Pempíur þessir kanar

22. ágúst 2006

"Sir, Please put your pants back on".

Þessi setning skipar núna öruggt fyrsta sæti á listanum yfir setningar sem ég bjóst aldrei við að heyra frá karlmanni - hvað þá vopnuðum öryggisverði. En þetta fékk ég að heyra í skipandi tóni frá einum slíkum á alþjóðaflugvellinum í San Francisco.

Þannig vill til að á gallabuxunum mínum eru málmhnappar. Þeir valda vandræðum í þessum málmleitarhliðum flugvalla sem eru orðin svo næm að það liggur við að það þurfi að tappa af manni blóðinu vegna járninnihalds svo maður komist í gegn.

Þegar ég kom að málmleitarhliðinu í San Francisco vissi ég að þetta yrði vesen og ákvað af herramennsku að gera mitt besta til að flýta fyrir. Þannig að ég reif mig snarlega úr buxunum og skellti þeim á færibandið.

Það sló þögn á nærstadda. Öryggisvörðurinn rak upp stór augu og færði höndina nær skammbyssuhulstrinu. Hann renndi augunum hægt niður fæturna á mér (ég var heppinn að vera smekklega klæddur að neðan þennan daginn), horfði svo beint í augun á mér og sagði fyrrnefnda setningu með samanbitnar tennur, "Sir, Please put your pants back on".

Ég reyndi að skýra málið (rosa gaman að rökræða við öryggisvörð hérumbil ber að neðan að viðstöddum tugum áhorfenda) og á endanum hleypti hann mér í gegn. Enda sýndi stutt rannsókn með málmleitarsprota að hnapparnir á buxunum voru vissulega stórhættulegir.

Það er víst ekki vel séð þarna í Bandaríkjunum að menn fletti sig klæðum óumbeðnir. En ég er auðvitað bara á undan minni samtíð eins og alltaf, því ég er viss um að þessi þróun í flugöryggi á eftir að enda með því að við verðum að ferðast nakin.

Ef ég ætlaði annars að sprengja flugvél þá mundi ég nú bara gleypa einn eða tvo smokka fyllta með nitróglyseríni og laxera svo hressilega í flugvélinni. Eiga eldfimar hægðir, ef svo má segja.


Tjáskipti

Carlo

Í mínu tilfelli vildi vörðurinn ekki að ég færi úr skónum þótt ég útskýrði endurtekið að þeir væru að valda flauti frá hliðinu. Honum hlýtur að hafa fundist ég táfýlulegur.

Fríða

Hvað heitir það þá að fara úr jakka og skóm, er það ekki að fletta sig klæðum?

Sveinbjörn

Hahaha, þetta er rosalegt. Kanar eru svo pseudo-siðprúðir.

Knúturinn.

Bahahaha...Húgó, þessi saga er þegar orðin klassíker.

Carlo

Hugi, þú hefur ekki kynnt þig sem Mr. Pantless eða Slacksoff?

Mjása

Skrítið. Það er aldrei sett út á það þegar ég fer úr buxunum á flugvöllum ;)

Geztur

O, hvað ég vona að þú hafir verið í rauðum silki-g-streng. Eða loðnum hlébarða... Annars er bara ekkert gaman.

Carlo

Hehemm... hér er það ég sem geng í þvengjum.

Lindablinda

Ogghh..... þú svona eins og pakkið sem ég þurfti að taka á móti í Júmbóinum í fyrsta beina fluginu sem flogið var til San Fransisco frá skerinu og sjá svo um að lóðsa næstu vikuna. Búið að handtaka heminginn af liðinu fyrir fávitagang um leið og það lenti....... - Good job Hugi. - lol Annars er ég búin að vera organdi af hlátri yfir myndinni sem núna hefur þrykkst inn í minni mitt. Allir farþegar kviknaktir og ósköp vandræðalegir í löngu flugi......get ekki hætt að hlæja, sé fyrir mér svipinn á fínum frúm og fimmtugum mömmudrengjum, allir að reyna að vera nonchalant.. Hahahaha! ps.Gott að þú sért samt búinn að plana bombuna. That is a sure sign of a sound mind my friend.

Carlo

Það er virkilega til flugfélag sem fer með fólk í nektarflug. Svo að ef þessi mynd í huganum á þér heillar, Linda, er bara mál að panta ;)

Geztur

Carlo. Hm. Kúrileiga, g-strengur, táfýla. It does not compute.

Guðjón Helgi

LOL þetta er bara búið að bjarga deginum ;)

baun

held þú sért á undan þinni framtíð líka, hvílík snilld að vippa sér úr buxunum fyrir framan einkennisklædda þungvopnaða menn með ygglibrún (við hvaða tónlist fór þetta fram?) gvöööð hvað ég sé þetta fyrir mér *dreymin á svip*

Carlo

Ég hef samkvæmt traustum heimildum að tónlistin hafi verið Kamasutra með Manfred Hubler And Siegfried Schwab. Þetta lag má finna á safndisknum Vampyros Lesbos Sexadelic Dance Party.

Barbie

Sat einu sinni í afar fínu boði þar sem hostinn lék "Sir, can I have some more" senuna úr´Óliver nokkrum Twist. Alla. Og hún er löng. Það var pínlega fyndið.

Hugi

Fríða, ég efast um að kanar fari úr jakka og skóm svo aðrir sjái til. Það er náttúrulega stórkostlega ósiðlegt. Carlo, heh, væri þetta nafn ekki frátekið fyrir slavneskan nektardansara - t.d. Tekmai Slacksoff. Mjása nei, ég er reyndar alveg á sömu línu og þetta er ný reynsla - ég hef aldrei áður verið beðinn að fara í buxurnar aftur :-). Geztur, auðvitað var ég í <a href="http://www.abcunderwear.com/slingshot-thong-ring.html">uppáhalds axlabandaþvengnum mínum</a> (ath, þetta er gömul mynd af mér). Linda, maður á alltaf að plana fram í tímann með bomburnar, maður veit aldrei, sjáðu til. Baun, þú þarft ekki bara að sjá þetta fyrir þér, wink wink, nod nod :-). Ég skal fara úr buxunum í píanópartýiinu. Og svo er aldrei að vita nema þetta atvik endi í "America's funniest security videos" eða "Passengers go Wild". Barbie, LOL. Og tónlistin sem var í gangi í flugstöðinni var auðvitað lyftutónlistar-pan-flautu-útgáfan af "You can leave your hat on".

Carlo

Ég heyri Robert Stack fyrir mér í voice over af öryggisupptökum í Passangers Go Wild.

baun

sjitt, ég HATA panflautur... oh, well, þar fór það...

Lilja

Hér situr maður í rólegheitunum á sunnudagsmorgni fyrir framan tölvuna og les blogg af handahófi. Hefði ég vitað að ég myndi frussa af hlátri, hefði ég ekki verið nýbúin að hella mér brennheitu tei í bollann. Heilber snilld en ég mun senda þér reikning fyrir nýju lyklaborði, skjá og hreinsun á rándýrum frottéslopp úr Rúmfatalagernum.

Hugi

Já Baun, vissirðu að panflautur voru fundnar upp af nasistum? Það er almennt talið að panflautan beri beina og óbeina ábyrgð á sturlun og dauða um þriggja milljóna gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni. Lilja, gott að geta glatt fólk svona á sunnudagsmorgni. Og ég mun berjast við þig til síðasta blóðdropa fyrir rétti vegna reikningsins sem ég á von á vegna tölvunnar og sloppsins, ójá. Ekki get ég gert gert neitt í því þótt þú hafir enga stjórn á hringvöðvanum - þ.e. þessum efri. Ég er vondur maður.

Lindablinda

https://lotus.selnes.is/mail/lindath.nsf/0/36E589DF8271B9EB002571D4005FA126/$File/New%20security%20measures.jpg?OpenElement

Carlo

Hvað í ósköpunum ertu að vísa í Linda?

Lindablinda

Hahahaha! Góð spurning, sýnir hvað tölvusnillingurinn ég er klár!! Þarna átti að koma fram mynd sem ég fékk senda af nöktum flugfarþegum.

Lilja

Hvers lags mannvonska er þetta? Þú gleður mann á sunnudagsmorgni en tekur svo ekki ábyrgð á því? Sveiattan.

Hugi

Linda, það er aldeilis að þú færð... áhugavert... efni í tölvupósti svona dags daglega :). Lilja, sem ég segi, ég er vondur, vondur maður. Sannkallað illmenni. Jebbs, Hugi hinn Illi er ég kallaður í daglegu tali. Ég er ekki "svarti sauðurinn" í fjölskyldunni, ég er "viðjóðslega illmennið". Aldrei koma með börnin þín hingað. Ég ét þau. Og ekki vera á ferðinni um Hagamelinn ein að næturlagi. Þá ét ég þig líka. Eða sýg úr þér blóðið. Ef ég skyldi ekki hafa náð að hamra punktinn heim, þá er hann sá að ég er vondur.

Lilja

Það er eins gott að ég á engin börn enn, segi nú ekki annað. Verra þykir mér að uppáhaldsísinn minn er einmitt seldur á Hagamelnum. Nú eru góð ráð rándýr, rándýrið þitt.

csvwnnbre

Pempíur þessir kanar csvwnnbre http://www.gq61w5uy4wq39z91sa67a8yb8he36b86s.org/ <a href="http://www.gq61w5uy4wq39z91sa67a8yb8he36b86s.org/">acsvwnnbre</a> [url=http://www.gq61w5uy4wq39z91sa67a8yb8he36b86s.org/]ucsvwnnbre[/url]

yikbbdzfoi

Pempíur þessir kanar <a href="http://www.g6i84hbr9ku7n03zh2h03lq11a6p2j07s.org/">ayikbbdzfoi</a> yikbbdzfoi http://www.g6i84hbr9ku7n03zh2h03lq11a6p2j07s.org/ [url=http://www.g6i84hbr9ku7n03zh2h03lq11a6p2j07s.org/]uyikbbdzfoi[/url]

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin