Nema, nam, naumt

14. desember 2006

Jæja, tónlistarprófum er lokið í ár og ég er núna tveimur sextánduhlutum af gráðu nær því að útskrifast sem djasspíanisti. Og fékk einkunn sem gladdi, merkilegt nokk. Átti ekki von á því.

Helsta klikkið í aðalprófinu (sem kallast stigspróf, svona til fróðleiks fyrir amatörana) var að ég byrjaði fingraæfingu eftir fornaldarvin minn, Carl Czerny, á tæplega hundraðföldum hraða. Tilfinning ekki ósvipuð því að láta skjóta sér úr teygjubyssu eitthvað út í loftið - villt ferðalag sem vonlaust er að vita hvernig endar. Ég hélt að hausinn á kennaranum mínum mundi springa þegar ég var hálfnaður í gegnum fingraflækjuna - það var á tímabili hægt að sjá í bert hold í gegnum svitaholurnar á enninu á honum - en þetta fór vel þótt það ryki úr fingrunum á mér þegar ég var búinn.

Naut svo ótrúlegrar lukku í verklegu prófi í hljómfræði í gær. Mætti í prófið, geispandi, vitandi að þetta yrði ekkert mál. En svo komst ég að því fyrir tilviljun, á kjaftatörn við stelpu í sama fagi, að ég átti að kunna eitthvað bölvað lag utanað fyrir prófið og gera fullt af ólýsanlegum, hræðilegum hlutum við það sem ég hafði aldrei gert áður, saklaust ungmenni sem ég er.

Svo það far fátt annað að gera en að fá lánað hjá henni blað með laginu, leggja hljómana á minnið og bíða svo spenntur þess sem koma skyldi. Biðtíminn leið reyndar hratt þar sem ég rakst á stelpu með samskonar heilaskemmdir og ég, og við eyddum talsverðum tíma í að rökræða hvort kennarinn héldi að hann væri banani eða ekki. Sem var ágætt (það var mjög lítið súrefni þarna inni).

Og viti menn. Nía fyrir prófið. Sem sannar bara það sem Lalli Johns segir alltaf, maður á aldrei að læra fyrir próf.

Og nú ætla ég að baka pönnukökur.


Tjáskipti

inga hanna

Frábært! Til lukku :)

Hugi

Takk :-).

Elías

Til hamingju!

Miss G

Alveg frábært!

Sveinbjörn

Já, fílósófía Lalla Johns hefur reynst mér prýðilega í mörg ár...

hildigunnur

til hamingju :) Skil vel að þú hafir ekki haft tíma til að hljómsetja einhver jólalög :-D

baun

til hamingju með það snillingur:) (komust þið að niðurstöðu í stóra bananamálinu?)

Glæst! :-D

Þór

Þetta glæst! átti náttúrulega að vera ritað í nafni jólakattarins :-P

lindablinda

Til lukku með árangurinn! Kannast vel við þetta "byrja allt of hratt" syndróm. Sem betur fer er eins og að maður fari í eitthvað annarlegt ástand þar sem að heilinn fer bara á auto og fingurnir gera sitt, verst ef að manni dettur í hug að fara að hugsa hvað maður er að gera. En þú ert snillingur. Ég spyr annars eins og baun............er kennarinn banani?

Hugi

Takk, takk :). Við komumst ekki að niðurstöðu í stóra bananamálinu. En við vorum a.m.k. sammála um að það er eitthvað bogið við hann. Og að hann er mjög sætur.

Carlo

Mér óar við hvernig kynni þú hefur haft af þessum kennara en til hamingju með árangurinn!

Barbie

Innilega til hamingju minn kæri. Glæsilegt.

Halldór

Jááá, var það ekkert minnisstætt að hitta mig :'( Nei djók lol! :D

Hugi

Takk Barbie og Carlo :). Hvaða hvaða Halldór, þú varst alveg einstaklega eftirminnilegur! Við bara töluðum um svo gáfulega hluti að ég er ekkert að sóa því samtali á sauðsvartan almúgann :).

Mjása

Talandi um pönnukökur, hvernig býr maður til amerískar pönnukökur (þessar sem maður setur hlynsýróp á)?

Þór

Eruða ekki bara lummur án rúsína ? Svona eiginlega vöfflur steiktar á pönnu ?

Elín

Til lukku Hugi.

Halldór

Og til að toppa þetta samtal þá set ég hér link inn á amerískar bananapönnukökur. http://www.mrbreakfast.com/display.asp?categoryid=1&subcategoryid=4&recipeid=545

Hugi

Hehe :-). Mjása, búðu bara til pönnukökudeig og bættu við svolitlu hveiti - þá verða þær þykkari og hlynsírópsvænni. Takk Eín!

Stefán Arason

Til hamingju með prófin! Já, dettur þér stundum í hug að spila hratt??? Kemur mér algjörlega að óvörum :-)

Hugi

Takk Stebbi. Og *hóst* jú, ætli ég hafi ekki tekið kraftmikið tempó áður, í eitt skipti eða tvö :-).

Stefán Arason

Köllum það rösk tempó ;-)

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin