Afmældur

14. nóvember 2006

Já. Ég er á lífi. Ennþá. Jújú. Og orðinn árinu eldri en síðast.

9. nóvember. Merkileg dagsetning. Og ekki bara vegna þess að hún stuðlar, heldur einnig frá sjónarhóli tuttugustualdar söguáhugamannsins. Dauði þýska keisaraveldisins. Stofnun Weimar-lýðveldisins. Bjórhallaruppreisn Hitlers litla. Krystalsnóttin. Tilræðið við Hitler. Fall Berlínarmúrsins. Fæðing mín.

Já, ég átti þennan líka frábæra afmælisdag á fimmtudaginn. Vaknaði venju fremur snemma, um sjöleytið, en samt voru þá þegar komin í fjarskiptaáhaldið mitt tvö smáskilaboð (eða "SMS" eins og unga fólkið segir) með óskum um gleðilegan afmælisdag. Ég á svo fína vini að ég skil bara ekkert í því. Ég kem fram við þetta fólk eins og annan óþverra sem kemur úr eyrunum og nefinu á mér en samt skal það halda áfram að umgangast mig. Masókistar - upp til hópa.

Jæja, ég brunaði (of seint) í vinnuna og fyrsta manneskjan sem ég mætti óskaði mér til hamingju með daginn. Sem mér þótti undarlegt þar sem ég gæti svarið að ég hafði örugglega aldrei séð hana áður. Og svo streymdu hamingjuóskirnar að frá vinnufélögunum. Ég varð tortryggnari með hverri mínútunni, hvað vildu þau mér eiginlega? Held að þau hafi ætlað að hópmisnota mig í lok dags, klikkuðu bara á því að ég hætti snemma til að fara í skólann. Því miður, held ég hafi misst af góðri hópmisnotkun.

En já, ég var löngu búinn að ákveða hvernig ég ætlaði að eyða þessum afmælisdegi og planið gekk vonum framar. Afslöppun. Ég kom heim úr skólanum kl. 19, skipti í náttfötin, refsaði píanóinu í góðan klukkutíma og plantaði mér svo í eldhúsið þar sem ég eldaði oní mig lambaskanka og bakaði eins og vindurinn langt fram eftir kvöldi. Varð bara fyrir einni (ánægjulegri) truflun þegar vinafólk mitt kíkti í heimsókn seint um kvöldið, en þau átu auðvitað allt sem ég hafði bakað fram að því, restina af skönkunum og flest annað lauslegt í íbúðinni. Veit ekki til hvers ég er að baka, þetta er alltaf allt saman bara étið.

En já, afmæli eru fín.

Og varðandi heljarþögn síðustu vikna á þessum annars ágæta vef? Henni er lokið.

Þetta er mynd. Til framtíðarheimildar fyrir sjálfan mig um hvernig ég lít út í dag, nú þegar ég hef loks náð þessum aldri (stúlkan sem er við hliðina á mér er viljandi klippt út, skyggir annars á mig).


Tjáskipti

Sveinbjörn

Talandi um "homocidal grin"! Til hamingju með afmælið, Hugi félagi. Þú ert einu ári nær dauða þínum.

Hugi

Sveinbjörn, Homicidal grin? Blue Steel? Magnum? Pfft, tómt rusl. "Cheshire Cat" er svipur 21. aldarinnar :-).

baun

Hjartans hamingjuóskir:o)

Carlo

Knús og kossar, elsku kallinn minn.

Siggi Óla

Dúd! Til hamingju með ammlið! Ég steingleymdi því náttúrulega eins og mér einum er lagið. Ég hef reyndar oftar ein einu sinni gleymt mínum eigin afmælisdegi- svo ekki sé minnst á afmælisdaga eiginkonu, foreldra, systkina og annarra nákominna ættingja. Ég verð að fara að koma mér upp einhverju kerfi til að minna mig á þetta..........Anyhoo.....TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ. Þú ert eins og gott vín kallinn minn. Verður sífellt betri með árunum og er þá mikið sagt.

lindablinda

Til hamingju með daginn um daginn. Maður sem ég svaf við hliðina á í mörg ár átti mörg merkisatriði í sarpinum yfir þennan sama afmælisdag sem hann jú deilir með þér. Gaman að því. Ég segi annars það sama - algjör tímasóun að elda mat og baka - allt étið hvort eð er. Ég bendi dóttur minni því góðfúslega að fara í önnur hús á matmálstímum og sníkja. Virkar svona ljómandi vel.

Elín Björk

Innilega til hamingju með daginn. Mér sýnist þú bera aldurinn með afbrigðum vel. -Elín

Hugi

Þúsund þakkir, öll :-). Siggi, láttu mig vita þegar þú kíkir í bæinn næst - ég þarf að láta þig bjóða mér upp á afmælistebolla! :) Linda, jújú, ég geri það sama. Alltaf aukadiskur á borðum hjá vinafólki mínu á matmálstíma. Elín, ekki segja neinum, en þetta er alveg hárrétt hjá þér. Ég gerði samning við djöfulinn og yngist um hálft ár fyrir hvert heilt sem ég lifi. Það er auðvitað algjör snilld, nema ég kvíði pínu að fara í gegnum kynþroskann aftur. Sosum nákvæmlega það sama og að eldast - maður endar getulaus á hvorn veginn sem fer.

Fríða

Haha, góður þessi með kynþroskann. En, til hamingju með afmælið allavega :)

Þór

Til hamingju með daginn gamli :-D Gaman að sjá að þú sért lifnaður við ! Ég var farinn að halda á tímabili að Anna hefði villst á þér og Margeiri og læst þig inni í búrinu hans ;-)

Elín

Til hamingju með daginn um daginn... ...gott hjá þér að eiga svona afmæli, ég vissi alltaf að þú værir duglegur strákur. :)

Ms. G

Þessi ermi við hliðina á þér vinnur svo rosalegan leiksigur að ég hélt sem snöggvast að þetta væri Don Pedro. En svo sagðirðu að þetta væri stúlka svo nú er ég ekki viss. Og til lukku með afmælinguna. One down, x to go. Hann lengi lifi (hann Hugi). Etc.

Elías

Til hamingju! Hvað gafstu þér svo í afmælisgjöf?

Þór

Handleggurinn sem stendur út úr erminni er örugglega ekki nógu loðinn til að geta verið Don-inn ^_^

Guggan

Hæ krútt Til hamingju með ammælið þaddna um daginn. Varstu ekki annars 18??? Kv. Gugga

Mjása

Já, bakstur er eins og þrif: Maður býr um rúmið, vaskar upp og svo ári seinna verður maður að gera þetta allt aftur!

Carlo

Ég hef ALDREI séð konu fyrir mér að brjóta úr lakinu.

Eva í sveitinni

Til hamingju með daginn um daginn... Gef þér sveitakleinu ef þú átt leið hjá einhvern tímann. Hvernig væri nú að skipuleggja óvissuferð norður í land... Skella sér í línu á Kántrýbæ? Kv. Eva

Kibbster

Til hammó með ammó esskan. Þúrt bara gasalega myndarlegur þessa dagana.

DonPedro

Ég sendi mínar bestu, og nú þarf að blása til samveru. Yfir góðri máltíð og vel völdu rauðvínsglasi. Loðna höndin

Þór

> Loðna höndin Hehehe :-) :-P

Ms. G

Já, hvað er þetta með hárvöxt á Doninum sem hér er verið að ýja að? Gæti maður fengið að sjá myndir?

DonPedro

Við skulum orða það sem svo að frönsku genin í Doninum sjái til þess að honum er ekki alveg eins kalt og mörgum öðrum.

Ms. G

Hmm. Það er nú voða hlýleg tilhugsun í þessu illviðri sem geisar þessa dagana DP. Hugi, þú fyrirgefur, ertu nokkuð að nota bloggið þitt annars?

Barbie

Til hamingju með daginn molinn minn. Og mikið ertu fallegur maður.

Skutlan

Til hamingju með daginn þann 9 *kossar*

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin