Það var sunnudag einn í desember að ég vaknaði í alveg stjörnugóðu veðri og ljómandi skapi. Þrátt fyrir höfuðlægt skýjafar eftir matarboð kvöldsins áður vatt ég mér fimlega fram úr rúminu og ákvað að runninn væri upp snilldargóður dagur fyrir göngu. Ég smellti mér í gönguskóna og blístraði lítinn lagstúf á leiðinni út um dyrnar. Mér leið eins og Mikka mús í "Steamboat Willy" og bjóst allt eins við því að brosandi sólin blikkaði mig og að bláir smáfuglar mundu birtast og flögra syngjandi í kringum mig. Nema hvað að þarna var um að ræða Ísland í desember. Sólin reis ekki fyrr en á hádegi og allt lifandi hafði frosið í hel um nóttina.
Ég brunaði af stað á áætlaðan áfangastað, að Sleggjubeinsskarði ofan við Kolviðarhól. Máttarvöldin höfðu augljóslega haft veður af þessari fíflsku minni og einsett sér að stöðva mig, því að því nær sem dró áfangastaðnum varð himininn þungbúnari og fyrir hvern kílómetra sem ég ók bættist sekúndumetri í vindhraðann. Þegar ég var kominn að Litlu Kaffistofunni rak ég augun í skilti sem tilkynnti að úti væru litlir 20m/sek. Í reitnum sem átti að sýna vindhraða í hviðum stóð bara "Bilun". Kaldhæðnin fór fram hjá mér. Ég var hættur að blístra og sá fyrir mér litlu bláu smáfuglana berjast fyrir lífi sínu á miðju atlantshafinu, þangað sem þeir höfðu fokið.
Þrjóskan vall allsnarlega upp í mér - smá gola skyldi sko ekki hindra áform mín um góða göngu. En þegar ég var kominn á afleggjarann að Kolviðarhóli skipti engum sköpum að bíllinn hreinlega fauk út af veginum og út í skurð þar sem ég fékk að dúsa í 5 frábæra tíma og bíða eftir dráttarbíl. Ég held að ég geti fullyrt að þetta voru leiðinlegustu fimm klukkutímar sem nokkur lífvera í hinum þekkta og óþekkta alheimi hefur nokkurntíman upplifað. Ég íhugaði að beita aðferð Arthur Dent til að stytta mér stundir: að gerast geðveikur (Arthur þessi er söguhetja í hinni ágætu bók "Hitchhiker's guide to the Galaxy, en hann stytti sér stundir með því að ímynda sér að hann væri sítróna og hoppaði í og úr vatni sem var líka geðveikt og hélt að það væri gin og tónik).
Fullur hugrekkis gerði ég tvær örvæntingarfullar tilraunir til að nota tímann til gönguferða en þakkaði þó mínum sæla fyrir að sleppa á lífi úr þeim leiðöngrum - í seinna skiptið þurfti ég bókstaflega að skríða í skurðinum aftur að bílnum.
Lexían: Í almáttugs bænum, gættu þess að eiga alltaf lesefni til reiðu í bílnum þínum. Þótt ótrúlegt megi virðast hafa leiðbeiningabæklingurinn fyrir útvarpið, ábyrgðarskírteinið, smurhandbókin og allt hitt sem leynist í hanskahólfinu þínu lítið skemmtanagildi.
Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin