eitthvað æstur - eitthvað með að það er ekki nóg blóð í "heiminum" fyrir hann og "hann", báða í einu. Alveg ný sería af vandamálum sem maður ætti við að etja ef þannig væri ástatt fyrir manni. Doktor, I'd like to have sex tonight. Can you come over and give me a blood transfusion and a bottle of Viagra ? Bleh :-P Hugi: Vertu í sokkum, og taktu eftir því hvernig skrímslaóþægindin eru einhvernvegin fjarlægari á meðan sokkarnir eru á löppunum :o)
Jájá, suss, ég þekki þetta vandamál svo vel. Enda hélt ég alltaf með þrífætlingunum í samnefndum þáttum. Ég fann til samkenndar. Skrímslið mitt elskar sokka. Þeir eru forréttur.
Ég var alltaf kallaður "þrífóturinn" í kvikmyndaskólanum, út af smá partýtrikki sem ég kann. Hvað varðar skrímsli undir rúmum, þá eruþau raunveruleg.Oftar en ekki eru þetta framsóknarmenn á milli tilvistarstiga, ýmist lífs eða liðnir.
Ég hef alltaf haldið alla framsóknarmenn vera á milli tilvistarstiga? (Á þessum tímapunkti er rétt að taka fram að alltaf þegar ég nota orðið "framsóknarmenn" þá er ég að tala um hina sérstöku manngerð Homo Sapiens Hriflensis sem þekkist af framstæðu enni, hægum talanda (muldri) og ákvarðanafóbíu vegna vanþróaðs heilabarkar samanborið við Homo Sapiens Sapiens. Það er til virkilega gott fólk sem fyrir einhver kosmísk mistök hefur hrasað inn í framsóknarflokkinn, en þetta fólk uppgötvar yfirleitt villu síns vegar.)
Ég skil ekkert í mér, verandi búin að blogga í rúmlega þrjú ár og aldrei hafa minnst á skrímslin sem búa undir rúmunum.... Sorry Hugi minn, þau eru þarna! Eins og við framsóknarmennirnir :-(
Það er ekki nóg að taka tilhlaup, maður verður líka að passa sig að tásurnar kíkji aldrei undan sænginni á nóttunni þá geta þau náð manni og dregið mann undir rúm. :o/
Kæra unga fólk sem les þessa síðu. Það eina sem mér dettur í hug þegar ég sé það sem hér að ofan er ritað... Þetta eldist hægt af ykkur. Það er aldursforsetinn sem hefur talað.
Harpa - Elín - þið líka! Þetta er alvarlegra en ég hélt. Erum við ekki að verða nógu mörg til að mynda reiðan múg með kyndla og heykvíslar og fara niður í bæ til að hengja skrímsli? Og Harpa, hafandi hitt þig get ég fullyrt að þú ert ekki af Hriflensis-kynstofninum. Þú ert ein af góðu gæjunum.
Hafiði pælt í því að kannski eru skrímslin bara undir rúmi því þið bjóðið þeim aldrei góða kvöldið og spyrjið hvort þeim langi í mjólk og kökur? Og svo viljið þið hengja þau niðri í miðbæ? Hvers konar villimenn eruð þið eiginlega. Þetta er samt allt OK ef þau eru virkilega öll framsóknarmenn...
Auðvitað er ég ein af góðu gæjunum. Þú ert mannþekkjari Hugi ;-)
Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin