Bless bless kaffi

17. maí 2006

Nú er yfirvofandi efnahagskreppa í Brasilíu með tilheyrandi hungursneið og borgarastyrjöld. Og allt mér að kenna, því ég hætti samviskulaust að drekka kaffi í gær.

Eða hætti, þá meina ég að ég drakk ekki nema fimm bolla fyrir hádegi í gær og í þrjá í dag, en það eru um 30% af hefðbundnum morgunskammti eða 12% af dagsskammti. En á morgun hætti ég alveg. Tíu fingur upp til guðs.

Ég er búinn að vera óforbetranlegur koffínfíkill í tíu ár og svarta gullið hætti fyrir löngu að hafa þægilega hressandi áhrif á mig. Núna þarf ég 20-30 bolla yfir daginn (2-4 grömm af hreinu koffíni) bara til að komast í gegnum hann án þess að eiga á hættu að sofna í miðjum samræðum. Og þegar maður er búinn að innbyrða slíkt magn koffíns í nokkra mánuði fer að grípa mann sjúkleg löngun til að stökkva á fætur í tíma og ótíma og dansa skrykkdans, taka nærstadda hluti og troða þeim hér og þar á næsta manni eða bara hreinlega að pota nál í hausinn á sér og athuga hvort hann springur.

Árangurinn af koffínskortinum lætur ekki á sér standa. Ég var andleg eyðimörk í dag og gerði lítið annað en að horfa á skrifborðið mitt með sólheimaglott á vörum og þykkan sleftaum lekandi niður hökuna. Í hvert skipti sem ég opnaði munninn streymdu út slembikenndar runur af sérhljóðum eða, á verstu stundunum, umræður um veðrið. Ef það hefði kviknað í mér hefði ég líklega sagt "Neisko, bara kviknað í mér". Og svo hefði ég brunnið þögull til bana, sitjandi brosandi í stólnum.

Ég veit af reynslu að fráhvarfið tekur viku. Í millitíðinni ætla ég að reyna að hlífa öðru fólki við að umgangast mig því ég hef öðlast ofurkrafta til að drepa fólk úr leiðindum með nokkrum orðum.

Áhrif lyfja á spunahæfileika köngulóa - áhugaverður, koffínvefurinn.


Tjáskipti

Daníel

Greinilegt að koffínskorturinn hefur sömu áhrif á spjallinu, bara alger heiladauði. Þess vegna er kannski alveg dæmigert að ég skuli einmitt vera að blaðra hérna.

Stefán Arason

Elsku Hugi Varstu búinn að prófa kaffistólpípu? Kannski fer koffínið að hafa þægileg áhrif ef þú tekur það inn í líkamann með ristlinum...og þarafleiðandi byrjað í minni skömmtum, og farið niður á við hægt og hægt...og efnahagskreppan í Brasilíu nær að leysast á þeim tíma. Gangi þér vel, þinn vinur, Stefán

Júlía

Merkilegt þetta með vefina - og allir vita að fyrir eina fíkn kemur önnur í staðin. Kannski er bara best að vera á LSD þá? djók!

Lindablinda

Hef einmitt velt fyrir mér hvort ég sé að fúnkera vel eftir 15 kaffibolla Það er nærri lagi að ég standi mig einungis vel í að skjálfa, ofhugsa og koma engu í verk vegna þess að ég rýk úr einu í annað. Sýnist vefurinn sanna nákvæmlega þetta. Sem betur fer vinn ég þó ekki við að vefa............og ég er hætt að drekka 15 bolla. Núna eru það einungis 14.

baun

sko - það er hægt að drekka kaffi í hófi ef maður setur sér ákveðinn standard. drekka BARA eðalgott kaffi og sleppa uppþvottaskólpinu. þá drekkur maður ekki nema 2-4 bolla á dag. heldurðu að það sé ekki hægt Hugi minn? (kaffi er svooo gott þegar það er gott)

Þór

Sko herra Hugmundur, Það er sniðugt að skipta út kaffi með te. Te er nefnilega gætt þeim kostum að vera með koffíni líka, svo andlega eyðimerkurástandið varir ekki nema augnablik. Hinsvegar er Te með nægilega litlu koffín innihaldi til þess að þú ert búinn að míga lifur og nýrum áður en þú nærð að innbyrða sama magn og kemur úr kaffinu, það er með færri eiturefnum en kaffið, og það er ekkert mál að leggja te á hilluna ( ef ekki væri ólíkt kaffinu hvað það er sumt alveg herfilega gott :) ) Ég mæli með Te-i. Ef þú átt það til að gleyma pokanum í bollanum í allt of langan tíma ( eins og sumir ) þá hentar að vera með Euroshopper tepokana við hendina, því þeir verða ekki rammir eftir of langa legu og því hægt að núka teið upp í drykkjarhita eftir gleymsku. Mæli einnig eindregið með og styð heilshugar ákvörðun þína að hætta í kaffi. Þetta er magabani og taugasjúkdómur administreraður af stjórnvaldinu til að drepa niður allt frumkvæði og sjálfstæða hugsun :-P Viva la revolucion ! ;-)

Gestur

Ég er sammála baun. Einn eðalbolli í morgunsárið með tvöföldum espresso viðheldur nauðsynlegri klikkun vel frameftir degi. Í ýktum tilfellum má bæta á um þrjúleytið, líka með sparikaffi. Þetta kostar auðvitað sitt, en fer betur með taugakerfið. Síðan er þetta með kaffistólpípuna auðvitað lúxus sem maður leyfir sér einu sinni á blámána eða svo. Þú verður eins og nýsleginn túskildingur. Sko, ekkert roðn.

Steinunn Þóra

Ég tek í sama streng og baun og Gestur, svissa yfir í eðalkaffi engöngu og láta skólpið eiga sig. Nautnin sem fylgir því litla kaffimagni sem maður innbyrðir á dag verður þá líka svo rosaleg. Eða getur þú kannski bent á eitthvað betra en sterkt og gott kaffi eftir góðan mat? Að taka slíka sælu af sér vegna ofþambs á vinnustaðakaffi er hreiasta vitleysa.

Már

Ég held mig sjálfur við gæðakaffið. Snobbið heldur manni frá ofdrykkjunni. Félagi minn kallar þetta "veseniskaffi". Það er gott og lýsandi nafn.

Hugi

Takk fyrir góð ráð :). Það eru komin fjöldamörg ár síðan ég hætti í skólpinu, get ekki drukkið það lengur. Stóri vandinn er sá að við erum með þessa líka ljómandi fínu sjálfvirku espressovél í vinnunni sem hellir upp á frábært kaffi, þannig að magn og gæði fara saman á þessu heimili. En þegar ég er búinn að klára fráhvarfið og koma geðinu í samt lag, þá ætti ég aftur að geta farið að njóta morgun- og eftirmatarbollanna. Ég var að lesa mér til um koffín á vefnum og var að sjálfsögðu kominn með koffíneitrun, en þá þarf maður að hreinsa dótið alveg út. Þetta hlaut að vera sjúkdómur eins og allt annað í dag. Linda, ég vinn einmitt við að vefa og óttast að koffínfíknin sé farin að bitna á vefunarhæfninni. Þór, ég er mikill te-maður, jafnast ekkert á við heitan tebolla og góðan djass á kvöldin :-).

baun

nákvæmlega Már! þetta svínvirkar...

Hugi

Wikipedia er með merkilegan fróðleik um koffín. Þar er t.d að finna lista yfir hluta þeirra aukaverkana sem ég finn fyrir: Too much caffeine, especially over an extended period of time, can lead to a number of physical and mental conditions. The Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders, Fourth Edition (DSM-IV) states: "The 4 caffeine-induced psychiatric disorders include caffeine intoxication, caffeine-induced anxiety disorder, caffeine-induced sleep disorder, and caffeine-related disorder not otherwise specified (NOS)." An overdose of caffeine can result in a state termed caffeine intoxication or caffeine poisoning. Its symptoms are both physiological and psychological. Symptoms of caffeine intoxication include: restlessness, nervousness, excitement, insomnia, flushed face, diuresis, muscle twitching, rambling flow of thought and speech, paranoia, cardiac arrhythmia or tachycardia, and psychomotor agitation, gastrointestinal complaints, increased blood pressure, rapid pulse, vasoconstriction (tightening or constricting of superficial blood vessels) sometimes resulting in cold hands or fingers, increased amounts of fatty acids in the blood, and an increased production of gastric acid. In extreme cases mania, depression, lapses in judgment, disorientation, loss of social inhibition, delusions, hallucinations and psychosis may occur. [7]

ElínE

Mundu bara gæskurinn að summa lastanna er ávallt sú sama. Reyndu endilega að ávinna þér löst sem losar þið við skrykkdansinn úr beinunum.

Sveinbjörn

Ég er ekki svo viss um þessa pælingu um summu lastana. Þeir virðast bara safnast upp hjá mér.... Annars, ef menn vilja kynna sér kaffein og áhrif þess, þá er Erowid staðurinn: http://www.erowid.org/chemicals/caffeine/caffeine.shtml

Hugi

Aaaaaaaah, mmmmh, aaah, var að fá mér einn bolla til að slá á fráhvörfin. Ó, mmm, svo gott... Kannski ég fái mér annan. Og svo tvo eða þrjá. En aldrei fleiri en ellefu. Í allra mesta lagi fimmtán. Hmm Elín, hvaða löstur gæti boðið upp á skrykkdans?

Gommit

Ég man þegar þú hættir að drekka kaffi einusinni... ... man líka þegar þú keyptir koffínlaust kaffi og reyndir að gera alla geðveika. ......ég man líka þegar við sérpöntuðum kaffi á internetinu frá Hawaii og Panama, eða þar í nágrenninu. ........ég man líka þegar við reyndum að gera tilraun í ofneyslu á koffíni. Hættu þessu rugli. Sjálfsblekking er aldrei góð.

hildigunnur

Mætir bara á ráðstefnuna á morgun, situr þar og slefar. Svo verður komin helgi, það er meira að segja örugglega hægt að finna afsökun fyrir slefinu hjá ýmsum söngpípum í sjónvarpinu á laugardagskvöldið. Þynnka með slefi á sunnudaginn og svo gæti ástandið verið farið að skána á mánudaginn...

Simmi

Twinkie vörnin mín komin - http://en.wikipedia.org/wiki/Twinkie_defense "ég drakk bara of mikið kaffi og það leiddi til "mania, depression, lapses in judgment, disorientation, loss of social inhibition, delusions, hallucinations and psychosis" Annars mæli ég með te drykkju sem kaffi alternative - English Breakfast lífrænt ræktað er fullt af örvandi efnum og svo er auðvitað grænt te sem er ekki bara örvandi heldur bókstaflega svakalega gott fyrir þig (en kannski ekkert sérlega gott á bragðið) - http://www.umm.edu/altmed/ConsHerbs/GreenTeach.html

Simmi

Sjísus - tjáskiptakerfið rústaði tenglinum á Twinkie defense færsluna - skildi þetta virka betur - http://en.wikipedia.org/wiki/Twinkie_defense

Hugi

Júlía, LSD er líklega málið. Ég held að það hjálpi líka til með bloggskrif, þær ættu að verða ansi steiktar. Ég sé fyrir mér þriggja blaðsíðna langar færslur sem samanstanda alfarið af orðunum "vaaá" og "maður". Já, Hildigunnur, ég er heppinn að það er mikil slefhelgi framundan, ég ætti að falla fyllilega í hópinn :-). Simmi, there's no way to know how long this has been going on! En mér líst vel á téðar te-tegundir, ætla að skella mér á þetta. Strax og ég er búinn að laga alla böggana í tjáskiptakerfinu mínu.

hildigunnur

grænt te er FIÐBJÓÐUR :-@

Siggi Óla

Dúd.....breaking news! Þú ert ekki könguló! Þótt þú spinnir vefi! Það sem þú þarft að spá er áhrif koffeins á Homo Sapiens Sapiens. Það er í góðu lagi að drekka 3 bolla af kaffi á dag. Ekki pína þig í gegnum fráhvarfið. Haltu bara lágmarksskammti og það verður allt í lagi með þig.

Kalli

En kannski er Hugi... Peter Parker! Og Peter Parker er... Spídermann!!!

hildigunnur

já, eða þessi hér: http://www.internationalhero.co.uk/s/spideyindia.htm

Hugi

Grænt te venst merkilega vel. Svona eins og að læra að lífa með krabbameini. Og mig grunaði nú alltaf að ég væri ekki kónguló, en ég held að kaffið hafi verið farið að hafa nákvæmlega þessi áhrif á spunahæfileika mína. Núna leyfi ég mér einn til tvo bolla á dag, og það er unaður. Uuunaður. Hehe, indverski spiderman er flottur - alveg í stíl við japanska spiderman.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin