Djass

12. febrúar 2007

Varúð: Í þessari færslu er talað um "hljóma". Rated PG-5 (a.m.k. 5 ára tónlistarnám)

"Hvar er Hugi" spurði einhver í tjáskiptunum. Hér er svarið. Í löngu, löngu, löngu máli. M.ö.o. ekki stuttu máli. Það sem ég er að reyna að segja, er að textinn sem fylgir hér á eftir er alveg ofsalega langur. Varúð! Ekki lesa nema þú hafir gaman af löngum texta og málalengingum, en ég hef einmitt mjög gaman af málalengingum. Enda voru málalengingar fundnar upp á fjórtándu öld af hollenska munknum Jean-Baptiste de Malalingingher sem þagði í fimmtíu ár áður en hann fór í stjórnmál. Ahh, hvar værum við án málalenginga. En já, sagan, einmitt...

Algengasta spurningin sem ég fæ þessa dagana er "hvernig er í skólanum". Fyrstu viðbrögðin eru auðvitað að finnast ég vera fimm ára gamall, svona gamaldags "hvernig var í skólanum í dag vinur"-stemning en svo man ég að ég er orðinn fullvaxta, jafnvel kynþroska karlmaður og reyni að svara. En svarið kemur tilfinningunni aldrei almennilega á framfæri.

Þegar ég var ungur langaði mig í nám en hafði ekki grænan grun um hvað mig langaði að læra. Sagnfræði. Mannfræði. Stjórnmálafræði. Hagfræði. Efnafræði. Eðlisfræði. Stærðfræði... Ég hafði botnlausan áhuga á þessu öllu (nema boddí-skrúfum, ég hef engan áhuga á boddí-skrúfum), hvort sem það heitir raun- eða félags-eitthvað sem var skelfilegt hlutskipti. Svo uppúr tvítugu lagðist ég í rúmið með valkvíða í nokkra mánuði og stofnaði svo bara fyrirtæki. En djassinn var auðvitað alltaf málið.

Djasspíanóleikurinn sameinar vinstra og hægra heilahvel með eindæmum vel. Fyrst þarf að beita rökhugsuninni til að komast yfir lærdóminn - maður þarf að nota fúlustu stærðfræði til að vefja hausnum utan um hljómaskipti og skala - en með æfingu færist lærdómurinn svo úr strikamerkta helmingi heilans yfir í þann skapandi og verður náttúrulegur hluti af tónlistarorðaforðanum hjá manni.

Einfalt dæmi: Einn minna uppáhalds djass-standarda, Stella by Starlight, endar á þessum ágæta hljómagangi:

Em7b5 - A7 - Dm7b5 - G7 - Cm7b5 - F7 - Bbmaj7

Semsagt (fyrir þá sem lesa svona algebru): Óskapleg klisja. En leikum okkur aðeins með þetta. Nú vill svo skemmtilega til að major-sjöundarhljómar eru náskyldir nágranna sínum, hálfminnkaða sjöundarhljómnum hálftóni ofar - alveg gomma af sameiginlegum tónum sem hægt er að leika sér með. Og ef við nýtum okkur þetta verður skyndilega til ólíkt meira spennandi hljómagangur:

Ebmaj7 - Em7b5 - A7 - Dbmaj7 - Dm7b5 - G7 - Bmaj7 - Cm7b5 - F7 - Bbmaj7

Massar meira að segja við laglínuna. Snilld! En hvernig væri nú að nota tritone-substitution á þessa sjöundarhljóma þarna. Og gefa svo þeim sjöundarhljómum sem fara fyrir mollhljómum smá altered-hljóm:

Ebmaj7 - Em7b5 - Eb7 - A7alt - Dbmaj7 - Dm7b5 - Db7 - G7alt - Bmaj7 - Cm7b5 - B7 - F7alt - Bbmaj7

Nú erum við farin að teygja okkur aðeins út í bláinn, en úr því við erum byrjuð, setjum þá líka inn sjöundarhljóma hálftóni ofan við þessa major-sjöundarhljóma þarna:

E7 - Ebmaj7 - Em7b5 - Eb7 - A7alt - D7 - Dbmaj7 - Dm7b5 - Db7 - G7alt - C7 - Bmaj7 - Cm7b5 - B7 - F7alt - B7 - Bbmaj7

Og ef við viljum missa okkur alveg, þá er náttúrulega algjörlega nauðsynlegt að setja II-V með sjöundarhljómunum, svo þeir verði ekki einmana:

Bm7 - E7 - Ebmaj7 - Em7b5 - Eb7 - A7alt - Am7 - D7 - Dbmaj7 - Dm7b5 - Db7 - G7alt - Gm7 - C7 - Bmaj7 - Cm7b5 - B7 - F7alt - B7 - Bbmaj7

En þá er þetta auðvitað orðin tóm þvæla og hljómagangur sem virkar engan veginn í raunveruleikanum. Enda markmiðið ekki að hlaða inn sem flestum hljómum, heldur að finna hljóma og skala skylda þeim upprunalegu, sem aftur gefur endalausa möguleika við útsetningar og sóló. Og þarna leynist óhemja af "sándum" sem virka, ef vel er leitað. Og svona mætti auðvitað halda endalaust áfram. Þetta er bara forskólinn.

Og þannig er svarið við spurningunni. Hvar er Hugi? Tjah, hann er búinn að sitja og hlusta á djass, spila djass, stúdera djass, hugsa um djass. Ég er orðinn fullgildur djassfíkill, eins og ekki hafi verið nóg fyrir.

(þessi færsla var í boði kennarans míns sem er snillingur og er endalaust hægt að hlusta á tala um hjómaferli og skalaval meðan fingurnir á honum rölta um píanóið)


Tjáskipti

hildigunnur

aahh, það var gaman að prófa þetta á hljómborðið :-) takk fyrir mig.

Hugi

Haha, verði þér að því. En verð að að nú finnst mér eggið vera farið að kenna hænunni :-).

Sveinbjörn

Vá hvað þetta var sláandi boring færsla, Hugi. Þrátt fyrir fimm ára tónlistarnámið mitt...

Hugi

Jújú, það er gömul speki að ástfangið fólk er leiðinlegt. Og ég er ástfanginn. Af djassi.

lindablinda

Mín spurning................. og er hægt að lifa af því? ;-)

Elías

Svo verðum við að fá Country&Western útgáfuna af þessu líka. Hvernig hefði Hank Williams spilað þetta?

Elías

Lifa af því? Ástfangið fólk þarf ekki að hugsa um svo veraldlega hluti!

Hugi

Lind, ég ætla að halda áfram að sigla með ríkisflotanum þar til ég verð einn af þessum óþolandi "skuldlausu íbúðareigendum". Ef ég fer ekki út í einhverja vitleysu (eins og kvenfólk) þá ætti allt að ganga vel og ég get dottið í það og sest við píanóið innan sex ára :-). Uss Elías, þetta er challenge. Held að þú sért betur fallinn til að koma með köntrí-útgáfuna.

hildigunnur

uss, nei, ég kunni slatta af hljómfræði en passaði mig á að gleyma henni allri aftur þegar ég fór að semja. Ágætt að rifja smá upp, reyndar fór ég aldrei langt út í jazzhljómana.

Fríða

Nú þarf ég að bíða þangað til ég kemst heim úr vinnunni og get sett fartölvuna mína upp á nýja píanóið stráksins. Þetta ætla ég að prófa. Og ekki skemma málalengingarnar fyrir. Ég hlakka til.

Stefán Arason

Ég fór fyrst að fatta þetta "jazzhljóma gutl" (sagt með hrokalegum og snobbuðum tóni) þegar ég fattaði að E7b5 væri moll hljómur. Er ykkur ekki kennt að bókstafsmollhljómur er skrifaður með litlum bókstaf? Ó nei, þá fer náttúrulega B og Bb ruglið ykkar alveg í kerfi (Bbminor yrði að bb!). En takkk fyrir afar fróðlegan pistil! Hlakka til að setjast með þetta við píanóið (hef náttúrulega bara heyrt þetta fyrir mér í hausnum ennþá ;-)

Hugi

Heyrðu góði, passaðu þig að drukkna ekki bara meðan rignir upp í nefið á þér! En vá, ég hef verið eitthvað súr í hausnum þegar ég skrifaði þennan pistil. Gleymdi að merkja hálfminnkuðu hljómana sem moll. Hugsa með hryllingi til þeirra óhljóða sem gætu hafa borist frá hljómborðum lesenda við að spila þetta :-).

Sveinbjörn

"I said to Hank Williams, how lonely does it get? Hank Williams hasn't answered yet"

Halldór

Moll er þessvegna iðulega skrifaður t.d. E- Bara ef hann Óli sæi þessa bloggfærslu þína! Hann myndi giftast þér um leið!

Lína

Línu finnst gaman að Hugi skuli gera það sem honum þykir skemmtilegt. Þrátt fyrir 5+ ára tónlistarnám heyrir Lína enga hljóma þegar hún les textann.. ..en hún stal sér uppskrift fyrir sætu kartöflurnar sem hún keypti í hádeginu, sem meðlæti með rauðvíni kvöldsins. Takk, góða helgi Lína

Hugi

Haha Sveinbjörn :-). Halldór, veit ekki með Óla. Heldurðu að hann sé hrifinn af mér? Ég hef aldrei þorað að tékka á honum, er hann ekki giftur? Takk Lína! Og nú varð ég forvitinn, ertu í tónlist? Verði þér annars að góðu sætu kartöflurnar. Ef þú valdir uppskriftina sem mig grunar, þá verðurðu ekki fyrir vonbrigðum :-).

vivian

sæll, er vinkona ernu hans ingó. hún benti mér á síðuna þína, alger snilld. þú ert virkilega skemmtilegur penni ... btw, mar kannast við jazz-fíknina ;)

Hugi

Vivian. Takk :-). En "Erna hans Ingó"... Nú veit ég að ég á að vita þetta - en ég veit bara ekki það sem ég veit að ég á að vita að ég veit, nema síður sé. Hver í fjandanum eru Ingó og Erna? Ég geri ráð fyrir að ég þurfi að bíta verulega fast í hnúana á mér þegar svarið kemur fram, - en ég neyðist til að spyrja.

vivian

hehe, þú getur sparað á þér hnúana, ég var sennilega bara að misskilja hlutina ;)

Lína

Nei, Hugi, er ekki í tónlist, nema þá sem njótandi. Lína hlaut klassískt uppeldi með dansi, tónlist og tannréttingum. Takk, súpan er snilld (berðu hana fram með lárviðarlaufunum í?) Lína

Mjása

Ég hafði aldrei neinn áhuga á jazzi og skildi eiginlega ekki hvað var svona merkilegt við þessa tónlistarstefnu þangað til ég setti einu sinni Miles Davis á þegar ég var brjálað pirruð og ég held barasta að aldrei hafi tónlist náð að túlka tilfinningar mínar eins vel og þetta skiptið. Að setja jazz á fóninn til skemmtunar skil ég þó ekki.

Finnur

Ég lærði nú bara swing og shuffle í FÍH

Hugi

Heyrðu, verði þér að súpunni Lína. Ég tek venjulega lárviðarlaufin úr. Þau eru gjörn á að festast þversum í kokinu á fólki þangað til það deyr úr súrefnisskorti. Sem er náttúrulega bara vandræðalegt í fjölskylduboðum. Mjása, iss, það geta allir lært að elska djass. Manstu hvaða Miles þetta var sem þú settir á þarna um árið? Já, Finnur. En sumir fara þarna til að fara í "tónlistarnám", ekki "trommunám" (haha, það verður aldrei gamalt að gera grín að trommúnistum)

Mjása

Held það hafi verið Side Car en ekki sjúr

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin