Flugan

28. apríl 2005

Ef þið skylduð ekki vita af því, þá geta eftirtalin atriði valdið tinnitus, þ.e. sóni eða suði fyrir eyrum.

  • Stress
  • Koffínneysla

Einmitt.

Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að fyrir ekki alls löngu vaknaði ég um miðja nótt og heyrði þungan vængjanið stórrar býflugu í svefnherberginu hjá mér, en mér er ekki vel við býflugur. Ég stökk á fætur eins og stálgormur á amfetamíni og valdi í snarhasti vopn til að ráðast á kvikindið. Fyrir valinu urðu nærbuxur sem lágu mér ekki fjarri. Innra með mér varð til djörf ákvörðun; í þetta skiptið skyldi engin miskunn sýnd, ekkert glas og pappír, engar aðvaranir og enginn kviðdómur. Bara hrátt réttlæti almúgans, ég ætlaði að drepa bölvað skordýrið á staðnum.

Flugan sveimaði stöðugt umhverfis höfuðið á mér, og ég hringsnerist í kringum mig til að koma auga á hana, sveiflandi nærbuxunum hnitmiðað í átt að suðinu og bölvandi út um samanbitnar tennurnar. En aldrei tókst mér að sjá hana, hvað þá að drepa hana. Fljótlega ákvað ég að að vopnið væri of smátt og hljóp fram á bað til að sækja handklæði. Flugan elti mig. Ljós kviknaði. Ég stakk fingrunum í eyrun. Ennþá heyrði ég suðið. Flugan var bara grimmdarlegur tilbúningur útkeyrðs, stressaðs og koffínhlaðins heilans í mér.

Guði sé lof að ég bý einn.


Tjáskipti

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin