Ef einhver spyrði mig núna "Hugi, hvað gerðir þú í dag?" þá mundi ég svara "Ég tók fjögur stig í djasspíanóleik, hvað gerðir þú?".
Ég mætti í fyrsta píanótímann í morgun. Það var ekki leiðinlegt að byrja blautan mánudagsmorguninn á að spila blús með Agnari Má, kennaranum mínum, og mánudagsmorgnar eru hér með í uppáhaldi hjá mér. Biðst afsökunar á öllum slæmu hlutunum sem ég hef sagt um þá í gegnum árin og vona að ég verði ekki laminn af mánudagsmorgni á næstunni.
Þegar við höfðum rætt málin og spilað í smá tíma tilkynnti Agnar mér að ég ætti ekki heima í grunnnámi, heldur ætti ég að fara beint í framhaldsnám. Þar með fékk ég skyndilega fjögur stig af þeim átta sem eru í djasspíanónáminu og var því hálfnaður með námið eftir tæpar 20 mínútur í skólanum.
Mér reiknast svo til að ef ég næ að halda þessum námshraða verð ég útskrifaður á morgun, á miðvikudaginn gef ég út fyrstu breiðskífuna mína, á fimmtudaginn verð ég orðinn ónýtur heróínfíkill og búinn að rústa nokkrum hótelherbergjum og á föstudaginn fer ég svo í meðferð og held "comeback"-tónleika. Svo dey ég af slysförum á laugardaginn og verð harmdauði hjörðum af ungum meyjum sem allar þráðu að eignast börnin mín (og fá sumar þá ósk uppfyllta í júní á næsta ári).
Minningartónleikar um mig og stuttan en viðburðaríkan feril minn verða haldnir í Höllinni næsta sunnudag. Mæli með að þið tryggið ykkur miða, mér skilst að þar muni koma fram allt besta fólkið sem ég á eftir að spila með.
Frábært Hugi, til hamingju með árangurinn! Ég mæti að sjálfsögðu á minningartónleikana... já eða sendi krans... ekki alveg viss um að ég nenni :)
Takk Elín. Treysti því að þú mætir á tónleikana, ég verð með ykkur í anda :).
Ef ég fæ ekki að rústa einu hótelherbergi með þér tala ég aldrei aftur við þig!
Auðvitað vissum við að þú værir snillingur. Glæsilegt!
Hahaha! Eftir á að hyggja rústar Hugi hótelherbergjum örugglega Yo La Tengo style: http://youtube.com/watch?v=d_LkAAzCQrQ ^.^
Ég vissi þetta. Ég hef alltaf sagt að þú værir að mikla þetta allt fyrir þér.
Og, já, ef ég mun einhvern tímann veifa kveikjara á einhverjum tónleikum verður það á þínum "comeback" og minningartónleikum.
Þessir djassarar! Þekkja ekki muninn á H og B, og rústa svo algjörlega því litla áliti sem maður hefur á þeim með því að gefa frá sér heil 4.stig í hljóðfæraleik, bara sísona! :-) Til hamingju! Að sjálfsögðu átt þú ekkert heima í einhverjum grunnpakka! En gastu ekki líka fengið 4.stig metin í trommuleik?
..vona að þú þurfir ekki að borga ferföld skólagjöld;) til lukku með hviss bængið, en ertu búinn að fá þér duglausan og drykkfelldan umboðsmann? og reka hann líka?
Mikill snillingur ertu. Til hamingju með þetta. Verst að þetta verður svo allt búið á sunnudaginn - en upptökurnar lifa, maður getur huggað sig við það. Það verður þó missir af þér.
Takk enn og aftur, þetta er að verða eins og rafrænt hópefli. Fáið öll boðsmiða á minningartónleikana :). Carlo, ég skal vera í sambandi, það er erfiðisvinna að rústa herbergi og ég gæti vel þegið hjálpina. Gestur, ég er ekki viss um að kveikjarar dugi - það verður víst úthlutað kyndlum við innganginn. Stebbi, það eruð ÞIÐ klassíkerarnir sem kunnið ekki skalann - Ég meina, hver notar "H" - hvað er "H" eiginlega að gera þarna í miðju stafrófinu? Þið eruð kannski svona hrifin af mixólydíska-skalanum? :-) Varðandi trommurnar eru það auðvitað vonbrigði að fá ekkert metið þar - ég er jú búinn að mæta í fleiri trommupróf en flestir. Baun, jújú, skólagjöldin hækkuðu - en það var peninganna virði. Og ég er einmitt að leita að duglausum drykkfelldum umboðsmanni, eru einhverjir sjálfboðaliðar? Það er í sjálfu sér nóg að vera drykkfelldur, en dugleysi er kostur. Linda, miðað við sama tímaskala þá geturðu eflaust fundið upptökur með mér í "Golden Oldies"-rekkanum í Kolaportinu eftir tvær vikur.
þá er spurning hvenær sjálfsævisagan kemur út og kvikmyndin. Ég legg til að Steven Seagal verði litaður rauðhærður og taki að sér þetta tilfinningaþrungna hlutverk. Svo getum við sett smá sprengingar í myndina og að sjálfssögðu eitt gott erótískt atriði, þú mátt sjálfur ráða hvort naggrísinn fái að vera með í því atriðið eða ekki.
Hugi, ég er duglaus en ég get örugglega lært að vera drykkfelldur. Hvenær byrja ég? Það yrði bónus ef í ævisögunni stæði umboðsmaðurinn hans Huga var horaður og frá honum lagði megna Campari lykt.
ég er búin að hringja í RÚV og ráða mig í að stjórna íslenskri útgáfu af Hvar eru þau nú? þú ert bókaður (í gegn um Þórhall Miðil auðvitað) í fyrsta þáttinn á þriðjudaginn.
Rafrænt hópefli? Það er nú ekki það versta. Bara að við breytumst ekki í æstan múg, ryðjumst inn til þín (með kyndlana) og tökum James í gíslingu.
Glæst upphaf af stórkostlegum ferli þínum sem djassisti! Ég er svo stolt af því að hafa þekkt þig. (Skrifað í þátíð ef ferlið hefur gengið hraðar en þú áttir von á og þú kannski bara útlifaður og inndauður núna strax ;-) ) Þú ert æði
hvað meinarðu Hugi, þið klassíkerarnir? Ég veit ekki til annars en ég hafi barist hatrammlega fyrir því í námskrárnefnd að við breytum háinu í bé og hættum þessari vitleysu!
Til hamingju! Þetta er afrek. Nú held ég að þú verðir að kaupa flygilinn...:)
Ég ætla að gefa þér verðlaun fyrir að hafa verið svona duglegur. Verðlaunin eru ábending um að fara á Gráa köttinn og panta "trukkinn". Besta brunch í heimi og fáir vita um þetta þannig að gjörðu svo vel :)
Já já, það erum "við" sem höfum ekki fattað þetta. Það er ekki eins og hin "klassíska" tónlist sé algjörlega háð nótum, og geti ekki hreyft sig útfyrir nótnapappírsins brún, eins og þið djassararnir sem þurfið að hafa allt niðurnjörfað í punkta á blaði, sem hindrar ykkur í að fá sem frjálsasta túlkun í tónlistina ykkar. En ok ok, H má alveg heita B mín vegna, en þá verður að gæta samræmis og kalla Bb fyrir bes...sem er aulalegasta nafn á nokkurru nótu. Eísís hljómar meira að segja betur.
já, þið besefarnir, eins og hann Smári kallar FÍH liðið :-D
(skrifað að handan (mögnuð þessi þráðlausu net)) Kibba, ég veit ekki hvort ég vil að Steven Seagal leiki mig, held að Sean Connery sé meira mín týpa. Steven Seagal yrði hinsvegar frábær áhættunaggrís. Carlo, þú er ráðinn. hvenær geturðu byrjað? Væla, hlakka til að mæta í þáttinn hjá þér. Þú getur sagt Þórhalli að sálnanúmerið mitt er 895-6688. Mjög hentugt, ef maður er með GSM frá símanum, þá fær maður að halda númerinu sínu þegar maður flytur sig á milli tilverustiga. Geztur, Ég mun verjast með kjafti og klóm. Það er komið síki umhverfis blokkina og hennar er gætt af þungvopnuðum dvergum og langdrægri kjarnorkusíld. Harpa, það var mikill heiður að þekkja eðalmanneskju eins og þig líka :). Hildigunnur! Við besefarnir styðjum þig alveg eindregið í þessari baráttu! Búúú á H, lifi bes! Mjása, ég fer á Gráa köttinn og fæ mér Trukk, þér til heiðurs. Takk fyrir ábendinguna :). Hehe Stebbi, erfiður dagur? :). Bes er falleg nóta, og ég veit ekkert hvað þú ert að tala um með djass og klassík. Held að sú umræða verði aðeins leyst með því að við förum úr buxunum og drögum fram reglustikuna.
Hugi - þú ert svo fyndinn að það er ekki eðlilegt!
Takk og sömuleiðis, Kristín Björg :-)
Bara hvenær sem hentar, Hugi. Ég er einmitt að leita mér að annarri vinnu og það er stór bónus ef ég get verið fullur í henni. Ég reikna með því að meðal fríðinda verði mánaðarlegur áfengisskammtur? Þetta verður þá ekki ólíkt breska flotanum nema ég vona að það verði minni hýðingar og sódómska. Svo er ég ekkert sérstaklega gefinn fyrir romm heldur.
Og enn kafnar launmóðir þín úr stolti og hreykir sér hátt. Gott hjá þér drengur!
Kom hingað fyrst eftir kjötbollum, bauðst karlahlaup og varð hnýsin. Líf Huga er greinilega miklu skemmtilegra en mitt.. (eða langar mann bara alltaf í nestið hjá hinum?) Til hamingju með áfangann.. vona að þú sért ekki dauður enn.. Lína (rjóð í kinnum og vandræðaleg)
jei :-D
Barbie, viltu virkilega gerast launmóðir mín? Rétt að þú vitir að ég er afar erfiður í uppeldi. Lína, þú ert alltaf velkomin í kjötbollur :). Og ekki fá glýju í augun, líf mitt er ekki eintómur dans á rósum, onei. Stundum þarf ég að dansa á túlipönum og nellikum. Jafnvel sóleyjum!
Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin