Meiri furða

5. júní 2006

Það var bankað á dyrnar hjá mér aftur áðan. Ég lagði frá mér Vikuna og fór til dyra. Þar stóð ekki rækjusali, heldur Anna, svo skælbrosandi að ég sá ekki í henni augun fyrir tönnunum.

Anna: "Hui, e ver a sea her soli!!!".
Ég: "Ha?"
Anna: "E. Ver. A. Sea. Her. Soli!".
Ég: "Anna, ég skil ekkert hvað þú ert að reyna að segja, kannski ef þú brosir svolítið minna...?"

Anna fór að hlæja og brosti núna svo breitt að ég sá bara tennur og hár. Hún tók skref í áttina að mér og byrjaði að veifa annarri höndinni hratt út í loftið. Ég gaut augunum örsnöggt að símanum og byrjaði að bakka varlega í áttina að honum án þess að taka augun af henni. Ég æfði stafina "112" í huganum en vissi vel að það væri hæpið að lögreglan kæmist á staðinn áður en Anna næði að fela líkið.

Varirnar á mér voru byrjaðar að forma orðin "þú kemst aldrei upp með þetta" þegar ég fattaði að hún var að leika penna með látbragði, ekki æfa hnífsstungur. Ég varpaði öndinni léttar, fann handa henni penna og blað og hún skrifaði "Hugi. Ég verð að segja þér svolítið. Kem aftur þegar ég er hætt að brosa. Ef ég hætti einhverntíman að brosa".

Og svo hvarf hún valhoppandi upp stigann syngjandi "Im siiihninh in he ain". Ég held að hún sé búin að missa það.


Tjáskipti

Daníel

Missa það? Var hún einhverntímann með það?

Kalli

Hún hljómar pínulítið eins og fegurðardrottning. Prófaðirðu að biðja hana um að segja Matlock?

Elín

Jah missa það eða loksins finna það?

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin