Til að hafa allt uppi á borðinu, þá vil ég að það sé á hreinu að það er ekkert leyndarmál að ég, sjálfur vefsmiðurinn, held úti einum ljótasta vef sem sést hefur á hinu annars ágæta Interneti. Ég hef heyrt um börn sem hafa brostið í óstöðvandi grát þegar þau slysast hingað inn, ketti sem setja á sig kryppu og hvæsa á tölvuna og hunda sem setja undir sig skottið, hlaupa ýlfrandi í burtu og sjást aldrei aftur. Já, gott fólk, þessi vefur er svo ljótur að fílamaðurinn hringdi og hótaði að kæra mig fyrir hugverksstuld, a.m.k. einn lesandi hafði samband við prest og bað hann um að særa vefinn af skjánum hjá sér og reglulegur gestur missti vitið, gerðist fransiskanamunkur og á í dag löng samtöl um hvalveiðar við ósýnilegan vin sinn, franskan heimspeking að nafni Anton Pierre Sjabúbú.
Þessi vefur hefur hlotið þau hörmulegu örlög að þjóna mér sem einskonar tilraunastofa. Þannig ferðast ég um víðáttur Intervefsins, ræni góðum hugmyndum úr kóða annarra, sauma saman og afskræmi svo úr verður alþjóðlegt Frankenstein-skrímsli, samsett úr javaskriftum frá Argentínu, HTML-kóða frá Svahílí og stílsniðsbrellum frá Evrópu . Væri veraldarvefurinn safapressa, þá væri hratgatið á www.karlmenn.is. Þannig er það nú bara.
Ég biðst því forláts á útliti vefsins. Hver veit, e.t.v. mun ég leggja það á mig að fegra hann einhverntíman og halda tilraunastarfseminni fyrir sjálfan mig.
Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin