Gleðilega páska

17. apríl 2006

Ég er ekki mikil sælgætisæta. En skömmu fyrir páska fékk ég gefins frá vinnunni páskaegg númer 6. Fyrir þá sem ekki eru vel versaðir í páskaeggjafræðum, þá er egg númer sex svipað að stærð og meðalkarlmaður og inniheldur næga hreina súkkulaðiorku til að koma sundmanni til Kúbu og til baka aftur.

Ég dröslaði fengnum heim og opnaði pakkann, því ég ætlaði að brjóta eggið niður í skálar til að eiga handa gestum og gangandi. En svo fékk ég mér einn mola, og eftir það man ég ekkert. Súkkulaði-blackout. Ég rankaði aftur við mér nokkru síðar stumrandi yfir tómum umbúðunum af horfnu egginu, og skreið stynjandi inn í rúm þar sem ég lagðist á bakið og talaði tungum í dágóða stund. Áður en ég sofnaði órólegum svefni hóstaði ég upp gulum plastfugli og málshætti.

Þegar ég vaknaði daginn eftir vissi ég nákvæmlega hvernig úlfinum í Rauðhettu leið þegar búið var að koma grjótinu fyrir í maganum á honum og ákvað að forðast ömmur og djúpa brunna það sem eftir var dags. Tilfinningin hvarf þó eftir því sem leið á daginn og um kvöldið taldi ég nokkuð öruggt að brúna hættan væri liðin hjá.

En strax og ég vaknaði á þriðja degi og ætlaði færa hina hefðbundnu morgunfórn til postulínsguðsins (á hóteli í Borgarfirði) fann ég að neyðarástand var í uppsiglingu. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og mikinn kinnroða lét fórnin á sér standa. "Nújæja", hugsaði ég, "það bíður þá betri tíma". Þetta endurtók sig nokkrum sinnum yfir daginn og þegar komið var fram á kvöld var ég farinn að upplifa fæðingarhríðir. Og ég vissi að ég yrði að grípa til ráðstafana.

Ég fór inn á klósett með einurð í svip, setti stól undir hurðarhúninn, fann mér hentugt kefli til að bíta í og skorðaði mig kyrfilega af á klósettinu með því að setja fæturna í vegginn á móti mér. Svo opnaði ég allar gáttir. Ég svitnaði og öskraði og bölvaði, ég hló og ég grét, ég gladdist og reiddist og ég krafsaði með nöglunum í veggina þar til ég var kominn í gegnum málninguna. Líf mitt þaut framhjá augum mér, og á tímabili varð allt hvítt og mér fannst ég sjá alla framliðna ættingja mína standa í kringum mig og segja mér að "koma inn í ljósið".

En eftir um tíu mínútur bar erfiðið árangur og ég sver að Óðurinn til gleðinnar hljómaði í eyrum mér eins og sprenging. Skömmu síðar fæddi ég minn fyrsta grágrýtisklump, líklega um fjórtán merkur. Ég skakklappaðist á fætur og hló geðveikislega á meðan ég þvoði mér um hendurnar, hló áfram þar sem ég gekk út af baðherberginu, og þegar ég gekk hlæjandi framhjá afgreiðslustúlkunni í anddyri hótelsins brosti ég óþægilega breitt til hennar og benti með þumlinum á klósetthurðina. Hún brosti vandræðalega. Heyrði eflaust allan hamaganginn.

Nú gætu menn spurt sig, hvers vegna í ósköpunum skrifaði ég um þetta? Það er vegna þess að mér þykir vænt um ristla og gyllinæðarnar heimsins og vil að aðrir læri af mistökum mínum. Borðið Husk. Og farið varlega í páskaeggin.


Tjáskipti

Elías

Þetta byrjaði allt á því þegar meistari Þórbergur fór að lýsa hægðum sínum. Síðan þá hefur hægðavæðing íslenskra dagbókarskrifa farið út í algerar öfgar. Spurning hvort það þyrfti ekki að banna Þórberg til að forða æsku þessa lands frá siðferðislegu gjaldþroti?

Hugi

Jújú, þetta er alveg skelfilegt. Ég réði t.d. bara ekkert við þetta, algjörlega siðferðislega gjaldþrota. Hægðir! Ah, gerði það aftur, sorry, sorry, sorry.

DonPedro

Lífið er fullt af hægðum og lægðum. Mér finnst ekkert skrýtið að eitthvað sem við gerum svona oft sé umtalað. Flestir eiga hægðir oftar en kynmök. Nóg er nú talað um kynlíf, og þykir engum skrýtið. Þeir sem hafa kynmök oftar en hægðir eru annaðhvort mjög heppnir eða við það að springa í tætlur. Reynið aldrei, og þá meina ég ALDREI að blanda þessu saman.

Lindablinda

Þetta var yndisleg færsla! Ég hló svo mikið að ég efast um að ég geti kennt á eftir, en klukkan er 5:44 - Ég er hreinlega máttfarin. Ég er einnig sammála síðasta ræðumanni, þetta er stór hluti af lífi okkar og gæðin á þessum ritúal geta skipt sköpum um hvernig dagurinn æxlast. Annars minnti þetta mig á aðra sögu af einni vinkonu minni, nema hún endaði ekki eins vel. Sú endaði í apóteki þar sem að afgreiðslustúlkan hrúgaði Microlax í poka med det samme þegar hún sá framan í gæskuna þar sem hún starði trylltum sprungnum augum yfir afgreiðsluborðið, allar háræðar búnar að gefa sig í andlitinu og hvíslaði "hjálp". Í það skiptið voru það 3 páskaegg í blackouti.

Kalli

Hahahahaha! Þú ert betri en Baggalútur! Ég ætlaði að segja eitthvað svo sniðugt vegna einhvers sem kom fram í færslunni en bara man ekkert... ómæ. Ég held svei mér þá heppnari en þú í páskaeggjunum í ár. Ég braut bara tönn á möndlu sem ég góflaði í mig af mikilli græðgi og bruddi eins og grjótmulningsvél. Mandla 1 - Kalli 0. Mandlan lifði sigurinn ekki af.

Kalli

Æi já... Þú hefur ekki líka heyrt Tannhäuser þegar þú sturtaðir?

Siggi Óla

Hægðir henda (aka....shit happens)

baun

dásamleg saga. gamla fólkið veit að góðar hægðir eru guðsblessun og talar fjálglega um slíka viðburði. yngra fólk á að vera þakklátt fyrir mildar hægðir og gaman væri að sjá fleiri lífsreynslusögur á prenti. e.t.v. deili ég með lesendum mínum einni ljómandi skemmtilegri kúkasögu sem ég á af sjálfri mér. aldrei að vita. var þetta á mótel venus?

Hugi

Aww, shucks, you guys :-). Nei, í þetta eina skipti var ég ekki á Mótel Venus. Þetta tiltekna postulínshásæti var hamrað á hótel Hamri í Borgarfirði. En segðu endilega söguna þína, það er alltaf gott að létta svona hlutum af sér. HAHAHA, Linda, stórbrotin lýsing á vinkonu þinni! Kalli, ég heyrði öll tilkomumestu tónverkin - eftir á að hyggja var það þó líklega hápunktur 1812 forleiksins sem var mest áberandi.

Dillibossi

vá shit (hægðir) hvað ég hló mikið af þessari færslu hjá þér... ég sit á bókasafninu í Öskju og skeit næstum á mig af hlátri.. já ég bíst við að flestir eigi góða kúkusögu af sjálfum sér.... sjáum til ef ég verð uppiskroppa með "Hvað er málð með.. "umræðuefni á síðunni minni hvort ég fari ekki bara að blogga um síðustu hægðir!! síðustu hægðir eða jafnvel komandi hægðir og spái fyrir um hvernig þær muni ganga.. það væri jafnvel hægt að gera veðmál um það... já eða Tippa!! HUmm ég útfæri þessa hugmynd mína aðeins betur og læt þig svo vita.. hehehe

Elías

Mér ferst að kvarta yfir þessari lýsingu (sem var reyndar meira til gamans gert) því skömmu síðar setur að mér höfuðverkur og ógleði í bland við ræpuverki og harðlífi. Nú, meira en hálfum sólarhring síðar, er ég enn með aðkenningu að ógleði, talsverðan höfuðverk og enn hefur ekkert gengið upp né niður.

Hugi

Synd, kæri Dillibossi, það hefði orðið virkilega skemmtileg saga ef þú hefðir í alvörunni "misst það" í Öskju. Ég fylgist spenntur með bossa-blogginu næstu daga :-). Elías, hafðu engar áhyggjur, þú þarf aldrei, aldrei nokkurntíman að óttast að ég taki þig of alvarlega :-)

Elías

Gott. Þegar ég byrjaði að nota kímnigáfu mína á unglingsárum komst ég oft að því að fólk tók mig alvarlega þegar ég var að grínast. Ég var bara ekki mikið fyrir að blikka og brosa undirfurðulega og segja nudge nudge, wink wink. En, hvað haldið þið að líði á löngu þar til grátkórinn á Alþingi fer að fjargviðrast yfir hægðavæðingu Íslenskrar æsku? Annars líður mér eins og litháísku burðardýri á leið til Neskaupstaðar. Allt pikkfast. Samt tek ég Husk á hverjum degi.

baun

hvað í fjandanum er Husk?

Kalli

Nei, nei. Ekki Alþingi. Ég veðja á pistla á tru.is því það er eftir allt saman siðferðiskompás landsmanna.

Hugi

Baun, Husk er meltingarfærunum í þér það sem koppafeitin er verksmiðjunni, tryggir að allt gangi smurt fyrir sig í vélasalnum. Og hvað varðar Alþingi og tru.is þá hlakka ég strax til pistlanna: "Saurskrif og skítkast" - Biskup íslands fjallar um hrun íslenskrar æsku í rotþróna.

Elías

Husk er vara sem fæst í lyfjabúðum og er mestmegnis klíð (skurn) af fræjum plöntu sem kallast psyllium. Eldri og dýrari vara og sennilega betur þekkt er Metamucil.

Dillibossi

Vá maður er bara mættur á meltingafræði námskeið.... en segðu mér hvað er þá hægt að nota við niðurgang.. og ekki segja mér að þá þurfi ég bara að borða þrjú stikki páskaegg..er ekki alveg að meika þá fræði!!!

baun

læðist að mér oggu döpur tilfinning þegar ég sé ykkur, kornunga mennina, vitna í hægðalyf eins og sagnfræðingur í heimildir (undansk. hhg) hvert stefnir þessi þjóð? ætlar hún ekki að geta kúkað nema á lyfjum?

Hugi

Óþarfi að syrgja fyrir mína hönd Baun, ég er alveg gríðarlega heppinn með starfsemi á neðri hæðinni, endalaust góð stemning og hamingja þar alltaf. Svo lengi sem ég held mig frá páskaeggjunum. Dillibossi með niðurgang. Now there's a terrifying mental image... Sorry ungfrú Dögg, ég á engin ráð, en það er svo frótt fólk hérna að ég er viss um að það tekur ekki nema mínútur að fá lært svar.

DonPedro

Ég hef áður lýst yfir vel balanserðum Zen hægðum, án nokkurra aukaefna. Alveg organískt og fínt. Ég þakka einbetingu, einurð og natni velgengni í meltingu, ég tek þessar 10 mínútur á dag mjög hátíðlega og geri úr þeim helgiathöfn sem endurnærir sem andleg vin í eyðimörkinni. Einu skiptin sem hægðir hafa brugðist er þegar ég reyndi að bjarga nærskyldum bróður frá gjaldþroti með því að kaupa af honum Herbalife gums. Það er ein alsvakalegasta vitleysa í heimi, ég var alltaf svangur, alltaf orkulítill, alltaf með höfuðverk og illt í nýrunum, og dreit ekki næstum nógu vel. Var ráðlagt að drekka 20 lítra af vatni þegar ég kvartaði undan þessum meinum. Þegar svo allt helvítið stoppaði og ég byrjaði ég að tútna út, gaf ég skít í gumsið, fékk mér einn góðan hammara og koktara meððí, og fór svo og dreit sem alrei fyrr. Síðan hef ég aldrei litið um öxl.

Kalli

Ég ætlaði að svara Baun að við værum allir full of shit. Dillibossi, Hugi og Doninn hafa hins vegar sýnt og sannað að svo er ekki.

Elías

Vegna þess að þrátt fyrir gourmet eldamennsku og heilbrigðan lífsstíl og allt það, þá borða ég bara einfaldlega of mikið drasl. Gourmet eldamennskan er fyrir þá daga þegar maður hefur tíma og nennu.

Elías

Já, og Husk flokkast varla undir lyf. Það er meira eins og fæðubótarefni. Næsta stig við hveitiklíð.

baun

allt í lagi. allt í lagi. enough already með þetta husk. sé eftir að hafa spurt.

Elín Björk

Er sumsé á þessu að skilja að ef mér dettur í hug að droppa við í kaffi á allra næstu dögum þá sé EKKI til súkkulaði mðe kaffinu???

Hugi

Á þessu heimili er alltaf til súkkulaði, svart eins og syndin. Og þið eruð alltaf velkomin í kaffi. Eins og raunar flestir aðrir á þessu heimili :-).

Hugi

LOL baun, you asked for it.

hildigunnur

wahahahaha við eigum enn eftir ein 15 páskaegg hér heima...

Kalli

Þá kemur næsta spurning: hvar færðu decent súkkulaði? Ég vil eiginlega hafa það beiskt... eitthvað sem virkar vel með einhverju stout-ættuðu eða rauðvíni t.d.

Hugi

Hef reyndar ekki kynnt mér súkkulaðimenninguna nógu vel og er bara með Siríus 70% á lager (kaupi alltaf 7-8 plötur í mánaðarlegu Bónusferðinni :-). Melabúðin á líka alltaf Green & Blacks sem er alveg einstaklega gott. Getur þú (eða aðrir) mælt með einhverju? Væri fróðlegt að heyra góð súkkulaðiráð, ég er forfallinn fíkill á súkkulaði eins og svo margt annað.

Kalli

Þessar dökku súkkulaðitilraunir mínar eru nokkuð nýjar af nálinni. Prófaði eitthvað í Konfektbúðinni um daginn sem stóðst ekki væntingar. Mér líkar einmitt mjög vel við Síríus 70%. Það hefur þessa beiskju sem ég sækist eftir. Annars er óhætt að mæla með konfektinu úr Mosfellsbæ. Algert brill að fá sér einn mola með góðum bolla af espresso.

DonPedro

NEINEI Alvöru súkkulaðið fæst í litlum fallegum plötum í Nóatúni. Man ekki nafnið, gref upp á því og kem með það. Ekki kaupa vont súkkulaði á meðan!

Hugi

Ég er einmitt að horfa núna þvert yfir skrifborðið mitt á pakka af kakói merktan "Chocolate Sensation". Brosi alltaf lúmskt í hvert skipti sem lít á þennan pakka, og ég hef ykkur grunuð um að vita hvers vegna. Öll.

Dillibossi

vá 34 comment af skít...geri aðrir betur!!

Mjása

Gott súkkulaði í Sandholti á Laugaveginum.

Orri

Viðkvæmni er þetta að þola ekki eina sexu. Ég hámaði í mig ógrynni af páskaeggjum og það sveiflaði ekki mínum afar reglulegu og ljúfu hægðum eitt hænufet til eða frá. Í þessari deild er ég vél. Vel stillt, smurð og gljáandi fín vél. Galdurinn er trefjaát og að gefa sér góðan tíma til algjörrar tæmingar. Þannig viðheldur maður heilbrigðri þarmaflóru.

Hugi

Jæja, nú er umræðan búin að þróast frá hægðum yfir í súkkulaði, þaðan aftur yfir í hægðir og loks aftur í súkkulaði. Mig langar eiginlega ekkert í súkkulaði lengur.

baun

æ já Hugi. farðu nú að skrifa um eitthvað annað. t.d. gubb

Alda

Ef það er belgískt er það gott (súkkulaði, ekki hægðir). Bý sjálf í Belgíu og fékk send 7 Nóa síríus páskaegg (6 lítil og eitt nr. 4). Finnst það alltaf jafn fyndið. Eins og að senda fullan poka af sandi til manns í eyðimörk.

DonPedro

Isss, það er ekkert. Ég fór með sandpoka til Dubai. Hló að mér alla leið, fannst ég svo fyndinn. Man ekki hvað helvítis súkkulaðið heitir....arggggh

Stefán Arason

mmm...fékk pínkulítið belgískt páskaegg áðan. Fökk hvað það var gott. Vona að það valdi ekki öngþveiti við hægðalosun. En Hugi, hvernig var með steinklumpinn þú lagðir í landslag Hellisfjarðar? Fáum við ekki þá sögu líka? :-)

Lindablinda

Það er til brilljant gott beiskt súkkulaði í Vínberinu á Laugarveginum - man ekki nafnið - en búðarkonan væna mælir með því fyrir þroskaða súkkulaðisjúklinga. Einnig er geggjað dökkt súkkulaði í Máður Lifandi í Borgartúni - að vísu drulludýrt - en þú syngur á meðan þú borðar það, innan í þér sko. Munnurinn er fullur. Nú bíð ég spennt eftir að vera boðin í súkkulaði og rauðvínsboð - like NOW!

Siggi Óla

Ég hef lengi verið fíkinn í gott dökkt súkkulaði. Mér þykri Valhrona súkkulaði einstaklega gott, en ég held að það sé franskt. Svo er Lindt súkkulaði stórfínt. Besta súkkulaði í heimi fékkst hins vegar í Kaffitári í Bankastræti. Það er ítalskt og heitir Amadei. Algerlega ólýsanlega gott. Ólíkt öllu öðru sem ég hef prófað.

maja

var að enda við að uppgötva þessa síðu. hló svo mikið að ég gat varla lesið þetta upphátt fyrir allt liðið í kringum mig sem vildi endilega vita hvað væri svona fyndið. það er eitthvað við prump og kúk.... nema hvað, til hamingju með skemmtilega síðu og unaðslega orðheppni.

Atviksorða-Anna

"...og fór svo og dreit sem alrei fyrr. Síðan hef ég aldrei litið um öxl. " Ég er rétt búin að jafna mig andlega á grein Huga um saurinn þegar mér verður litið á svarhalann, rekst þar á þessa mögnuðu lýsingu Don Pedros á hans stormasömu sambúð við þarmana...og ég á ekki til orð. Flosi Ólafs eat your heart out! Mér hefur líka alltaf fundist að það ætti að beygja drita eins og skíta: drita-dreit-dritum-dritið. Bara lógík. Og aumingja maðurinn minn sem heldur að ég sé alltaf á pornósíðunum hrekkur við og skilur ekkert í þessu frussi og flissi. Ég verð að koma upp með einhverja góða skýringu í hvelli. Ekki vil ég að hann komist að því að ég stundi lestur á saurlífi vesturbæings af æðra kyninu! Það myndi ríða honum að fullu.

Ærir

Ærir hefur fátt til málanna að leggja, en etv er þetta einhver besta lýsing á byrjunareinkennum á því sem heitir á meðal læknisfræðinga "colon islandicus" eða risaristill. Það var ekki fyrir ekki neitt sem kári valdi þessa sérstöku þjóð fyrir sérstöðu sína. munið garnaverndina.

Atviksorða-Anna

Get ekki annað en tekið eftir að vér síðulausir fáum gráan hjúp á nöfn okkar til aðgreiningar. Nú lendi ég permanently í gettóinu með hinum aumingjunum lest I found a site of my own! Panic panic! Ekki viljum við sitja uppi með vandamálapakk(a) af slíkum toga, nóg er nú samt með þessa útlendinga sem rotta sig saman alveg stjórnlaust. Ég fæ bara svima...

Simmi

Dögg ég veit hvað virkar við ofvirkum hægðum. Loperamide heitir það og telst til nauðsynja þegar þú ferðast í löndum með misjant gæðaeftirlit á matvælum. Imodium hefur reynst sérlega vel Sjá - http://en.wikipedia.org/wiki/Loperamide Gott súkkulaði kemur frá Belgíu & Sviss - 50% cocoa innihald og yfir. Mosfellsbakarí og Sandholt (fyrir 101 búa) bjóða gæða súkkulaði og það fyndna er að síðan Fæða og Fjör hófst þá hefur Nói tekið við sér og býður 56% og 70% fyrir okkur súkkulaðifíklana....

Simmi

Smá klúður með tenglinn - þessi virkar - http://en.wikipedia.org/wiki/Loperamide

hildigunnur

tek undir að Amedei er toppurinn, því miður held ég að það fáist hvergi lengur :( Fékkst á tímabili í Iðu og Ostabúðinni en er hætt að fást. Slær út bæði Valrhona, Lindt og Neuhaus og hvað þetta allt heitir.

Fía pía

Þú ert fyndnastur í heimi Hugi. Láttu mig um að vita það. Eins og á bestu heimilum, sitjum við hjónin í sitthvoru horninu með tölvurnar okkar og brestur á með hláturrokum við lesturinn. Innilegustu hamingjuóskir með afkvæmið!

Hugi

Stebbi, Hellisfjarðarsagan er þegar komin á Netið, skil það eftir sem æfingu handa lesendum að finna hana, þar sem ég hef ekki orku til að skrifa meira um eigin meltingarstarfsemi í bili. Maja, Atviksorða-Anna, Fía og þið hin, ykkur þakka ég fyrir fögur orð í garð minna orða. En vara ykkur við að þetta gæti haft afleiðingar, ætti eiginlega að hafa skilti á upphafssíðu vefsins "Warning: Do not feed the Ego". Það er þegar orðið fremur bústið og sjálfstætt og ég bíð bara eftir að það drepi mig í svefni og éti mig. En það er einmitt það sem kom fyrir Dr. Hannes Hólmstein.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin