Játning

3. desember 2006

Stundum öfunda ég sjálfan mig af mínu einfalda lífi. Því það er einfalt þótt það sé önnum kafið, svona að öllu jöfnu.

Það er sunnudagur. Ég var vakinn klukkan tíu. Fór í sund með vinkonu minni. Spilaði á píanóið til hádegis. Kíkti á kaffihús og kjaftaði við Hildi systur í klukkutíma. Fór svo heim og lagðist í letistólinn með tebolla og bók. Fór og söng nokkur lög til styrktar samtökum flogaveikra. Lék meira á píanóið. Rölti út í Melabúð á náttfötunum og keypti lambaskanka. Setti djass á fóninn og eyddi klukkutíma í að elda fyrir sjálfan mig. Lagðist aftur í letistólinn og fór að læra. Ligg núna og les góða bók meðan ég hlusta á tónlist frá því fyrir 15. öld til prófs í tónlistarsögu.

Ég skil ekki stressað fólk. Lífið er svo einfalt. Og gott.


Tjáskipti

inga hanna

ég þyrfti að koma mér upp svona letistól!

Hugi

Inga Hanna. Inga Hanna ÞÓ. Áttu ekki letistól? Ef svarið er já, þá er lausnin einföld. Þú bara verður að bjarga því. Minn er hinn hefðbundni Lati-strákur sem fæst í Húsgagnahöllinni. Ég keypti hann fyrir þremur árum og held að ég hafi eytt um þriðjungi af ævinni í honum síðan þá. Margir tebollar og margar bækur sem hafa horfið við setu í "húsbóndahorninu".

inga hanna

reyndar held ég að þetta sé skilgreiningarvandi.. og vandi við að kunna að sitja kyrr.

Hugi

Veit hvað þú meinar. Ég glímdi við þennan sama vanda en losaði mig við hann af ásetningi. Og lífið er betra. Og ég latari.

baun

að eiga svona stól ætti að flokkast undir mannréttindi. ég keypti mér lata-strák fyrir nokkrum árum og löngum stundum sit ég þar, prjóna, les...og hugsa

Elín

Ég las þrisvar í röð að þú hefðir lagst í stólinn með tebolla og kók.... skildi ekkert í þér :)

Barbie

Ji minn. Fegurðarskyn mitt fer í hjartastopp - svona latastrákastólar eru hreinasti hroooooðbjóður! En ég stressast líka bara um...

Lilja

Góður dagur!! Takk fyrir síðast ;-)

baun

jú, vissulega eru latastráksstólar ljótari en Grýla með holdsveiki, en þægilegir og þénugir eru þeir. útlitið er ekki allt Barbí mín:)

lindablinda

Ég hef nú einhverju sinni - oftar en einu sinni held ég......- stolið blogginu þínu, þannig að nú ætla ég að stela lífinu þínu. Mættu bara með hárkollu og gleraugu niður í Iðnskóla á morgun, rífðu kjaft á pólsku og Litháísku og njóttu vel. Ég er hinsvegar farin að glamra á píanó og hvíla mig í latabæjarst.......nei, latastrákastól.

Þór

Ekki skil ég hvað yður finnst svo gott við þessa letistóla. Ég gerðist svo frægur af endemum að fjárfesta í svona húsbákni fyrir nokkrum árum, og greiddi með strauji til þriggja ára. Báknið var með innbyggðum bakriðli (ruggu) og rassaþeyti (snúningsfæti). Það eina sem ég hafði upp úr því að sitja í fyrirbærinu var að bakið versnaði og flest það sem brothætt var í íbúðinni stökk niður á gólf þegar forynjublá ófreskjan stökk á loft og sneri sér í allar höfuðáttirnar sjö við að einhver stóð upp út bákninu. Ég þakka pent fyrir mína IKEA kolla sem kosta 395,- stykkið. Báknið átti að fara í ruslið, en í staðinn gaf ég það manneskju sem mér var illa við.

Mjása

Stress er fyrir fress en Mjása er læða. Lífið er gott. Eða saltfiskur. Man ekki hvort.

DonPedro

Draumastóllinn minn er bæði þægilegur og fallegur. LayZBoy En, (aumingja ég) ég hef ekki efni á honum enn. http://www.stokke.com/inuse.asp?div=M&na=UK&la=EN&p=Gravity&nr=01

Carlo

Úh... that's more like it!

Lína

Línu vantar latan strák.. á nóg af stólum.

Hugi

Hehe, Elín. Ég er viss um að nýríkir samlandar okkar slappa aldrei af nema hafa hjá sér góðan tebolla og kók :). Jújú, lötustrákarnir eru ekki fallegir. En ég fyrirgef mínum auðveldlega óguðlegan ljótleika hans. Hann er svo mjúkur og góður og elskar mig alveg jafn mikið og ég elska hann. Mjása, ég er fress (held að ekkert hafi breyst síðan ég leit síðast niður í sturtunni) en á þessu heimili er ekkert stress. Bara te og djass :). Pedro. Láttu mig vita þegar þú leggur inn pöntun. I want me some of that. Lína, vantar þig latan strák? Þú ert á röngum stað. Ef þig vantaði ofvirkan rauðhærðan píanista væri það allt annað mál, þá værirðu á hárréttum stað. Skal samt athuga hvað ég get gert, þekki nokkra lata. Sérstaklega með einn í huga.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin