Íslensk náttúra

5. ágúst 2005

Ég brá mér í göngu á Hengilssvæðinu eftir vinnu í fyrrakvöld, gekk úr Dyradal í Marardal, úr Marardal upp á Vörðuskeggja, þaðan niður í Kýrdalsbotna og svo aftur upp í Dyradal. Tók mig tæpa 5 tíma. Ég held að ég hafi sjaldan lent í jafn furðulegri göngu, allt umhverfið var eitthvað svo þungt og orkuþrungið, eins og náttúran væri að halda niðri í sér andanum. Þessa samsettu mynd tók ég úr ca. 600 metra hæð, ofan við Marardal (Reykjavík sést í fjarlægð). Smellið á myndina til að stækka:

Myndin nær þó engan veginn að koma stemningunni til skila. Það var blankalogn, loftið var hlýtt, rakt og þungt og og þögnin algjör. Nema svo var þögnin rofin af ægilegum drunum - það skall skyndilega á þrumuveður! Ég hélt eitt andartak að ég hefði hrasað á milli vídda, eins og persóna í Pullman-þríleiknum. Íslensk náttúra er einstök.


Tjáskipti

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin