G-strengir eru fjör

2. febrúar 2006

Púff, gríðarleg vinnutörn undanfarna daga - nálgaðist næstum því Vefsýnar-skala. Til að gera langa sögu stutta þá lauk þessari törn um hádegið í dag, og ég ætlaði að fara heim kl. 14 og leggja mig í svona, tjah, 20-30 tíma, en svefn reyndist full metnaðarfullt verkefni fyrir líkama með hærra hlutfall koffíns en blóðs í æðakerfinu. Ég ákvað því frekar að drífa í að þrífa íbúðina mína, sem lítur núna út eins og víetnamstríðið og kóreustríðið hafi bæði átt sér þar stað. Samtímis. Áðan.

Ég ákvað að koffínvíman mundi alveg standa undir alvöru djúphreingerningu og byrjaði á að gera úttekt á fataskápnum mínum, ég er nefnilega með risavaxinn fataskáp sem ég hef aldrei nokkurntíman hent fötum úr og hef ekki komið þangað inn fötum sem ég nota, síðan hann fylltist árið 2001. Hann er því líkastur fataminjasafni með gripum frá mis-óheppilegum tímabilum í klæðaburði tölvumanna.

Þegar deginum lauk var ég búinn að fylla þrjá svarta ruslapoka af fötum og fara með í Rauða krossinn. Merkilegasta uppgötvun dagsins var tvímælalaust silfurlitaður karlmanns-G-strengur sem leyndist aftarlega í skápnum og ég man engan veginn eftir að hafa nokkurntíman sett þangað inn. Og vil helst ekki muna hvaðan hann kom, hlýt að hafa verið afar drukkinn það kvöld.

En dagurinn hlaut óvænt snilldarenda með ljúffengu Lasagna og þriggja tíma kjaftatörn hjá Önnu, besta nágranna hérna megin suðurpólsins. Sem var gott, það hjálpaði mér mikið við að gleyma G-strengnum.


Tjáskipti

Daníel

Svartur G-strengur? Var svona útsaumað rautt merki á honum vinstra megin? Stórt D með rauðri rós í miðjunni? Ef það er málið þá hef ég ekki hugmynd um hvaðan hann kemur.

Hugi

Nei, þetta er alveg áreiðanlega ekki hann, þetta líkist miklu meira nelliku en rós.

Bryndís Zoëga

Fórstu líka með g-strenginn til Rauða Krossins?

Hugi

Stóðst ekki freistinguna! Hugsaði sem svo að ef ég hefði haldið honum mundi ég áreiðanlega einhverntíman enda í honum. Og þá væri voðinn vís. Þannig að ef þú sérð einhverntíman sveltandi barn í Ghana í mjög sexí G-streng, þá veistu í hvers boði það er.

Sveinbjörn

Ah, Hugi, your transvestite nature revealed at last! Don't think I wasn't on to you, "He's a lumberjack and he's okay, he sleeps all night and he works all day"

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin