Eitt orð

8. október 2007

Er hægt að lýsa manneskju í einu orði?

Ég lá í makindum um daginn og las. Skyndilega og fyrirvaralaust datt heilinn í mér í gang svo ég lagði bókina frá mér og fór að hugsa - um texta, og hvernig hægt er með örfáum orðum að skapa ljóslifandi fólk úr engu. Þá er ég ekki að tala um aðalpersónur sem fá oftast mikið pláss og eru vel skilgreindar, heldur þennan aragrúa annars fólks sem kemur við sögu - aukapersónurnar.

"Skuggalegur maður gekk hjá".
"Afgreiðslukonan var góðleg".
"Blaðberinn var lítill og brosmildur".

Við fáum lítið sem ekkert að vita - höfundurinn fleygir kannski í okkur einu eða tveimur lýsingarorðum - en samt skapar maður samstundis í huga sér heila persónu með útlit, forsögu, ilm og allt það heila.

Þetta finnst mér heillandi.

Er hægt að snúa þessu við og lýsa lifandi fólki í einu orði? Og væri maður aukapersóna í bók, hvaða lýsingarorð fengi maður í sinn hlut? Ég var að ræða þetta við vinkonu mína um daginn og hún úthlutaði mér orðinu "góðhjartaður". Ég reyndist hinsvegar ekki góðhjartaðri en svo að ég úthlutaði henni orðinu "lúmsk" (enda var það tvímælalaust lymskubragð hjá henni að kalla mig "góðhjartaðan" - hún vill eitthvað frá mér).

Ímyndunarafl... Besta afl í heimi.


Tjáskipti

Stefán Arason

Þú fengir "hugljúfur" frá mér.

inga hanna

lágvær.. hvernig væri það?

Hugi

Þakka þér Stebbi minn, þú fengir "glaðvær" frá mér. Eða jafnvel "einstakur". Erfitt að troða góðu fólki í eitt orð. Það er bara fallegt, Inga Hanna :-)

Miss G

Sjaldséður er það sem mér flýgur helst í hug. En það er líka af því að ég þekki Huga bara í þessum bloggskilningi, ekki hinum Biblíulega.

Mjása

Svo ég steli smá úr Mary Poppins: Supercalifragilisticexpialidocious!

Siggi Óla

Hugi minn.... Það er ekki nokkur einasti séns að lýsa þér í einu orði. En ef þú stilltir mér upp við vegg þá myndi ég segja......rauðbirkinn :-)

Hugi

Sjaldséður já. Held raunar að það sé heiminum fyrir bestu að ég sé sjaldséður, ég hef slæmar aukaverkanir í of stórum skömmtum. Líst afar vel á Supercalifragilisticexpialidocious. Tóm þvæla - alveg eins og allt sem ég skrifa! Rauðbirkinn já... Hmmmmm... :-) Og svo helst ekki fleiri lýsingar á mér, gæti endað með því að einhver segi sannleikann og það fer aldrei vel. Vil frekar heimspekilegar vangaveltur um annað fólk. Hvaða orð lýsir t.d. Halldóri Ásgrímssyni best? "Fjörkálfur"? "Kvennaljómi"? "Dansmaskína"?

Barbí

Mér datt fyrst í hug skemmtilegur. Og ég þekki yður ekki rass. En ímynda mér það...

Hugi

Oh, þakka þér fyrir Barbí :-). Sjálf ertu ímynd skemmtilegheita í mínum Huga!

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin