Lesið í stjörnurnar

21. mars 2005

Ég var rétt í þessu að enda við að lesa fimmtudagsútgáfu gleði- og siðfræðitímarisins DV. Fyrir rælni kíkti ég á stjörnuspána, líklega í fyrsta skipti sem ég skoða stjörnuspá frá því að mamma og pabbi voru áskrifendur að "gamla" DV (þið munið, þessu sem ekki var fullt rætni og illgirni) á níunda áratugnum. Svona hljóðaði spáin mín:

"Ef þú þjáist af sektarkennd, ótta eða einhverju öðru, þá á það sér rætur í persónuleika þínum, kæri sporðdreki. Smáatriði sem tengjast atburðum síðustu daga móta framtíð þína. Allt skiptir máli. Þú ert að ganga inn í nýjan kafla sem færir þér dýpri skilning á hamingjunni sem þú átt svo innilega skilið að upplifa".

Kaldur hrollur hríslaðist niður hryggsúluna á mér og gæsahúðin var svo suddaleg að mig langaði mest að hoppa upp í með næsta oddaflugi og bruna "suður". Ég vona að hver svo sem skrifar þessa stjörnuspá hafi greiðan aðgang að Arecibo- og Hubble-sjónaukunum og sé fyrir vikið að skila af sér mjög nákvæmum spám. En miðað við venjulega heppni mína hefur viðkomandi þó eflaust brugðist bogalistin, gæti t.d. hafa reiknað stöðu Úranusar rangt um eina gráðu og þrjár mínútur, þannig að þar sem stendur "hamingjunni" á raunverulega að standa "nístandi kvölunum".

Líklegast finnst mér reyndar að Reynir Traustason sitji heima hjá sér á nærbrókinni með sígarettu í munnvikinu og skáldi þessar spár. Fullur biturðar út í heiminn vegna þess að það er ljótur hattur fastur við hausinn á honum.

En á óskyldum nótum: Þetta eru nú meiri prakkararnir þarna á DV. Ef einhver þeirra skyldi fyrir eitthvert hræðilegt slys rekast inn á þetta rafræna nöldurhorn mitt, þá vil ég koma á framfæri sérstökum þökkum til þeirra fyrir að ganga aldrei undir öðru nafni meðal vina en virðingartitlinum "Viðurkenningaþrjóturinn".


Tjáskipti

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin