Gangan

18. ágúst 2005

Ég brá ég mér í göngu um síðustu helgi með Jóni Knúti og hans heittelskuðu, Sas (Clarissu). Upphaflega áætlunin kvað á um gönguferð frá Vöðlavík, út á Norðfjarðarhorn og svo heim til Norðfjarðar í gegnum Viðfjörð og Hellisfjörð. Gönguáætlunin breyttist þó og í stað þess að ganga þvert yfir Gerpissvæðið með tilheyrandi tjaldvist, þá var ákveðið að leigja húsið að Barðsnesi, gera það að höfuðstöðvum okkar fyrir hinar ýmsu göngur í þrjá daga og ganga svo heim.

Dagur 1
Ég og Jón Knútur brugðum okkur fyrir hádegi á fimmtudegi til Reyðarfjarðar til að versla í matinn. Á matseðlinum var hin mesta sælkerafæða, flatbrauð, kæfa, hangikjöt o.fl. Við komum til baka upp úr hádeginu og ákváðum að fara saman á Veiðibjöllunni með Dóra út á Barðsnes, en þannig háttaði til að í heimsókn í Neskaupstað frá Svíþjóð, í fyrsta skipti í fimmtán ár, voru engin önnur en Gummi og Herdís. Þar sem þau eru meðal míns uppáhalds frændfólks og pabbi vildi auðvitað ólmur fara með þau á sjóinn, ákváðum við að taka siglingu með þau um Norðfjarðarflóann og láta mig svo úr við Barðsnes. Við tókum því eftir hádegi alveg frábæra siglingu út fyrir Horn, þar sem Gummi sagði m.a. þessa sögu:

Það var algengt hér áður að Norðfjarðarviti bilaði, en þegar það gerðist sendi Vitamálastjóri út svohljóðandi tilkynningu í útvarp: "Norðfjarðarviti logar ekki. Vitamálastjóri.". Þetta hljómaði oft og iðulega fyrir eyrum landsmanna fyrir fréttatímann og á endanum urðu loftskeytamenn í Neskaupstað fokillir og einhver sendi eftirfarandi tilkynningu í útvarpið: "Vitamálastjóri logar ekki. Norðfjarðarviti.".

Klassískt :-).

Jæja. Mér var a.m.k. hent út í Barðsnesi eftir siglinguna, en þar sem almættið hefur af einhverri ástæðu á mér mikla vanþóknun, þá var ekki hægt að leggjast að hefðbundnu lægi við Barðsnes sökum öflugra strauma í firðinum. Ég var því settur úr á þriggja metra háum molnandi kletti sem stendur upp úr sjónum vinstra megin við Barðsnes, sem ég þurfti að klifra upp á og hoppa svo niður af. Þetta féll hinum stórlega lofthrædda Huga afar illa. Eftir að hafa klifrað upp klettinn og hent búnaðinum í land ofan af honum sat ég hreinlega fastur. Fjölskyldan skynjaði neyðina, sótti mig aftur á klettinn og pabbi fór svo alveg upp að fjörunni á bátnum, þaðan sem ég gat stokkið í land. Mun skárra. En myndavélin mín hefur ekki enn beðið þess bætur að vera hent ofan af klettinum.

Nú var ég kominn á Barðsnes. Ég vissi að lykillinn að Barðsneshúsinu átti að hanga "á bakvið fjósdyrnar" og gerði hvílíka nákvæmnis-dauðaleit að lyklinum að smámunasamasti fornleifafræðingur hefði verið stoltur af. Ég fann þó ekkert og gerði því það sem allir góðir menn hefðu gert í sömu stöðu. Ég dró upp prímusinn, lagaði kaffi og leit í bók.

Þegar Jón Knútur og Sas komu með Dóra á Veiðibjöllunni klukkutíma síðar sagði ég þeim að lykillinn að húsinu fyndist hvergi og við hringdum í Ingu, einn húsráðanda á Barðsnesi. Hún varð hvumsa þegar við sögðum henni að lykillinn væri horfinn og bauðst af stakri góðmennsku til að senda okkur annan lykil sjóleiðis. Eftir dúk og disk birtist bátur frá Norðfirði og í þeim báti fúlskeggjaður maður sem öskraði á okkur "Þið eruð nú meiri djöfulsins fíflin" . Svo henti skeggur í okkur lyklinum. Velkomin til Barðsness, segi ég bara - sumir byrgja innra með sér meiri reiði en gott er.

En lykillinn gekk þó að húsinu. Barðsnesbærinn var sem betur fer hlýlegri en skeggapinn, og greinilega hugsað fyrir öllum þörfum göngufólks þar. Í hverju horni var bekkur til að hvíla á lúin bein, í stofunni bækur til lesturs og gashitari, gaseldavél í eldhúsinu o.s.frv. Það var greinilegt að þetta var hinn besti staður.

Við fórum í fyrstu göngu ferðarinnar strax um kvöldið, gengum út að Rauðubjörgum og niður í fjöruna þar. Veðrið var milt og hlýtt þótt það væri skýjað og boðaði gott fyrir komandi daga. Þegar við komum til baka að Barðsnesbænum drógum við upp annan koníakspelann sem var með í för (þann stóra), sóttum okkur eldivið, settumst í fjöruna, kveiktum varðeld og nutum þess að vera til. Varðeldurinn naut tilverunnar ekki alveg jafn mikið og við og dó innan hálftíma en hann var þægilegur á meðan hann entist. Það var orðið aldimmt þegar við fórum að sofa.

Dagur 2
Næsta dag vaknaði ég ljúflega við brosmilt andlit Jóns Knúts yfir mér en hann færði mér af góðmennsku kaffibolla í rúmið. Ég hentist í buxur og hljóp niður í eldhús fullur orku en sá þá að Norðfjarðarflóinn var því miður á kafi í þoku. Þegar við lögðum af stað frá húsinu klukkutíma síðar vorum við enn á kafi í þoku. Við gengum út að Norðfjarðarhorni sem er einhver fegursti staður sem ég hef komið á og ég vann þar mikinn sigur á eigin lofthræðslu þegar ég lagðist á bjargbrúnina og horfði niður (líklega) 200-300 metrana að gullþúfuvitanum. Sökum þoku og þreytu ákváðum við að sleppa því að ganga niður skriðurnar á Mónes. Á leiðinni heim fékk ég þá flugu í hausinn að kafa í sjóinn til að ná í krækling í kvöldmatinn handa okkur. Það varð þó ekkert af því, þar sem ískaldur íslenskur sjór er furðanlega mótstæðilegur í austfjarðaþokunni.

Við náðum þó engu að síður 6 tíma göngu þennan dag og þegar við komum heim elduðum við okkur dýrindis pylsumáltíð og svo sátum við Sas til tíu og spiluðum. Blaðamaðurinn Jón var sjálfum sér samur og þótti gömul Morgunblöð skemmtilegri en spilin og lá og las. Við fórum að sofa um hálf-ellefu.

Dagur 3
Ég vaknaði kl. 10, enn fullur orku. Það var engin þoka en alskýjað. Við lögðum af stað til Sandvíkur um hádegi og vorum komin upp í Sandvíkurskarð rétt fyrir kl. 14. Á meðan við horfðum full vonleysis niður í þokutroðna Sandvíkina og ræddum framhaldið hvarf þokan skyndilega sem gerði niðurferðina (eða "niðurganginn") mun skemmtilegri og ég verð nú bara að segja að Sandvík er með fallegri stöðum sem ég hef heimsótt. Ekki síst vegna þeirrar miklu sögu sem þar býr en í Sandvík voru allnokkur býli sem öll lögðust í eyði fyrir miðja síðustu öld og enn sér móta fyrir þeim. Þegar við komum niður hituðum við okkur súpu og kaffi í tóftum eyðibýlis og gengum svo Sandvíkurfjöruna endanna á milli. Bakaleiðin upp í 600 metra hátt Sandvíkurskarðið var erfiðisverk en furðulegast var að sjá þokuna leggjast aftur yfir þegar við fórum til baka, það var eins og Sandvík hefði verið hreinsuð af máttarvöldunum meðan við vorum þar, bara fyrir okkur.

Þegar við nálguðumst Barðsnesbæinn á bakaleiðinni um kvöldið, hljóp ég á undan samferðafólkinu inn í bæinn, sauð vatn og tók stutt "bað" með aðstoð handklæðis. Það var óhemjulega gott að vera hreinn aftur. Svo reiddi ég fram þá verstu máltíð sem ég hef á ævinni framreitt, úr pakkapasta og spagettíi, hún sló jafnvel út hið fræga "hnetusmjörspasta" sem varð næstum því bani Skaftahlíðarmanna. En það var engu að síður hesthúsað af mikilli áfergju og okkur þótti það jafnvel bragðast vel, þótt ríkjandi bragð væri líkt brenndum gúmmíhjólbörðum. Við verðlaunuðum okkur fyrir duglegheit dagsins með snafsi úr koníakspelanum en svo fór samferðafólkið beint í rúmið. Ég lagði kapal til ellefu og skreið svo í bólið, þægilega úrvinda.

Þessa nótt datt ég fram úr rúminu með dynk sem sæmir 95 kílóa manni og hef líklega vakið fleira en mannfólk. Samferðafólkið hló mikið að mér daginn eftir.

Dagur 4
Við vöknuðum seint á degi 4, síðasta deginum, ekki fyrr en um kl. 10:30. Lemstranir fyrri dags voru enn til staðar og ég fékk hnút í magann á meðan við pökkuðum farangrinum í bakpokana. Splunkunýi 85 lítra pokinn var mun meira ógnvekjandi fullur af farangri á Barðsnesbæ en hann var í Útilífi í Glæsibæ. En við strengdum á okkur pokana og kvöddum Barðsneshúsið rétt fyrir hádegi. Ferðinni var heitið heim til Norðfjarðar. Við vorum komin inn í Viðfjörð upp úr kl. 13 en byrðin var þá orðin Sas um megn. Við hringdum því á bát og hún var sótt í Viðfjörð. Við Jón Knútur, verandi harðir karlmenn, ákváðum að halda áfram og halda okkar striki heim með allar okkar föggur áfram á bakinu. Þar sem Jón var talsvert stórstígari og fór hraðar yfir en ég en ég ákvað ég að leggja af stað á undan honum á meðan þau biðu eftir bátnum sem sótti Sas.

Þegar ég var að verða búinn að ganga út Viðfjörð fann ég að eitthvað mikið var að gerast í pípulögnunum á neðri hæðinni. Ég hafði nefnilega ekki gert "númer tvö" í fjóra daga. Upphófst nú mikil neyðarleit að klósettpappírnum sem ég var viss um að ég hefði pakkað í bakpokann og gafst ekki upp fyrr en ég var búinn að rífa allt úr bakpokanum. Þegar ekkert fannst varð ég að horfast í augu við aðstæður, reif niður um mig föðurlandið, settist á hækjur mér í guðsgrænni náttúrunni og skeit, eins og Þórbergur sagði forðum. Svo skeindi ég mér á blautum sokkum. Ég var gáttaður á fyrirbrigðinu sem ég skilaði af mér, stærðin var slík að útkoman átti eiginlega skilið að fá eigin þjóðartungumál og gjaldmiðil. En ég gróf það engu að síður undir stórum steini og vona innilega að sá steinn fái að liggja kyrr a.m.k. út þessa öld.

Eftir að hafa endurhlaðið pokann hélt ég göngunni áfram. Við Jón hittumst í botni Hellisfjarðar og þar löguðum við okkur kaffi eftir að við óðum ána. Af einhverri ástæðu kom upp á þessum tímapunkti sú frábæra hugmynd að "stytta okkur leið" þvert yfir fjallið við svokallaðan Lolla (helsta reðurtákn Norðfirðinga), í stað þess að fara Götuhjallann út fyrir fjallið og inn Norðfjörð. Líklega hefur kaffivíman verið full öflug. Við gengum inn í Hellisfjarðarbotn og hófum svo göngu upp á við. Þetta var erfiðasta ganga sem ég hef á ævinni upplifað, við marseruðum eins og andsetnir í klukkustund upp 60° halla í skriðum áður en við komumst upp á hjallann neðan við Lolla. Einhversstaðar á miðri leið byrjaði ég upp úr þurru að hlæja hátt, nokkuð sem ekki er hægt að skilja nema maður sé annar tveggja rauðhærðra, eldrauðra, gjörsamlega úrvinda manna á leiðinni með 30-40 kílóa bakpoka upp slíka brekku. Svo tók við róleg kraftganga upp að Lollanum í hálfa klukkustund. Ég hef sjaldan verið jafn hamingjusamur að sjá Norðfjörð og þegar við náðum toppnum og þá er mikið sagt!

Þegar við Jón vorum komnir niður Norðfjarðarmegin kom Sas keyrandi inn að Grænanesi og sótti okkur. Á leiðinni heim töluðum við Jón Knútur, fullir eldmóðs og innblástur, um næsta sumar, þegar við skyldum ganga þvert yfir Ísland. Sas keyrði mig heim að dyrum hjá fjölskyldunni og þegar ég kom inn gekk ég hér um bil alklæddur beint inn í sturtuklefa og afklæddist þar - svo gegnblautur var ég af svita og regni.

Mín dásamlega, frábæra fjölskylda tók vægast sagt borginmannlega á móti mér og þegar ég kom úr sturtunni var umyrðalaust borinn fyrir mig sá besti lambahryggur sem ég hef á ævinni bragðað. Ég sat og mokaði í mig lambasteik með ofnbökuðum kartöflum, sósu, sveppum og fleiru (líkt og aðeins mamma getur framreitt) í meira en 20 mínútur.

Og þannig lýkur þessari lönguferðasögu um Barðsnesferðina miklu - með góðri steik. Þannig ættu allar góðar sögur að enda.

Verðlaun fyrir þá sem nenntu að lesa svona langt: Myndir!


Tjáskipti

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin