Stundum þegar ég vakna á nóttunni og get ekki sofnað aftur fæ ég frábærar hugmyndir. Ég áttaði mig t.d. á raunverulegum vanda í samfélagi okkar þar sem ég rak mig með höndunum meðfram veggnum inn á klósett í fyrrinótt.
Sjáið til, ef einhver lendir í almennri nauð, þá er ekki ósennilegt að beita þurfi skyndihjálp, t.d. munn-við-munn, Heimlich-aðferðinni eða hjartahnoði. En lendi sá hinn sami í raunverulegum vandræðum, þá er samstundis haft samband við neyðarlínuna. Þetta er öryggisventill sem er alltaf tiltækur þeim sem eru í ósköp venjulegum lífsháska.
En sambærilegt öryggi bráðvantar í annars fullkomna neyslumennningu okkar Vesturheimskingja. Ég er persónulega búinn að lenda í því a.m.k. þrisvar á þessu ári að verða næstum því svangur(!), og það sem meira er, öllum virðist vera sama. Ég hef nefnt þetta oft en fólk virðist forðast umræðuefnið og fer bara að tala bara um kennaraverkföll og stríð í einhverju þriðjaheimsríki sem öllum er sama hvað heitir, á meðan við eigum öll á hættu að svelta í hel hér heima. En nú set ég hnefann í borðið og tunguna út í kinn og heimta að ríkið taki af skarið í þessu máli. Það þarf samstundis að koma á koppinn nefnd til að rannsaka möguleikann á neyðarbitastað ásamt viðeigandi neyðarbitalínu.
Til að sýna nytsemi slíkrar línu fylgir hér stutt sviðsett símtal milli hungraðrar konu (fórnarlambsins) og neyðarbitalínunnar. Til að ná sem nákvæmustum hughrifum er gott er að ímynda sér að konan sé um fertugt, einnogsextíu á hæð og 120 kíló, með pakka af Capri í vasanum og grátbólgin augu umkringd útbíuðum augnskugga.
NBL: Gott kvöld, neyðarbitalínan, hvernig get ég aðstoðað.
Fórnarlamb: Ó, hjálp, almáttugur, í guðanna bænum HJÁLPAÐU MÉR!!!
NBL: Fröken, andaðu djúpt, skýrðu frá eðli aðstæðna og hvað sem þú gerir, ekki leggja á.
Fórnarlamb: Ég hringdi í Dominos og *ekkasog* þeir segja að það taki tæpan klukkutíma að fá senda pizzu.
NBL: Fröken, andaðu djúpt að þér og reyndu að ná áttum. Umfram allt, ekki láta óttann ná tökum á þér. Ég vil að þú lítir í kringum þig og reynir að hugsa skýrt. Er til sykur, hvítt hveiti eða maíssterkja í húsinu, eitthvað sem getur komið í veg fyrir bráðahungur?
Fórnarlamb: Nei, nei! Ó VEI, af hverju keypti ég ekki súkkulaðistykkið úti í sjoppu þegar ég tók bensín áðan... AAAAAGHMMMNNNGH, ÉG FINN AÐ ÉG ER AÐ VERÐA HUNGRUÐ! Svona endar það þá, ÓÓÓ, ég finn lífið þeysa fyrir augunum á mér. (og það er eins og að horfa inn í ísskáp á hóteli [ath.semd ritstjóra])
NBL: Fröken, það er fyrir öllu að halda sjálfsstjórn, annars er allt tapað. Þrautþjálfaðir menn eru þegar á leiðinni með pepperoni-pizzu, djúpsteikta kjúklingavængi og tólg. Viltu tómatsósu með frönskunum?
Fórnarlamb: Nei *snýt* ég vil kokteilsósu.
NBL: Fröken, bíllinn verður kominn eftir tíu mínútur, vertu kyrr þar sem þú ert, ekki nota meiri orku en þörf er á.
Sko, er þetta ekki góð hugmynd?
PS: Flestar þeirra hugmynda sem ég fæ milli svefns og vöku hljóma yfirleitt verr því nær sem dregur því síðarnefnda.
Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin