Ég er hreyfingarfíkill og blómstra yfirleitt ekki eins og það litla saklausa blóm sem ég er nema ég fái daglega einhverja hreyfingu. Ég er eins og íslenskur fjárhundur, ef ég er ekki hreyfður verð ég alveg hýper og hleyp geltandi fram og til baka, rispandi parketið og mígandi í öll horn. En. Ég hef aldrei séð tilganginn í þeirri iðju að sitja í sal og lyfta hlutum og borga fyrir það í þokkabót. Í síðustu viku hlýtur þó að hafa sprungið æð í heilanum á mér og valdið stórskaða, því ég lét mig hafa það og byrjaði að stunda lyftingar. Það var líklega fjölmennt á skíðasvæðinu í Vítisfjöllum þann dag.
Ég er ekki vanur að fara rólega í hlutina og lyfti eins og, eh, maður sem lyftir mikið, þar til vöðvarnir öskruðu á mig "hvern fjandann ertu að gera maður, hættu þessu, ertu orðinn geðveikur". Þá ákvað ég að hætta, því raddirnar vita yfirleitt hvað þær syngja.
Handleggirnir á mér voru einskis nýtir eftir tiltækið svo ég þvoði mér með fótunum í sturtunni og fékk stæltan karlmann til að skrúbba á mér bakið. Svo keyrði ég heim, stýrði bílnum með nefinu og skipti um gír með tönnunum, einu hlutum líkamans sem mig verkjaði ekki í. Þegar ég var búinn að feta mig á hnjánum upp stigann heima og inn í íbúð lagðist ég upp í rúm og sofnaði í fósturstellingunni.
Þegar ég vaknaði daginn eftir ætlaði ég að vippa mér fram úr rúminu með hefðbundnu léttu stökki. En við fyrsta átak fann ég fyrir vítiskvölum ekki ósvipuðum því að ég hefði sett Barböru Streisand á fóninn, hellt yfir mig blásýru og hent mér í hrúgu af logandi kaktusum og glerbrotum. Orðið "harðsperrur" nær ekki að lýsa þessari tilfinningu. Ég hrundi aftur í rúmið og bölvaði því að vera ófær um að lyfta símtólinu, annars hefði ég hringt í vinnuna og meldað mig veikan.
Ég rúllaði mér varlega úr rúminu, hrundi á gólfið, tók góðar 20 mínútur í að klæða mig og skreið svo inn á klósett þar sem ég skorðaði tannburstann í vaskinum til að geta burstað tennurnar. Svo flæddi ég í vinnuna með osmósu.
Frábært að "rækta líkamann" svona, þessi dagur var lifandi helvíti. En ég fór samt og refsaði mér meira í gær, enda vondur strákur. "Aldrei læra af reynslunni, það er tóm tjara" sagði amma alltaf.
Þú mátt alveg taka myndir af þessari tannburstatækni.
Hugi Hugi Hugi! Ertu búinn að gleyma öllu sem við lærðum hjá Hjalta? Byrja rólega og bæta smám saman við. Nú ertu bara að prengja æðar tvist og her. Ef þú heldur svona áfram verða engar æðar eftir sem þú getur sprautað vinnualkalíninu í!
Ég byrjaði einu sinni svo skart í lyftingum eftir langt hlé að ég sprengdi stóran hluta háræðanna í andlitinu á mér. Ekki gáfulegt. Einu sinni var ég að lyfta hnébeygju þegar það sprakk æð í andlitinu á mér og það rann blóðtaumur niður kinnina. Mér fannst það mjög kúl og karlmannlegt at the time, en eftirá að hyggja.........ekki gáfulegt.
Óskar "aldrei læra af því sem aðrir kenna þér, það er tóm tjara" sagði amma líka. Það er náttúrulega alveg einstaklega karlmannlegt að lyfta þar til blæðir úr andlitinu á manni. Ég stefni að því!
Manstu eftir myndunum af verstu gyllinæðum heimsins Hugi? Ef ég væri þú myndi ég ekki hlusta á ömmu í þetta skiptið og fara rólega af stað...... og teygja. (!!!!)
Eins og Hilde Braunschweiger einkaþjálfari sagði hérna um árið: "Alle gamle folk deyyyja... deyyja til hæggri... deyja til finstri" Hlustaðu nú á Hilde Hugi minn
Úff, gyllinæðarnar, ég var búinn að gleyma þeim. Kannski ég sleppi þessu í kvöld og kíki frekar í góða bók og eldi grænmetissalat með Husk-dressingu. Hilde vissi hvað hún söng. Ég sé hana alltaf fyrir mér þegar ég geng fram hjá eróbikk-salnum (sem ég kalla "Auschwitz"), þar sem lög unga fólksins drynja í hátölurum og þjálfarar með athyglisbrest söngla "Wooh, wahhh, yeah, og koma svo, yeeeaaah, vúúhííí!" yfir samviskubitnum andlitum.
Já ég sakna gömlu góðu dagana þegar maður gat farið í Tæ Bó með Frank Sinatra á fóninum. Grænmetissalat blífur. Þarft að bjóða mér í dinner einhvern tímann. Ég myndi meira að segja pína í mig 1/8 hluta úr tómat!
Það er varla til meira upplyftandi tilfinning eins og að geta ekki haldið uppi símtólinu því bæseppinn er svo upptrekktur eftir lyftingar ... steratröllið ég lenti einu sinni í því og lifi enn á því hvað mér leið eins og sterabolta ... þessi lesning vekur upp góðar minningar, kannski maður ætti að taka einn tíma og sprengja sig, það ætti að duga manni í nokkur ár í viðbót ;)
Vá, þessi lýsing á afleiðingum líkamsræktar slökkti alveg hjá mér þá litlu löngum sem ég hef glímt við undanfarið til að gera eitthvað í langvarandi fromleysi og aukakílóum. Þetta ra svakalegt. sannfærði mig líka enn frekar um að það er bara slæmt og óhollt að stunda svona sport.
Er ég slow eða er dáldið gay að biðja um myndir af þessari tannburstunartækni? Hreyfingarnar við þetta gætu verið... uh... áhugaverðar?
Nei það er ekki gay, Kalli, það er perralegt, og það er eitthvað allt annað en að vera gay. Næst þegar þú verður í Árósum ertu velkomin í heimsókn og við getum rætt þetta nánar yfir glasi af góðu víni og súkkulaðihúðuðum jarðarberjum...sko þetta var gay!
Damn... þá er ég gay því mér leist bara mjög vel á boðið. Kannski er ég bara svona saklaus?
Strákar, jiii þið eruð svo sætir! Tannburstatæknispjallið og vinalegar athugsemdirnir í kjölfarið... Þið farið alveg með mig! Gyllinæðarkjaftæðið læt ég sem ég hafi ekki séð. Sprungnar andlitsháræðar sömuleiðis. Þið saklausu sumarrósir... ;-)
Já Hugi ég hugsa að það væri gaman að fá þig niður í skóla til þess að sýna okkur þessa tannburstunartækni, við getum breytt út boðskapinn fyrir þig!
Stebbi, leitt að valda vonbrigðum en Kalli er á réttum slóðum, tannburstunartæknin er Gay. Mjööög gay. Ég er sakleysingi en samt finnst mér ég hafa verið notaður af tannburstanum mínum. Við erum að tala um að ef ég fæ einhverntíman fastráðningu sem dansari á gay-bar í Amsterdam, þá verður "tannburstinn" vinsælasta atriðið mitt, það sem fastakúnnarnir koma á hverju kvöldi til að sjá. Jón, hvenær á ég að mæta upp í Tanngarð? Útvegið þið tannkrem? Kibba, mér líst ofurvel á Sinatra-eróbikk og held að það verði næsta æðið í líkamsrækt. Tæ Bó væri t.d. mjög gott með "I get a kick out of you". Legg til að við þróum þessa hugmynd betur yfir salatinu. Nei, Salný! Gaman að sjá þig á þessum virðulega vef. Ég sé að þú tekur eitthvað mark á því sem ég segi, en það eru hefðbundin byrjandamistök. Það fer aldrei vel, ekki gera það. Skelltu þér í ræktina, þetta er stórfínt, nú get ég lyft þyngri hlutum en áður, sem gagnast mér auðvitað ekkert þar sem það þyngsta sem ég lyfti yfir daginn er kaffibolli, en það er samt ákeðin perraleg sjálfsánægja sem fylgir því. Og svo er ég líka farinn að stíla upp á að fara alltaf á sama tíma og "Skrúbbur", gaurinn sem skrúbbar á mér bakið eftir æfingar. Hann er snillingur með skrúbb og ætti að opna skrúbbstofu. Skrúbbur. Skrúbbur. Skrúbbiskrúbb. Skemmtilegt orð.
Ég vil gjarnan fá að vita á hvaða tímum þú ert í ræktinni...ég er nefnilega í sömu rækt og ég er sannfærð um að það virki hvetjandi á mig ef ég skyldi þó ekki nema bara í eitt skipti verða vitni að Huga Þórðarsyni sprengja æð
Bryndís, ég fer bara þegar andinn kemur yfir mig. En við eigum örugglega eftir að hittast :-). Og fyrir þig skal ég glaður sprengja æð eða tvær.
Þetta. er. brjálæðislegasta. pikköpplína. í. HEIMI. "fyrir þig skal ég glaður sprengja æð eða tvær" Það heyrir kraftaverkum til að þú skulir ekki vera a.m.k. þrígiftur.
Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin