Óvæntar afleiðingar götótts kúplingsdisks

13. mars 2005

Hún var nú dásamleg þokan sem huldi okkur sunnanmenn um daginn, mér leið hreinlega eins og ég væri kominn heim til Norðfjarðar á ný. Á þriðjudag ætlaði ég að nýta mér þessar skemmtilegu aðstæður, keyra að Esjunni, rölta upp á topp og njóta þess að horfa af sólskinsböðuðum fjallstoppi á þokusúpuna hylja 120.000 manns sem grunaði ekki að rétt ofan við þá skein sólin skært. Skemmtilega táknrænar aðstæður.

Ég stökk léttur á fæti upp í Volkswagen '96 stúlknagildruna mína, sneri lyklinum glaðlega í kveikjunni, ýtti djarflega á kúplingsfetilinn og snaraði í gír - en þá heyrðist undan vélarhlífinni hljóð sem aðeins er hægt að lýsa sem þungu andvarpi eða jafnvel dauðastunu. Mín elskaða kúpling varð bráðkvödd, blessuð sé minning hennar, og símtal til sérfræðings leiddi í ljós að þörf var á bílrænu ígildi hjáveituaðgerðar. Til að auka á gremju mína birtist svo auðvitað í Morgunblaðinu daginn eftir undurfögur mynd af Esju-útsýninu yfir þokuna.

Ég mun því um skamma hríð aftur skipa raðir bíllausra og það er, ólíkt því sem margir halda, afar fjarri því að vera heilsusamlegt. Ég geng nefnilega heim úr vinnunni og það vill svo illa til að á miðri leið er Ingólfsstræti 3, einnig þekkt sem "Ari í Ögri". Fyrir þá sem ekki vita, þá er Ari eitt besta kaffihús norðan Ítölsku Alpanna (alla daga vikunnar nema laugardaga. Þá er "trúbadorakvöld" sem þýðir að þangað er fengið fólk sem hvorki kann að syngja né spila á gítar til að syngja og spila á gítar) og ég neyðist náttúrulega á heimleiðinni til að stoppa þar stuttlega við og fá mér einn öl eða fimm, annað væri argasti dónaskapur, líkt því að skunda daglega fram hjá heimili gamals vinar án þess að kasta á hann kveðju.

Það jákvæða við þetta allt saman er sú skyndilega ritgleði sem hefur gripið mig en hún er að sjálfsögðu framreidd undir áhrifum hins görótta Ara [teygir sig í ölglasið].


Tjáskipti

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin