Danmörk er snilld

12. febrúar 2006

Sit hér í góðu yfirlæti í Árósum og sötra rauðvín hjá mínum ástkæru Stebba og Stínu, bestu gestgjöfum Danmerkur. Þau eru af þessari frábæru manngerð sem sármóðgast ef maður svo mikið sem býðst til að vaska upp eftir matinn, og ég er eiginlega gáttaður að þau skuli ekki hafa troðið í mig þvaglegg svo ég þurfi ekki að standa upp til að pissa. Þau elduðu magnað indverskt nautakjötsragú handa okkur í kvöld og nú get ég varla andað, ég át svo hressilega yfir mig.

Ferðin hefur annars verið frábær þrátt fyrir harðar atlögur frá Þreytu Alheimsins. Ég svaf ekkert áður en við lögðum af stað og þegar flugvélin hóf sig á loft frá Keflavík var ég svo þreyttur og ruglaður eftir 26 tíma vöku- og vinnutörn að allt sem kom upp úr mér var algjörlega úr samhengi við það sem ég ætlaði að segja. En það skipti ekki máli, því ég var svo þvoglumæltur að orðin voru óskiljanleg líka. Djúpar áhyggjuhrukkur framan í hinum Smaladrengjunum sýndu að þeir töldu mig endanlega hafa tapað síðustu leifunum af vitinu, en þegar við lentum á Kastrup skellti ég í mig sex bollum af rótsterku espresso á þremur mínútum (hef aldrei séð jafn gáttaðan kaffibarþjón) og það hélt mér á lífi út föstudaginn, þrátt fyrir eitt og eitt upphlaup tengt íslenskum viðskiptafræðingum, sleipiefnum og lífvörðum drottningar.

Giggið í Sønderborg á laugardaginn heppnaðist vel og við höfum sjaldan fengið jafn góðan sal, stemningin varð svo súr að undir lokin þurftum við ekkert að gera annað en að standa hreyfingarlausir á sviðinu og brosa, áhorfendur engdust samt um af hlátri. Sérstaklega var eftirtektarvert hvernig kvenfólkið á staðnum kiknaði í hnjánum meðan það horfði á okkur, en yfirleitt kiknar kvenfólk ekki í hnjánum nálægt mér nema með smá hvatningu, t.d. góðu sparki aftan í hnésbæturnar.

Hinir Smaladrengirnir fóru heim í dag og það er góð afslöppunardagskrá í smíðum fyrir morgundaginn, bara eitt glas af Bowmore í viðbót núna og svo beint að sofa.


Tjáskipti

anna

James biður að heilsa! ;)

Einar Solheim

Einhvern veginn held ég að þú gætir tekið copy/paste af þessari ferðasögu og notað fyrir hverja einustu utanlandsferð sem þú ferð! ;)

Hugi

Takk Anna :-). En ekki spilla honum með góðmennsku, hann var orðinn algjörlega afhuga mér þegar ég kom heim eftir jólin og sagði ekkert annað en "Anna, Anna, Anna" út allan janúar! Og Einar, ef þú ert að vitna til kaflans um kvenfólk sem kiknar í hnjáliðunum, þá geri ég fastlega ráð fyrir því, já :-).

Bragi

Kaffibarþjónninn var ekki sá eini sem var hissa á þessu þambi - það var stórmerkilegt að verða vitni að þessu... og þurfa svo að keyra helvítis hljómsveitarútuna með ofvirkan háværan kaffisjúkling afturí. Og hálfvita sem þurfti endilega "snöggvast" að kaupa einn barnavagn (-;

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin