Tímaflakk

13. janúar 2009

Fór á fyrstu æfinguna með skólakór FÍH í kvöld og mér reiknast svo til að ég sé u.þ.b. jafngamall öllum hinum meðlimunum. Samanlagt. En alveg ruglskemmtilegt samt - eins og að vera troðið inn í tímavél og vera aftur orðinn 17 ára og kominn á æfingu í MH-kórnum. Vægast sagt undarleg tilfinning.

Ég er að íhuga að fá mér vestispeysu, tvídjakka og pípu og segja krökkunum að kalla mig "Afa". Ég get þá gefið þeim pralín-brjóstsykur og heilræði um lífið og tilveruna og svona - og þegar ég dey verður hengd upp lítil mynd í FÍH af "Afa", gamla góðlundaða kallinum sem var alltaf á röltinu um skólann og enginn veit hvað hét...

Já, ég held ég geri það.


Tjáskipti

baun

gott plan. hvað er að vera góðlundaður?

Hugi

Þetta er austfirska. Góðlundaður maður á alltaf nóg af lunda. Alveg eins og "andríkur" hérna fyrir sunnan, nema bara með lunda.

baun

ljómandi. er lundinn sem Austfirðingurinn á alltaf góður? eða getur maður verið vondlundaður?

Hugi

Njee, það er afar sjaldgæft að menn séu vondlundaðir. En sumir eru svolítið sérlundaðir.

Vælan

eru það þá þeir sem gefa ekki með sér af lundanum heldur graðga hann allan í sig sjálfir?

Hugi

Alveg syngjandi rétt Væla! Svo er náttúrulega geðdeild að fyllast af fólki sem glímir við erfiða lundarbagga á þessum síðustu og verstu. Mjög sorglegt.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin