Nikkan

12. mars 2007

Ég er búinn að vera með harmonikku í láni undanfarið. Að hluta vegna þess að bakið á mér þolir ekki lengur að ég sé að dragnast með píanóið í útilegur og partý, en þó fyrst og fremst vegna þess að harmonikkur eru kúl. Hver hefur eki séð hvernig ungar stelpur bráðna og kikna í hnjánum þegar góður harmonikkuleikari missir sig í villtum polka. Ójá, unga fólkinu í dag finnst alveg ýkt speisaðislega kúl að spila á harmonikku.

En já, bróðir minn er búinn að stofna hljómsveit og vantaði harmonikku í eitt laganna þeirra svo hann bað mig að senda sér nikkuna, þannig að ég tók hana með mér þegar ég fór í vinnuna á miðvikudaginn. Það var jökulkuldi úti og þar sem mér þykir vænt um menn og dýr og harmonikkur ákvað ég að taka hana með mér inn á skrifstofu svo henni yrði ekki kalt í bílnum. Hvað ef þetta væri nú ein af þessum töfraharmonikkum sem öðlast einhverntíman líf - þá mundi hún kannski stofna eigið fyrirtæki og verða rík og fræg og hlæja að mér "Hah, þú skildir mig eftir í ísköldum bílnum - færð ekki vinnu hjá mér" sem væri náttúrulega bara vandræðalegt. Það skal engin harmonikka eiga hönk upp í bakið á mér.

Altént. Ég hengdi nikkuna á mig og rölti inn í vinnuna.

Þegar ég kom inn mætti ég samstarfsstelpu og við buðum hvort öðru góðan daginn. En það sem mér fannst áhugavert var að það vakti ekki snefil af athygli hjá henni að þennan tiltekna dag var harmonikka hangandi utan á mér. Hún bara geispaði.

Hvað segir það? Er ég virkilega svo undarlegur að ekkert þykir eðlilegra en að ég rölti um í vinnunni með harmonikku klukkan átta á miðvikudagsmorgni? Og hversu langt get ég gengið? Hvað ef ég mæti á mánudaginn með ferskan karfa hangandi í neti framan á mér? Eða uppstoppaða önd límda á hausinn?

Jæja, í kjölfarið á þessu er ég alltént að íhuga að gera nikkuna bara að hluta af mínum daglega klæðnaði. Ganga bara alltaf um með harmonikku. Hvort sem ég er í ræktinni, að halda fyrirlestra eða sitjandi á fundum. Og ef einhver spyr hvað málið sé með harmonikkuna, þá svara ég "Harmonikka? Hvaða harmonikka? Hvað ertu að tala um? Ertu eitthvað geggjaður?".


Tjáskipti

Elías

Já, ég var einmitt með nákvæmlega sömu hugmynd varðandi rafgítarinn minn.

hildigunnur

ég mana ykkur að láta af verða...

DonPedro

Súsafónninn og ég, vika í lífi blásara...

hryssa

þú gætir líka haft svona þemavikur. ein vika er tileinkuð hafinu, næsta tónlist, svo fuglalífi og ítalskri matargerðarlist.... og svo mætti lengi telja og hafa gaman af. svo veitirðu fyrstu manneskjunni sem segir eitthvað við þig verðlaun.

Kalli

Allt í einu langar mig að eiga búning Choda Boy. Og auðvitað harmóníku. Þær eru töff.

Hugi

Hildigunnur, of seint að mana mig, ég er búin að þessu :-). En Elías, þú þarft hinsvegar að slá til. Hryssa líst vel á þetta! Er byrjaður að elda til að taka ítölsku matargerðarlistina fyrir. Spaghettí sem hár. Og tvær kjötbollur og salami um hálsinn. Pedro. Ég skal gefa þér aleiguna ef þú gengur skýringarlaust um með súsafón í viku eða svo.

Stefán Arason

Kúl að geta á miðjum fundi tekið einn léttan polka, svona ef fundurinn er leiðinlegur...eða spáið í hvað fermingarveislurnar yrðu skemmtilegar! Eða kynlífið! Vááá! Ég verð að drífa mig í að fá mér nikku! ps. mikið vildi ég að það hefði verið über cool og töff að spila á harmóníku þegar ég var að læra af afa gamla, c.a. 8 ára gamall. Við afi hefðu getað slegið í gegn í einhverri Idol keppninni!

baun

já, þær eru vandfundnar aðstæðurnar þar sem dragspilið rífur ekki upp vaðandi stemningu.

Hugi

Stebbi, þetta er reyndar gamall draumur hjá mér. Fólk spy að sömu hlutunum allan daginn, svo hví ekki að semja lög við þessi hefðbundnu svör. Lög sem svara spurningum eins og "Hvað segist?" eða "Hvað er að frétta?". Einn góðan veðurdag mæti ég með nikkuna og treð ofan í fólk sem hefur ekkert betra að segja. Annaðhvort með lagi - eða bara nikkunni sjálfri - hún er nú ekki svo stór. Og baun - það er mikið rétt. Eigum við að taka nikkupartý á næstunni?

Sveinbjörn

Fólk starir bara á mig ef ég er að ferðast um með nikkuna mína. E.t.v. hef ég ekki byggt upp nógu gott eccentricity-street-rep.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin