Ligg fyrir með einhverja viðbjóðspest, búinn að láta mig reka milli draums og vöku og hlusta á útvarpið. Einn með sjálfum mér og ruglinu í hausnum á mér. Allt mjög spennandi.
Ef maður liggur fyrir, er maður þá fyrirliggjandi? Það liggur ekki fyrir.
Í hádegisfréttunum var viðtal við fótboltaþjálfara sem sagðist ætla að gefa sér góðan tíma í að slípa vankantana á liðinu sínu fyrir næsta leik. Hann á allan minn stuðning, hans lið verður örugglega með langflottustu vankantana. Það liggur fyrir.
Varðandi bremsubarka - ætli maður geti skipt þeim út fyrir látúnsbarka? Gæti ég ekki neglt Garðar Cortes undir bílinn minn og þjálfað hann til að spyrna niður fótunum í hvert skipti sem ég stíg á andlitið á honum? Það liggur ekki fyrir. En það mundi a.m.k. ekki laga vælið í bremsunum. Það liggur fyrir.
Bíllinn minn þjáist af barkabólgu - bremsubarkabólgu. Er hægt að segja um feitan tenór að hann þjáist af látúnsbarkabólgu? Það liggur ekki fyrir.
Ég er ekki hannaður til rúmlegu í meira en 10 tíma í senn. Það eru súrir, steiktir hlutir, hættulegir mannkyninu, að gerast í hausnum á mér. Það liggur fyrir.
Þetta er súr og steikt færsla.
Mig grunaði það. En ég hef ekkert samviskubit, ég varaði þig við.
Þú gætir e.t.v. sótt um aukavinnu við að skrifa Staksteina Morgunblaðsins. Þessi færsla ætti að svínvirka sem meðmælabréf fyrir þig.
Ouch, Steinunn. Ouch! Þetta var alveg óþarfi. En hjartanlega til hamingju!! :-D
Hugi! Hvernig komst veffangarinn í tölvuna þína?
Púff... Hann hlýtur að hafa tekið líkama minn traustataki á meðan ég svaf.
gersamlega ófyrirliggjandi. Eða ófyrirleitið? Veit ekki alveg.
Ég gleymdi víst að það liggur fyrir að það tíðkast ekki að sparka í liggjandi mann. Vona nú að þér batni fljótt og örugglega - og áður en Mogginn nær á þér tangarhaldi. Takk.
Garðar gæti örugglega vælt eitthvað líka. Stórgóð hugmynd sem steinliggur fyrir!
Og góðan bata ljúfurinn!
Er kominn á fætur og aldrei verið hressari. Eða jú, 13. október 1997, þá var ég reyndar aðeins hressari. En ekki mikið.
Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin