Bakrak

5. júlí 2006

Ég er búinn að vera með sérlega góða gesti undanfarna viku, þau Stebba og Stínu.

Mér finnst auðvitað frábært að hafa þau hjá mér, afar þægileg tilfinning að koma heim í íbúð sem er ekki tóm, en það sem hefur raunverulega gert það þess virði er að ég fékk Stebba til að raka á mér bakið í fyrradag - nokkuð sem ég er lengi búinn að þrá. Þ.e. að losna við hárið, ekki það að upplifa Stebba að raka á mér bakið.

Ég varð nefnilega kynþroska fljótlega eftir jól og fékk í kjölfarið skegg á bakið. Það er búið að valda mér miklum kláða og óþægindum - svo ekki sé minnst á hversu einstaklega lítið æsandi það er að vera með bak eins og andlitið á Hjörleifi Guttormssyni (loðið svona víðast hvar) - en nú, þökk sé Stebba get ég loksins strokið um frjálst bak.

Það var auðvitað öðruvísi reynsla að láta karlmann raka á sér bakið, en það er á svona stundum sem maður lærir að meta raunverulega vini, fólkið sem er reiðubúið að fórna sér fyrir mann. Og það sem ég gerði fyrir hann í staðinn var að kveikja ekki á kertum og setja ekki disk með Enyu á fóninn á meðan hann rakaði mig.

Ahhh, þetta er dásamlegt, ég er að strjúka fallega bakinu mínu í þessum skrifuðum orðum. Jújú, auðvitað gæti mér núna orðið kalt á bakinu þegar ég fer nakinn út að hlaupa á nóttunni, en eins og amma sagði alltaf, það er ekki hægt að búa til eggjaköku án þess að hafa nokkur egglos. En egg voru auðvitað munaðarvara þegar hún var ung. Og þannig er nú það.


Tjáskipti

Lindablinda

Annað hvort ert þú af Barbapapaætt og getur lengt og stytt á þér handleggina á víxl, eða þá að þú snýrð öfugt!! Get ekki séð hvernig þú ættir að strjúka á þér bakið svo vel sé annars

Mrs. Bean

"öðruvísi reynsla", hvernig dettur þér í hug ANNAÐ en að láta karlmann raka á þér bakið? ég er alltaf með karl í þessu djobbi, það þarf vaðandi krafta til að skafa gegnum hnausþykkar ræturnar (og bera síðan reyfið út í svörtum plastpoka)

Hugi

Linda, "eða þá að þú snýrð öfugt". Tjah, þú segir - ég er efins eftir þessa reynslu. Ég get a.m.k. vandræðalítið strokið mér um bakið. Er það tákn? Baun, ég hef aldrei látið kvenmann raka á mér bakið, en það er líklega rétt hjá þér, það gæti verið full mikið erfiðisverk. Strákgreyið er að drepast úr harðsperrum í dag. En annars tókum við afurðirnar og seldum í hárkollur. Maður hendir ekki svona gæðahári.

Carlo

Red and curly!

Elín

Hvenær á svo að prófa vaxið?

Hugi

Elín, miðað við grófleika hársins þá óttast ég að bakið færi af með vaxinu. Er það þess virði að reyna? Er það loksins þá sem ég verð sexí í bikini? Mig hefur alltaf langað að vera sexí í bikini.

Carlo

Ég er nú bara forvitinn hví þú lést staðar numið við bakið.

Hugi

Carlo, það er vegna þess að ég <a href="http://www.forwardgarden.com/forward/2668.html">læri af mistökum annarra</a>.

Fríða

Oj Hugi, veistu ekki að það er bannað að vísa á svona. Næst les ég bara ekkert það sem þú vísar á. Ég er ekki að tala um þína eigin færslu, hún er saklaus. En hitt oj. Og ég samgleðst þér ákaflega að geta um frjálst bak strokið.

Hugi

Úff, ég var búinn að gleyma hvað þessi saga er viðbjóðsleg. Las hana fyrir nokkrum árum þegar ég hafði ekki sama siðgæðisstaðal og í dag. Biðst afsökunar.

Carlo

Mér finnst þetta mjög áhugavert. Gott að þú tekur upplýstar ákvarðanir, Hugi.

Mjása

Ú, mig klæjar í puttana! Er nebbla með freakish þörf fyrir að plokka aðra...

Hugi

Mjása, ég fæ HROLL. Láta <em>plokka</em> á mér bakið. Úff. Ég á aldrei eftir að þora að hleypa þér nálægt mér.

Fríða

Afsökunarbeiðni tekin gild, þér er fyrirgefið.

Elín

LOL mér fannst þetta brilliant saga.... engin veit hvað átt hefur fyrr en rakað hefur. Hugi það sem ég var að meina með vaxinu er að það endist hundrað sinnum lengur, að raka sig er vítahringur... vex aftur á sama stað nokkrum dögum seinna, eða ertu kannski búinn að ráða Stebba í að koma einu sinni í viku? :)

Hugi

Nei, Stebbi er ekki fastráðinn. Þótt hann sé góður - með þessar frábæru mjúku hendur sínar - þá yrði aðeins of dýrt að fá hann alltaf sendan frá Danmörku. Svo Elín, þér býðst hér með að gerast sérlegur vaxberi minn. Þiggurðu stöðuna? Það fylgja heilmikil fríðindi og mér skilst að stéttarfélagið sé gott.

Elín

Sko ég get verið í afleysingum næstu tvær vikurnar, svo flyt ég líka til Danmerkur ;) Spurning hvort þú flytjir ekki bara til Danmerkur??? Þú ættir augljóslega fínt framboð að vaxberum þar.... hí hí...

Stefán (stebbi)

Það er ekki ég sem skrifa þessa athugasemd, heldur kærastan mín, en ég segi henni hvað hún eigi að skrifa. Ég er svo illa farinn af harðsperrum að ég get barasta alls ekki hreyft mína tvo útlimi sem kallast handleggir. En já, þetta var nú meiri frumskógurinn á bakinu á vesalings Huga karlinum. Ég varð var við ýmis frumskógarhljóð þegar ég lét rakvélina leika lausum hala með sveðjuna á regnsvæðum hins rauðhærða villidýrs. Sennilega væri best að hann láti einhvern hella yfir sig heitu vaxi næst þegar hann fer að verða var við mökunarköll gráu górillunnar sem þrýfst í þessum frumskógi á bakinu á honum.

Hugi

Elín, þú ert ráðin í sumarstarf. Athugaðu að þú verður að koma með eigið vax. Og eigin eyrnatappa, til að missa ekki heyrnina þegar ég öskra eins og smástelpa. Svo getið þið Stebbi stofnað hárfjarlægingarstofu í Danmörku, ekki veitir af, því fátt er ógeðfelldara en loðinn Dani. Og það er nóg til af þeim. Stebbi, það hlaut að vera, ég var að velta því fyrir mér hversvegna ég er alltaf svona þreyttur í fótunum. Það er erfiðisvinna að vera með fjallagórillu á bakinu, skil ekki hversvegna ég tók ekki eftir henni fyrr :).

Elín

Eru danir LOÐNIR???? Sjís mér var EKKI sagt frá því þegar ég sótti um flutningsskírteinið á Hagstofunni, helvítis opinberu stofnanir hvorki með metnað í starfi né þjónustulund. Jæja það verður þá allavega nóg að gera hjá okkur á hárfjarlægingarstofunni :) ..... ég kem á miðvikudag kl:15:07 með vaxið... get ready for PAIN!

Hugi

Elín, hvað á það nú að þýða að drulla yfir okkur opinberu starfsmennina. Ég er mjög þjónustulundaður, í morgun svaraði ég meira að segja símanum mínum í eitt skiptið sem hann hringdi, og var mjög hjálplegur við að vísa manneskjunni í símanum á annan mann sem verður við í lok næstu viku. Skil ekkert hvað þú ert að fara, þetta er <em>RUGL</em>. Annars er sársaukaþol mitt gífurlegt, svo ég kvíði engu.

Elín

Fyrirgefðu Hugi, ég áttaði mig engan vegin á því að það væru ennþá til svona liprir og viljugir starfsmenn. Ég dreg síðasta komment til baka... jah nema þetta með sársaukann ;) ps. ég er að finna tónlist fyrir bakvaxið, fílaru House of Pain?

Hugi

Takk, Elín - ég var búinn að fyrirgefa þér fyrir laugardaginn, annars hefði kvöldið orðið óbærilegt, endalaus skítaskot á báða bóga. House of Pain væri í lagi. En ég mundi líka sætta mig við Graceful Touch.

kmbgpvptfc

Bakrak <a href="http://www.gkhe2do6743k7xu0h81jg97z9b01g19gs.org/">akmbgpvptfc</a> kmbgpvptfc http://www.gkhe2do6743k7xu0h81jg97z9b01g19gs.org/ [url=http://www.gkhe2do6743k7xu0h81jg97z9b01g19gs.org/]ukmbgpvptfc[/url]

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin