Ég hef aldrei verið þekktur fyrir fimleikahæfileika mína en bætti allglæsilega úr því í gær. Ég brá mér í sund, sem gekk ágætlega framan af, en í sturtunni eftirá afrekaði ég það að stíga í bleytu (merkilegt nokk), renna til og taka svo í framhaldinu þrefalt heljarstökk með heilli skrúfu og fullkominni lendingu. Á bakinu. Þegar ég náði andanum aftur skreið ég á fætur, horfði með öðru auganu á hópinn sem hafði safnast í kringum mig (það er eitthvað ógnvekjandi við að vera í miðjum hring nakinna karlmanna) og hvíslaði hás "takk, takk, ég verð hér alla vikuna". Viðstaddir gláptu á mig og vissu greinilega ekki hvort þeir ættu að klappa eða hringja á sjúkrabíl.
Ég virtist þó nokkuð óskaddaður og komst heim og í rúmið þar sem ég bölvaði mér í svefn. Ég hélt að ég hefði sloppið vel, kannski bara með nokkur brotin bein og varanlegan heilaskaða, en svo vaknaði ég snemma í morgun við dauðateygjurnar í bakinu á mér, blessuð sé minning þess. Ég velti mér á fætur og sá þá að ég er kominn með slíka kryppu að ég fengi ekki einu sinni vinnu sem hringjari. Kannski sem aðstoðarmaður brjálaðs vísindamanns. Kannski.
Nú ligg ég hér í rúminu og get ekki annað. Ég get ekki lesið og það er full erfitt að halda tölvunni í jafnvægi á bringunni á mér og pikka um leið. Þetta þýðir að ég þarf núna að eyða a.m.k. einum degi einn með heilanum á mér. Það getur ekki endað vel.
Ég hef alltaf sagt að sund sé vitleysa. Getum við ekki reddað þér einhverri manneskju til að nudda líf í bakið eða í versta falli bara leiklesa fyrir þig bók kannski? Þá þyrftirðu a.m.k. ekki að vera einn með heilanum þínum.
Já, og að vera umkringdur nöktum karlmönnum hljómar fríkí...
Hljómar eins og rifbeinsbrot. Það versta er að það er sárast þegar maður hlær.
Leiðinlegt að heyra. Megirðu læknast sem fyrst. Haltu þig samt frá nuddurunum sem fá 10.000 á mánuði. Svona til þess að rústa ekki karmareikningnum. Innst inni er ég nú samt dálítið spennt yfir því að sjá hvað þessi óvænti frítími með gráa efninu í kollinum getur af sér í skrifum. Lesendur Huga þurfa svo ekkert að skrá sig á neitt hláturnámskeið.
Votta innilega samúð. Ég þekki annars nokkra misbrjálað vísindamenn sem eru margir hverjir á höttunum eftir krypplingum og öðrum gerpum. Sérstaklega heilasködduðum. Þetta gæti opnað einhverjar dyr fyrir þig....
Gætir fiskað centerfold í Læknablaðinu?
Já, það væri náttúrulega mjög gaman ef einhver nennti að koma hingað, setjast við rúmgaflinn hjá mér og leiklesa t.d. biblíuna? Eða lesa fyrir mig andrésblöð og sýna mér myndirnar, ég hef líka mjög gaman af því. Ég held að þetta sé ekki rifjatengt, það voru herðarnar og hryggsúlan sem kvöddu heiminn í nótt. Magnað hvernig maður áttar sig ekki á því hvað bakið á manni er stórt fyrr en mann fer að verkja í það. Takk Gestur. Gæðatími með heilanum á mér skilar sér yfirleitt í ófáum rúmmetrum af steypu, en mest af henni verður fullkomlega óskiljanlegt þegar það er komið á tjáskiptaform okkar mannkynsins. Heyrðu Orri, á ég að senda þér CV-ið mitt? Ég held að þetta geti alveg átt við mig, ég get gert mér upp sjö tegundir málhelti, er fremur smávaxinn og spila ágætlega á pípuorgel. En ég vil fá eigin líkkistu. Með plussfóðri.
Ég myndi skipta um nafn ef þú ferð út í þann bransa. Kannski ekki Ígor samt... það er passé. Rautt pluss?
hef sérstakan áhuga á "sjö tegundum málhelti" - tókstu námskeið, ertu náttúrutalent, er þetta áunnið ástand, hver er tungufjöldi þinn, vantar í þig mikilvæg talfæri, ertu gómskertur, ertu blæstur á mörgum tungumálum, slasaðist þú á tungubrjótum....? hausinn á mér er fullur af spurningum. ég er nebbla líka heima alveg bakk og hef allt of mikinn tíma til að velta fyrir mér heilbrigðismálum og tannhirðu landsmanna
(það er eitthvað ógnvekjandi við að vera í miðjum hring nakinna karlmanna) Hvaða Laug var þetta? Get vart ímyndað mér neitt fallegra en hring nakinna karlmanna og ég í miðjunni. Aldrei er ég þetta heppin.
Ég er sammála nöfnu minni, geta varla ímyndað mér nokkuð fegurrra :) Annars ætlaði ég bara að spurja þig hvort þú hefðir verið í þveng þegar þetta gerðist? (svona til að skekkja talninguna hjá þér ;) Góðan bata!
vá ég er greinilega mikið að hugsa um þessa nöktu karlmenn í hring, brillera í stafsetningarvillum.
Ef það er sárt að hlæja er það áreiðanlega rif, en rifin tengjast beinagrindinni í hryggnum.
LOL! í miðjum hring nakinna karlmanna!! hahahahaha!! Ég náttúrulega veit ekki með ykkur, en mér myndi líða eins og í klámmynd! AAhahahaha! Láttu þér annars batna, og ég er viss um að Anna er til í að kreista einhverja fílapensla á bakinu á þér ef það hjálpar eitthvað?
Þar sem ég er þvílíkt kvikyndi þá fékk þessi frásögn mig til að brosa í gegnum tárin í sorginni. Það er afrek. En það er líka gaman þegar að maður tengir. Ég hef átt svona sturtumóment og man hvað mér leið fáránlega asnalega, það eitt kemur fram smá brosi - þessi tenging. Ég, eins og þú var í svo miklu sjokki að ég áttaði mig ekki á meiðslum fyrr en síðar. Þetta er nefnilega stórhættulegt fall og ekkert til að hlæja að. Ég vona að það verði í lagi með þig - því annars er það slysó. Segðu bara að þú þekkir mig og þú færð að fara fremst í röðina. Það þekkja mig allir þarna uppfrá.
Kalli, já ég veit ekki um nafn - hvað um Jörgen? Ég held að það sé ágætt á smávaxinn treggáfaðan þjón. Það þarf a.m.k. að vera kjarnmikið þannig að það sé hægt að öskra það af krafti þegar ég kem með rangan heila og þess háttar. Baun, ég er ekki málhaltur í daglegu tali, þótt ég tali að vísu stundum svo hratt að það sem ég segi heyrist í framtíðinni (áhugasamir um ástæðuna geta kynnt sér afstæðiskenninguna). Það kallast hraðamæli. En eins og allir menntaðir menn get ég einnig slegið um mig með smámæli, gormæli, holmæli, skrautmæli, dýptarmæli, lygamæli, stami og baktali. Láttu þér annars batna af kvefinu. Drekktu nóg af agúrkum og nuddaðu kjúklingasúpu á gagnaugun, sagði amma alltaf. En hún var líka mjög spes. Afsakið, smá pása til að vorkenna sjálfum mér. AAAAAAARGH, BAKIÐ Á MÉR! Afsakið. Og trúið mér Elínur... Elínir.. Elínar... Elínariruriræræ (eða annað sem þið gætuð kallast í fleirtölu, innilega afsakið fákunnáttuna). Þið vilduð áreiðanlega ekki hafa verið í þessum tiltekna hring karlmanna. Þetta var eins atriði úr "Children of the corn" nema með gömlu fólki. Klórblaut gamalmenni og eh.. tær þeirra, kveikja með mér lítinn losta, sagt með fullri virðingu fyrir eldri kynslóðinni, sem ég hef annars mjög gaman af. Júlía, þrátt fyrir háan meðalaldur í hringnum hugsaði ég nákvæmlega það sama. We're bad :-). Og þegar kemur að því að stinga á kýlin og skafa gröftinn úr bakinu mun ég auðvitað leita beint til ykkar systra, takk fyrir boðið!
Linda, ef ég fékk þig til að brosa í dag, þá er ég sáttur. Ég var að lesa um þá litlu og samhryggist svo innilega. Ég þekki tilfinninguna. Ég man að nefna þig á nafn á slysó, gott að vera kominn í klíkuna!
RÚH Hug :D láttu þér batna í bakinu - annars lem ég þig með naglaspýtu (sagði amma mín alltaf)
Amma þín var greinilega þrusukona! Og takk, ég fer bara batnandi :-).
Litla grey! Ef það getur stytt þér stundir mæli ég með að þú takir musical listening test á netinu. Þar sem ég var snillingur í því...nýr Wolfgang Amadeus jafnvel var mér bent á að senda öllum ættingjum mínum prófið til að sjá hvort þessi snilligáfa rynni í ættum.... tjekk itt át! (hmmm..rynni í ættum....er hægt að segja það eða er ég geðveik..8 mánuðir í Noregi og íslenskan mín er farin í hundana!) http://www.delosis.com/listening/login.html?u=105807_0f13f0a720 ps...ekki vera hræddur... það er ég sem er ÓlafÃa Zoega!
Ég vona þér fari enn batnandi. En þú ert greinilega eitthvað skaddaður í framan líka. Sbr. broskallinn hjá baun. Það er ekki hægt að lesa hérna OG drekka morgunkaffið, nema mann langi að eyðileggja lyklaborðið.
Ég á fullan skáp af sjónvarpsseríum á dvd (amazon rúlar!) fyrir svona tækifæri. Verst að ég dett ekki nógu oft í sturtu til að hafa löggilda ástæðu fyrir að hanga inn og grenja yfir Dawson's Creek (þið skiljið af hverju ég skrifa undir pseudo-nafni). En svona í alvörunni þá gætirðu prófað gamla góða hitapokann. Svínvirkar á þessa lóru.
Hvernig var það... varst þú nakinn líka? hræddur um að maður hefði þá orgað úr hlátri ef maður hefði séð þetta (eftir að maður tékkaði hvort þú værir á lífi að sjálfsögðu) ...en góðan bata annars!
er þér ekkert að batna Hugi minn? á ég að koma með naglaspýtuna væni? segðu okkur nú heilsufréttir, við höfum áhyggjur...
Olla, til hamingju með gráðuna! Ég mun sko pottþétt tékka á þessu. En það var svo sem vitað að tónlistin streymir um æðar okkar :-). Sævar, ég var nakinn líka. Þakka máttarvöldunum fyrir að ég datt aftur fyrir mig en ekki fram fyrir mig, annars hefði ég getað skaddað eitthvað annað. Sem hefði náttúrulega verið mjög slæmt fyrir framtíðargenamengi mannkynsins (sagði Hugi af hógværð og hló). Takk annars fyrir umhyggjuna baunir, mjásur og gestir , ég er snortinn *sniff sniff*, sérstaklega af Baun sem vill reka mig á hol með naglaspýtu. Það er það fallegasta sem kvenmaður hefur lýst yfir að hann langi að gera við mig. Ég lá fyrir í einn og hálfan dag sökum tognunar í baki (sagði doktorinn) en var þá kallaður til vinnu sökum neyðarástands þar. Ég er m.ö.o. búinn að ná markmiði mínu - að verða ómissandi ríkisstarfsmaður. I'm set for life. Held mér núna gangandi á íbúfeni og öðrum óþverra og hefur bara aldrei liðið betur.
Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin