Erlendis fæst kjötafurð sem heitir "skinka". Þetta er svínakjöt úr lærvöðva eða rassvöðva dýrsins, salt og sætt á bragðið og stundum reykt. Ljúffengt kjöt sem bragðast gríðarlega vel með góðu brauði og bragðmiklum osti. Nema þú sért gyðingur eða múslimi en þá ferðu rakleiðis til heljar ef þú leggur þér skinku til munns og því líklega ekki ráðlegt að gera það.
Hér á Íslandi er líka hægt að fá "skinku" en það virðist hafa átt sér stað einhver hræðilegur misskilningur þegar uppskriftin barst frá erlendum kjötiðnaðarmönnum til íslenskra. Annaðhvort var uppskriftinni ruglað saman við uppskrift að hundamat úr svínabrjóski, eða þá að "Hérastubbur Kjötiðnaðarmaður" hjá SS er steinsofandi á meðan bakaradrengurinn blandar "aðeins bara 100 lítrum saltvatni" í hverja skinkuuppskrift. Íslensk skinka bragðast a.m.k. eins og uppsópaðir afgangar af sjálfdauðum, þunglyndum svínum sem búið er að þramma á í skítugum stígvélum, tæta í iðnaðarhakkavél, blanda með vatni, matarlími og þriðja kryddinu, troða í görn óheppins spendýrs, sjóða og skera í 0,05cm þunnar þynnur og vakúmpakka. Ég bið hér með skinku-, slátur- og medesterpylsudeild SS afsökunar á að hafa lekið leyniuppskriftinni í almenning.
Til að fullkomna neytendanauðgunina er götuverðið á grammi af þessari kjötafurð hærra en á kókaíni. Reyndar er hægt að kaupa sérstaka "bónusskinku" sem kostar minna, en maður þarf ekki annað en að horfa á veikindalegan gráan litinn á henni til að missa alla matarlyst - maður veit ekki hvort maður á að vorkenna þessu eða éta þetta.
Ég er nokkuð viss um að þetta er hluti af Stóra Lambakjötssamsærinu. Einhversstaðar í Bændahöllinni situr búlduleitur málaliði Landssamtaka Sauðfjárbænda og eyðir 30% vinnudagsins í að upphugsa leiðir til að eyðileggja afurðir af öðrum dýrum en sauðkindinni. Hin 70% dagsins situr hann, heldur um vömbina og hlær djúpum illmennahlátri. Daginn sem hann fann upp íslenska skinku, "the ultimate evil", fékk hann eflaust stóran bónus (og kannski kom hugmyndin að Bónusskinku þaðan).
Ég veit ekki hvað á að gera til að mótmæla þessu framferði. Samneyslan greiðir rekstur heils ráðuneytis sem tryggir sölu íslenskra landbúnaðarafurða óháð gæðum—sem er sorglegt, því bændurnir sem þurfa að lifa við þetta kerfi verðlagsnefnda og framleiðslukvóta framleiða eflaust ágætis vöru áður en hún er eyðilögð.
Reyndar er Bónus Bayonne skinka ekta skinka. Hún er bara til heil og kostar yfirleitt eitthvað í kringum 2000, sem eru kostakaup ef maður nennir að sjóða hana og á síðan áleggssög til að skera hana með.
Þegar ég var barn voru þannig sagir til í hverri einustu verslun sem ég vissi af. Núna er hún bara til á einum stað: Ostabúðinni á Skólavörðustíg.
Þetta er greinin sem ég ætlaði alltaf að skrifa um íslenska "skinku".
Eg hlo upphatt :) en sem betur fer er eg nu i landi svinsins og hef adgang ad alllskonar grisagummeladi. Sendi samudarkvedjur
Elías, áhugavert - Bónus Bayonne-skinka er komin á innkaupalistann fyrir næstu Bónusferð. Hef aðgang að áleggshníf, þannig að að er tilraunarinnar virði. Arnaldur, já - þetta er hroði. Linda, þakka þér.
Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin