Hliðarverkefnið

26. nóvember 2006

Þar sem ég hef ekkert að gera, sit venjulega allan daginn alla daga og bora í nefið eða naflann á mér, er ég byrjaður á smá aukaverkefni - við Logi erum að smíða eldamennsku- og eldhússkipulagsvef. Við smellum vel saman í þessu verki þar sem ég er áhugamaður um eldamennsku og hann er áhugamaður um skipulag. Ég er búinn að vera að forrita fyrstu útgáfu af vefnum og hún er núna komin upp. Afar hrá, og snýst enn sem komið er aðeins um uppskriftasafnið (sem verður minnsti hluti vefsins) en virkar nokkuð rétt. Ég ætla að vera duglegur að henda uppskriftum þarna inn núna og athugasemdir og hugmyndir eru vel þegnar.

Fróðleiksmoli dagsins: Vissir þú að forritun er orkufrek vinna? Jafnvel orkufrekari en að grafa húsgrunna með berum höndum? Ég sat við eldhúsborðið frá kl. 10 í gærmorgun til miðnættis í gær og forritaði, á þessum tíma hurfu tveir lítrar af kaffi, þrír pakkar af grahamskexi, tvær krukkur af bláberjasultu og tvö stykki af gráðaosti.


Tjáskipti

Eva í sveitinni

Þetta er eitthvað fyrir mig, ég elska eldamennsku, menn sem elda og skipulag... Bóndakjéddlingin

Elín

Hugi þú ert nú með dannaðri forriturum... ....þeir sem ég kannast við borða bara pizzur og kóka kóla :) ég þarf annars að senda á þig geggjaða uppskrift af mexikóskri kjúklingasúpu, Kalli getur vottað hversu góð hún er ;)

baun

FRÁBÆRT, takk fyrir! Ætla sko að skella mér í tilraunagírinn í vikunni og elda eftir einhverjum Huga-uppskriftum...

Carlo

Ég er líka enn að bíða eftir uppskriftinni :p Annars er það alþekkt meðal forritara á Mac að gæði hugbúnaðar eru í réttu hlutfalli við gæði kaffisins sem forritararnir innbyrða. Þetta kannski útskýrir eitthvað? :) Eins gott annars að þú hefur eitthvað til að dunda þér við sem stuðlar að góðri brennslu, Hugi minn. Svona rétt á milli þess sem þú hobbíast við að grafa yngismeyjar úr sköflum.

Sveinbjörn

Flottur vefur, og góð hugmynd.

Mjása

Flottur vefur. Langt síðan að ég hef heyrt orðið skankar.

Hugi

Eva, þú verður að skrá þig og fara að hlaða inn uppskriftum - ertu ekki orðið með alveg mökk af einhverjum sér-skagfirskum uppskriftum? Djúpsteiktir Akureyringar og svona? Elín, já takk, ég þigg uppskriftina :-). Svo vísarðu Kalla bara á hana hér ;-). Annars er ég nú ekki mjög dannaður, vá, hvílíkur misskilningur. Hefðir átt að sjá aðfarirnar við osta- og sultuátið hérna í gær. Úff, maður... Það leið yfir mig og svo rankaði ég við mér um miðja nóttina með sultutauma lekandi útundir eyru. Búinn að skrá mig í SÁS, Samtök Áhugamanna um Sultuvandamálið. Baun, mundu að senda inn stjörnugjöf og lýsingu á upplifuninni þegar þú eldar ;-). Takk Sveinbjörn og Mjása - og hvað segirðu Mjása, hvað voru skankar kallaðir í þinni sveit? Mmmmh, ekkert jafn gott og góðir skankar... Getur annars einhver sagt mér hvort þetta lítur sæmilega út í Internet Explorer á Windows, hef ekki getað prófað þetta þar ennþá.

SSkoppur

Gúllas dauðans......er þetta unaðsrétturinn sem tryggði þér ferð á ofurbandið Rush ?

Hugi

Koppur. Þú hittir naglann á höfuðið :-).

lindablinda

Skyr. Ódýrt, einfalt, gott. En ég kem uppskriftum áleiðis til áhugasamra.

Elín

Já Hugi ég er viss um að þú hefur litið út eins og villimaður... ;) Explorer is not kind frekar en fyrri daginn... vantar vinstri dálkana alla inn og "nýjar uppskriftir" koma fyrir ofan "bestu uppskriftirnar"

inga hanna

ég ætla að byrja á sætkartöflusúpunni!

Eva í sveitinni

Að sjálfsögðu er ég komin með góðann uppskriftarbanka. Smá vesen þó, get hvorki skráð mig í firefox né safari.... hmmmm

Guggan

Þetta er voðalega krúttlegt hjá ykkur :-)

Agnes

Líst mjög vel á þetta hjá ykkur...:)

Fríða

Ég er í vinnunni og það er bara Internet Explorer á Windows. Þetta lítur ágætlega út fyrst, en svo þegar ég smellti á einhverja uppskrift, þá hvarf vinstri kanturinn inn undir favorites gluggann sem ég var með opninn þarna vinstra megin. Og þegar ég ætlaði til baka, þá var forsíðan líka orðin þannig, það sem sagt sást ekki sem var vinstra megin nema ég leyfði glugganum þínum að fylla allan skjáinn.

Þór

Frábært framtak Hugi ! :-D Nú er bara spurning um að tína saman eitthvað sem maður hefur ekki brennt við eða kryddað vitlaust og henda þarna inn :) Btw.. ertu búinn að henda inn uppskriftinni að því hvernig þú notaðir kexið sultuna og ostinn ? ;) Elín: ég drekk ekki einusinni kaffi eða kók. Te og biskví fyrir minn mann þegar rýnt er í hafsjó af C++ og Java kóða. ( Mér finnst að Sun eigi að endurnefna Java sem Earl Grey eða English Melange ! ;-) )

Mjása

Nei djók! Er orðið skankar til?! Hélt þetta væri undarlegur húmor eða einkennileg innsláttarvilla (kannski vildirðu skrifa skunkar eða eitthvað).

Elín

Þór: Jiminn eini...ef það er ekkert áfengt í þessu tei hjá þér þá hlýturu að stunda hugleiðslu allavega einu sinni á dag eða vera á einhvers konar lyfjum. ...og ef þú segir nei við öllum kostunum þá hlýturu að vera á lausu!

Hugi

Elín: Ég lít alltaf út eins og villimaður. Ég ER villimaður :-). Takk annars Elín og Fríða, ég ætla að laga þetta með Explorer næst þegar ég kemst í Windows-druslu einhversstaðar. Inga Hanna: Sætkartöflusúpan er snilld, eldaði hana síðast í matarboði um síðustu helgi. Þú segir okkur svo auðvitað hvað þér finnst ;-). Eva, og þið hin sem hafið reynt að skrá ykkur: Ég er búinn að laga notandaskráninguna, ætti að virka rétt núna. Þetta er ástæðan fyrir því að þetta heitir "beta" og er núna merkt með stóru "ß". Þór, Agnes, Gugga, takk :). Skal koma sultukex-uppskriftinni þarna inn. Afar flókin. Tekur á úlnliðinn (og reyndar ansi hressilega á meltinguna, er ég að finna í dag). Mjása Þó! Er orðið skankar til?!? <a href="http://www.google.com/search?client=safari&rls=en&q=Skankar+site:is&ie=UTF-8&oe=UTF-8">Suss</a>.

Þór

Elín: nei, nei, nei og... já. I wonder why :-Þ Actually, I don't wonder why ;-)

Miss G.

Hugi, ég var að reyna að munstra mig á uppskriftavefinn? Er hann mjög exklúsívur klúbbur?

Miss G.

Annars er ég dálítið vonsvikin yfir því að þú hafir ekki verið með bláa súpu á menuinu í matarboðinu sem þú lýsir svo fjálglega.

Hugi

Hvað segirðu, Miss G - vill hann ekki meðtaka þig? Þetta er ekki exklúsívur klúbbur, og þótt svo væri, þá fengir þú allra fyrst aðgang :). Hvað segirðu, bláa súpu? Er það eitthvað Valhallardæmi?

Miss G.

Ég reyndi þrisvar, eftir það var ég hrædd um að breytast í frosk og hætti. Bláa súpan er súpan hennar Bridget Jones.

Hugi

Jæja Miss G. - hvernig var kjúklingurinn? :-)

Miss G.

Hann var mjög góður, mæli með honum. Hróflaði reyndar aðeins við uppskriftinni, setti tamarind í stað soja, hrásykur í stað púður- o.s.frv. (Þetta segi ég bara svo lesendur haldi ekki að við séum farin að stunda afbrigðilegt samneyti þar sem þú ert með uppblásinn gúmmíhanska á höfðinu). Slurp. Næst er það sætkartöflusúpan.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin