Svefnleysi

27. maí 2006

Það sóttu að mér þungar hugsanir í fyrrinótt og ég átti ekki möguleika á að sofna. Ég horfði á svefnherbergisloftið þar til ég datt út í nokkrar mínútur í morgunsárið en vaknaði svo með andfælum eftir nokkrar mínútur við skelfilegt slys (í draumi). Þá hætti ég baráttunni við vökuna, reif mig á fætur og fór að vaska upp og svara tölvupósti.

Ég er almennt friðsæll og glaðlyndur maður en eitt getur gert mig skapvondan: Svefnleysi. Ég var þess vegna eins og myglaður forhúðarostur í skapinu í gær þótt vonandi hafi fáir tekið eftir því, þar sem ég reyni almennt að láta ekki eigin fyrirtíðarspennu bitna á öðrum. En játa fúslega að það mátti litlu muna að ég brygði út af vananum í gær og myrti alla í blokkinni með öxi.

Ég kom heim úr vinnunni um miðjan dag til að leggja mig og komst þá að því að ég hafði í fjarveru minni eignast nýja nágranna sem voru að stunda smíðar af miklu morgundagsleysi í nýju fínu íbúðinni sinni. Eða hugsanlega, af hávaðanum að dæma, að hefja framkvæmdir við nýja Sundabraut.

Þegar ég var búinn að liggja í klukkutíma og reyna að sofna undir framkvæmdahljóðunum - og éta koddann minn í þreytupirringi - fór ég á fætur, fór í sund, eldaði, spilaði á píanóið, þambaði kamillute, lagði kapal, reyndi að lesa, fór í bað og gerði, að ég held, alla aðra róandi hluti sem hægt er að lesa um í Stóru Bókinni Um Róandi HlutiTM. En ekki gat ég sofnað og áfram héldu hljóðin. Sag-sag-sag, hamr-hamr-hamr-sag, bankitíbankbonk-dynk-sag o.s.frv.

Upp úr klukkan 22:00 sat ég einn í stól í horninu á myrkvaðri íbúðinni minni, starði út í loftið, brosti breitt, og rak reglulega upp hlátursgusur. Sem eftir á að hyggja er ekki mjög heilbrigt. Þegar látunum hjá Bubba Byggi (eins og nýi nágranni minn heitir hér eftir) linnti um miðnætti lagðist ég svo út af og rotaðist samstundis, þá búinn að vera vakandi í rúma 50 tíma, og svaf til hádegis í dag. Fyrsti draumlausi svefn sem ég man eftir að hafa upplifað í ansi langan tíma.

Ég lærði þrennt af þessu:

  1. Ég er að verða gamall. Það eru ekki nema þrjú eða fjögur ár síðan maður tók 30-40 tíma vinnutarnir og fór svo og fékk sér eitt ölglas með vinnufélögunum á eftir. Nú er maður ónýtur ef maður fær ekki flóaða mjólk á kvöldin og átta tíma svefn.
  2. Þegar maður er búinn að vaka lengur en 40 tíma verður margt fyndið. Á fertugasta og þriðja vökutímanum fannst mér leirpotturinn minn bráðfyndinn. Að ósekju. Hann var jafn ófyndinn og áður þegar ég vaknaði í morgun, enda leirpottur.
  3. Heilinn í mér er lúmskur. Það að ég gat ekki sofnað hafði ekkert með smíðalætin að gera, þau voru líklega bara léleg afsökun fyrir heilabúið til að halda áfram með þungu þankana frá nóttinni áður. Ég er fjölbýlisvænn maður og gæti ekki staðið meira á sama um hljóð úr öðrum íbúðum, er raunar afar þakklátur þegar ég heyri eitthvað í grönnunum því það slær á samviskubitið sem ég hef yfir píanó(harm)leiknum sem ég framleiði daglega.

Býð annars nýju nágrannana alveg afskaplega velkomna. Megi Sundabrautin þeirra verða glæsileg.


Tjáskipti

Þór

Úff. Skilðig. Ég verð sjálfur eins og ég hafi étið glerbrot og nagla í morgunmat ef ég hef ekki fengið friðsælan svefn. Ég get reyndar leyft mér stuttan svefn, bara ef enginn truflar hann. Ég tel mig blokkarvænan mann ( fyrir nágrannana ), en það sama er því miður ekki alltaf hægt að segja um nágrannana sjálfa. Ég er t.d. búinn að finna upp fjögur þúsund og fimm leiðir til að bana manneskju með tréklossum ( nágranninn á loftinu ) og fjögurhundruðfimmtíuogtvær leiðir til að loka munninum á fólki ( drykkjuskvaldur fyrir utan svefnherbergisgluggann ). T.d. þá ímynda ég mér að límbyssa með forþjöppu myndi vinna undraverk. Því áttu samúð mína alla þegar barsmíðar eru annarsvegar, því ég á yfir milljón mismunandi aðferðir til að losna við smíðafólk ( atvinnu- og áhuga- ). Verst að þær eru allar ólöglegar :-P

Daníel

Ekki skil ég fólk sem stendur í einhverjum framkvæmdum heima hjá sér. Það ætti að banna svona lagað.

Elín

Rosalega er punktur númer eitt sorglegur. Ég er í sömu sporum 27 ára og farin að finna fyrir aldrinum, þetta líf kemur sífellt á óvart, mér finnst það hafa verið í fyrra að ég þurfti ekki nema 3ja tíma svefn.

Hugi

Þór, ég er alltaf einstaklega sáttur þegar ég heyri eitthvað í grönnunum, þetta er svo skelfilega rólegt fólk hérna í blokkinni. Þótt maður muldri kannski eitthvað órithæft í koddann í svona skapvonskuköstum, þá hef ég engan rétt á því - mesti hávaðaseggurinn á staðnum :-). Já, Daníel - þú ættir að vita það. Elín, þekki þetta allt of vel - er á nákvæmlega sama aldri. En við getum huggað okkur við að hugsa til alls sem við eigum í vændum. Framundan eru ofvaxnir blöðruhálskirtlar, ristilbólgur, garnaflækjur, gyllinæðar, alls konar sveppir sem ekki vaxa á skógarbotnum og svo margt, margt fleira. Gullnu árin, sjáðu til.

Elías

Ég fór ekki að finna fyrir þessu fyrr en eftir fertugt. Og þó ekki svo mjög.

Siggi

Hugi, taktu bara eina rohypnol áður en þú ferð að sofa. Annars fer fyrir þér eins og Edward Norton í Fight Club. Sem væri svo sem allt í lagi ef þú sprengir upp VISA fyrir mig :)

Hugi

Elías, ég held að ég hafi klárað vökukvótann hjá Vefsýn á sínum tíma. 12 tíma vinnudagar voru rólegheitadagar, almennilegir vinnudagar 18 tímar, tarnirnar gríðarlegar. And all we had to eat was POISONOUS GRAVEL! Where's my pruuuune juuuiiice!? Hvað segirðu Siggi, á ég á hættu að vakna við hliðina á Helenu Bonham-Carter ef ég fæ mér ekki Rohypnol? Ég er til í það :).

Sveinbjörn

Já, Helena Bonham Carter wants to have your abortion, Hugi! ;) Annars þá finn ég aðallega fyrir því að ég sé að eldast gegnum þynnkuna. Í denn þá varð ég aldrei neitt svo þunnur -- núna er ég stundum tvo daga að jafna mig eftir almennilegan bender...

Hugi

Úff, kannast við það Sveinbjörn. Stóra ástæðan fyrir því að maður er hættur að drekka öl í staðinn fyrir vatn svona dags daglega, einn lítill kostar mann orðið dagsskammt af endorfíni svo maður verður eins og illa undin tuska næsta dag - eða daga.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin