Ég lá í fastasvefni í kvöld þegar ég vaknaði við háreysti úr garðinum. Ég losaði handlegginn utan af koddanum sem ég er alltaf með í faðminum þegar ég sef (varlega, til að vekja hann ekki), tók þumalinn út úr mér, nuddaði stírurnar úr augunum og bölvaði Jimmy Hoffa í lágum hljóðum. Það er til pirrandi fólk - en vá. Maður sem hvarf sporlaust í Michigan á áttunda áratugnum og er ennþá að vekja fólk á Íslandi með hávaða þrjátíu árum síðar - það hlýtur að vera einhverskonar met.
Ég smeygði mér í uppáhalds brunabílaboxerana mína og klóraði mér geispandi í brjóstkassann í áberandi górillustíl meðan ég rölti fram í eldhús til að fá mér tebolla. En ég missti alla telyst þegar ég kíkti út um eldhúsgluggann. Það var búið að breyta fallegu lóðinni minni í leikmynd úr X-files.
Á grasflötinni voru ótal hvít tjöld og jeppar, lóðin var afgirt með hárri gaddavírsgirðingu og í hornum hennar gnæfðu þungvopnaðir trúðar. Afsakið, ég meina turnar. Það var hlið á girðingunni gegnt vesturbæjarlauginni, sitthvorumegin við það voru skriðdrekar á stærð við Kringluna og yfir þessari bölvuðu holu hans Jimmy Hoffa var stórt upplýst tjald, umkringt af á að giska fimmtíu hermönnum með vélbyssur. Við innganginn á tjaldinu stóðu þrír menn í hvítum sloppum og ræddu ákaft saman. Fyrir utan garðinn voru svo tveir dvergar í boltaleik. En það gæti hafa verið tilviljun.
Og hugsið ykkur bara, þetta gerðist allt á fjórum klukkutímum. Er ekki Internetið frábært!
Frú Vigdís var enn hlaupandi flissandi í hringi á svæði sem hafði augljóslega verið sérstaklega girt af til að halda honum í skefjum. Lögregluþjónarnir tveir, sem höfðu gefist upp á að elta hann, lágu sofandi í faðminum á hvor öðrum í einu horninu á girðingunni.
Ég nuddaði augun aftur, andvarpaði, gekk til baka inn í svefnherbergi, lagðist upp í rúm og skellti svefnherbergishurðinni í nokkur skipti á úlnliðinn á mér. Svo dró ég andann djúpt, fór aftur á fætur og fram í eldhús, en herbúðirnar voru ennþá í garðinum. Líklega ekki draumur. Ég prófaði að fljúga - og braut við það álitlegan mola úr framtönn. Örugglega ekki draumur.
Ég var að fara að hella mér upp á te til að róa mig þegar skært ljós lýsti skyndilega inn um gluggann frá einum varðturninum og rödd í kallkerfi endurómaði um allan vesturbæinn "You there, sexy man in firetruck boxers, put your hands up, and don't try anything funny. Nothing funny, you understand? Like making faces - or farting with your armpit. I hate that.".
Nú, amma kenndi mér að rökræða aldrei við manninn með vélbyssuna svo ég setti hendurnar hlýðinn upp í loftið. Ég leit áhyggjufullur niður eftir líkamanum. Þegar karlmaður í boxer-nærbuxum lyftir upp handleggjunum gægjast hlutir út. Hlutir sem geta truflað einbeitingu hermanna sem koma beint frá Írak og hafa ekki fengið ferska kjötvöru úr Nóatúni í marga mánuði. En röddin hélt áfram "Now dance. No, just kidding. Come outside, and keep your hands up." Ég gekk í áttina að svaladyrunum. "On a second though, put on some clothes. Something nice. Perhaps something red."
Ég fór inn í svefnherbergi til að fara í föt án brunabíla - og þar sit ég núna og skrifa eins hratt og ég get. Ef ég slepp á lífi verður kannski framhald á sögunni. Ef ekki, þá vil ég bara segja: Júlía - þótt ég hafi aldrei játað það, þá þótti mér þetta með ísmolana alveg frábært, takk!
...ég býð spenntur eftir framhaldinu, og vona svo innilega að það komi...því annars hefur maðurinn með vélbyssuna notað gikkinn...ónei!
jiiiii....ég fékk svo mikinn hroll þegar þú sagðir "trúðar" að ég missti einbeitinguna. hata trúða. Hugi - vona heitt að þú og allir þínir góðu partar (og slæmu) hafi sloppið óskaddaðir frá þessari lautarferð í garðinum.
Ég vona svo sannarlega að þú sért í lagi, ég verð að fá að vita hvað þetta er með Júlíu og ísmolana.... ég er með alltof margar hugmyndir ..... misfallegar. *stend upp og klappa *Meira! *Meira!*Meira!*
Hvað er þetta... stelpugreyið kennir manninum að elda ísmola, og því er snúið upp í eitthvað... eitthvað... fynkerðislegt ? Égbarameinaða.... :^Þ
Elín hitti reyndar naglann á höfuðið. Í þetta eina skipti var ég með tilvitnun í eitthvað kynferðislegt.
Takk Baun, ég slapp að mestu óskaddaður, borða bara mikið af trefjum. En leitt að heyra með trúðana - lentirðu í slæmri trúðtengdri reynslu í æsku?
Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin