Þrátt fyrir ófarirnar sem tíundaðar voru í fyrri hluta þessa sögukorns ákvað ég að láta bjarstýnispúkann ráða og gerði aðra tilraun til göngu upp Sleggjubeinsskarð um síðustu helgi. Veðrið reyndist betra en áður, vindur ekki nema tæpir 20 m/sek og rigning sjáanlega minni en í mörgum syndaflóðum. Í þetta skiptið tókst mér að keyra á áfangastað án þess að fjúka út af veginum og fannst mér það góð byrjun. Þegar ég steig út úr bílnum fann ég að vísu að Kári blés byrlega en þar sem um var að ræða meðvind (eða meðstorm) lét ég mér hann í léttu rúmi liggja, mundaði göngustafinn og lagði einbeittur af stað upp skarðið.
Það væri bláköld lygi að kalla fyrsta hluta fararinnar "göngu" því ég fauk upp fjallið eins og visið laufblað og réði ekki stefnunni frekar en versti framsóknarmaður. Rokið í sjálfu skarðinu var svo kröftugt að ég þurfti að hlaupa í gegnum það til að detta ekki og hló eins og brjálæðingur á meðan. Ég þakka enn fyrir að enginn skyldi sjá mig þar sem ég fauk flissandi áfram líkt og ósýnileg sadistamaddama (fjallkonan?) hefði hengt keðjur í geirvörturnar á mér og væri að draga mig í gegnum skarðið.
Svona lét ég líkamann reka undan vindi í einn og hálfan klukkutíma í viðbót, útlimirnir flaksandi á undan mér eins og ósoðnir lifrarpylsukeppir. Þá fannst mér heldur kominn tími til að snúa við og sigla beitivind aftur niður í bíl, sneri mér upp í vindinn og hóf ferðina. Eftir um 30 sekúndna göngu leitaði ég skjóls á bak við stóran stein og framkvæmdi smá stöðuúttekt í huganum:
Ég lagði þó af stað, enda um fátt annað að ræða. Ég hreinlega tók til fótanna. Veðurguðirnir beittu regni, slyddu og roki af mikilli færni til að kvelja mig en ég varðist með því að syngja létta slagara eins og "Brennið þið vitar" fullum hálsi. Þegar ég loksins komst niður í bíl eftir tveggja tíma villuráf var andlitið á mér frosið fast skakkt, - húðin virtist hafa fokið frá hægri hliðinni og yfir á þá vinstri og það leið allnokkur tími þar til það þiðnaði aftur til baka í (mitt) eðlilegt útlit. Ég var þó enn eins og hálfþiðnað fiskflak, kaldur og slepjulegur að utan og frosinn að innan, og skalf eins og hrísla á leiðinni heim að Magahel.
Það tók klukkutíma í baðkarinu, tvö viskíglös og þrjár umferðir í gegnum Kind of Blue að berja hita í líkamann.
Lexían: Ekki fylgja mínu fordæmi. Aldrei. Ég er skaddaður á heila og það er vísbending um dapurlegt ástand íslensks geðheilbrigðiskerfis að ég skuli ganga laus. Stundum grunar mig að mamma hafi drukkið á meðgöngunni.
Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin