Hver leigir svona?

6. júní 2006

Þegar ég renndi í hlaðið eftir að ég kom heim úr vinnunni í dag mætti mér hræðileg sýn.

Í stæðinu mínu - stæðinu MÍNU - var þessi líka skelfilega, skelfilega bleiki Yaris. Við erum að tala um svo hræðilega, ótrúlega bleikan Yaris að ég byrjaði að kúgast um leið og ég sá hann og áður en ég náði að stöðva bílinn kastaði ég upp ofan í badmintontöskuna mína, og það yfir nýjasta eintakið af Brúðkaupsblaðinu Já sem var efst í henni.

Við þessi óvæntu átök rykkti ég stýrinu óvart til hægri, steig á bensíngjöfina og ók á fullri ferð beint á bleika fyrirbrigðið. Þýska skriðdrekastálið í bílnum mínum skaddaðist ekkert, rispaði bara stuðarann aðeins, en Yarisinn fór algjörlega í klessu. Hann leit út eins og hræðilegt slys í aðgerð hjá kvensjúkdómalækni, bara stór, bleik hrúga.

Ég hugsaði málið aðeins, lagði bílnum mínum svo varlega við hliðina á hrúgunni, læddist út, setti stút á munninn og bjó mig undir að ganga blístrandi í burtu. En þá tók ég eftir að Frú Vigdís var að fylgjast með mér úr glugga - og hann var með alvörusvip á andlitinu. Ég veifaði vingjarnlega til hans, skrifaði svo "Fyrirgefðu" á lítinn miða og setti ofan á bleiku hrúguna.

Ég leit aftur upp í gluggann í von um að þetta væri nóg. En Frú Vigdís hristi höfuðið með vanþóknunarsvip. Hann var sko ekki sáttur. Þá andvarpaði ég og hringdi í lögregluna.

Lögreglan var mætt á staðinn innan tíðar. Í löggubílnum sátu tveir menn og annar þeirra, þrekvaxinn lögregluþjónn, steig út úr bílnum og gekk að mér. "Hvert er vandamálið?" sagði hann þreytulega. Svo sá hann bleiku hrúguna og öskraði "JESÚS GUÐ ALMÁTTUGUR HVAÐ ER ÞETTA" og ældi yfir sig.

Þegar hann var staðinn upp aftur og hættur að kúgast þurrkaði hann sér um munninn með handarbakinu og sagði "Hemm. *skyrp*. Venjulega þyrfti ég að taka af þér skýrslu en ég ætla að sleppa þér með áminningu, Mér sýnist þú hafa gert samfélaginu greiða". Svo öskraði hann á hinn lögregluþjóninn "Geir hringdu á dráttarbíl". Hann leit aftur á hrúguna og sagði svo hugsi "Eða nei annars, hafðu það vörubíl. Með krana".

Svo tók hann í höndina á mér og þakkaði mér kærlega fyrir að fjarlægja þetta ökutæki úr umferð. Og þar með var mínum afskiptum af málinu lokið. Þrekvaxni lögregluþjónninn hringdi þó í mig áðan til að segja mér að þetta var bílaleigubíll og fulltryggður - þannig að ég fæ frían tússpenna frá tryggingunum til að tússa yfir rispuna á stuðaranum. En það merkilega er að bíllinn var tekinn á leigu af karlmanni, hugsið ykkur bara. Vá hvað sá náungi er flaming. En greinilega húmoristi, því hann leigði bílinn á nafninu "Ken". Hann svaraði ekki í símann í dag þegar reynt var að ná í hann - en það hefði ég líklega ekki heldur gert ef ég hefði leigt þennan bíl.

En einmitt núna hef ég minnstar áhyggjur af bleika Yarisnum. Garðurinn hérna fyrir utan er að fyllast af alvarlegu fólki, gónandi ofan í holuna sem duglegi verkamaðurinn frá því í fyrradag gróf. Og ég sé ekki betur en að sjónvarpið sé mætt á staðinn líka.


Tjáskipti

baun

NFS eða RúV? (vona að tekið verði viðtal við Frú V, hlakka til að sjá hann)

Carlo

Brúðkaupsblaðið Já???

Þór

Ha ? Akkúrat... "Hann" ?? Á maður að hafa áhyggjur af þér Hugi ?

Óskar

Spurning hvort að klæðskiptingurinn sem missti fötin í ganginum hafi ekki leigt þennan bíl?

Hugi

Baun, þetta voru allar stöðvarnar. Meira að segja CNN. Ég er reyndar í vinnunni núna og hef ekki fylgst með þessu en segi nánar frá þegar ég kem heim. Carlo, mér finnst svo gott að sitja með tárin í augunum á kvöldin og lesa brúðkaupsblaðið og drekka kampavín. Ef ég er í mjög dramatísku skapi set ég á mig óvatnsheldan augnskugga líka. ÞAÐ er skemmtun. Þór já, Frú Vigdís er merkilegur karakter. Ég þarf að sprauta hann daglega og einu sinni beit hann mig. Algjör grallari. Óskar, auðvitað! Ég hefði átt að geta sagt mér það sjálfur.

Elín

Ha ha ha ha ha.... brill ég þarf að fá nafnið hjá þér á vatnsheldu augnskuggunum, ég hef aldrei séð svoleiðis en helvíti væri það hentugt ;)

Kjartan

Tókstu í höndina á lögreglumanninum? Þá sem hann var nýbúinn að nota til að þurrka æluna framan úr sér... Það er bara nasty...

Hugi

Já Kjartan, það var ógeð - en hvað á maður að gera þegar lögregluþjónn sem er nýbúinn að sleppa manni af króknum réttir fram höndina? Segja "Oj, þú ert allur útmakaður í ælu - kanntu enga mannasiði maður!"? Ég sauð auðvitað höndina upp úr klór á eftir og lyktin er næstum því farin. Elín: Ég sagði Ó-vatnsheldan augnskugga. Það er ekkert gaman að vatnsheldum, engin dramatík í því.

Elín

Já ég las það einmitt rétt, en fannst þú þá bara vera að gefa í skyn að það væru til vatnsheldir ;)

Hugi

Nú, er hann ekki þegar til?! Þarna er greinilega markaður fyrir nýja vöru, pólýúretan-augnskugga sem hægt er að hreinsa af með terpentínu.

Elín

Snilld, fáðu þetta einkaleyfi á þessu. :) Á eftir kemur reyndar ný kynslóð af konum án augnloka, en er það ekki bara sexý?

Hugi

Heyrðu, þetta verður heil lína af snyrtivörum. Ég er þegar með nokkrar hugmyndir. * Vatnsheldur augnskuggi úr pólýúretanfroðu (þegar kominn) * Kossekta varalitur úr latexi. Einfaldlega hitaður í 132°C og svo smurt á varirnar með penslinum sem fylgir. * "Forever-stick"-hárgel úr trölladeigi. Borið í hárið sem er svo mótað eftir smekk og bakað í ofni í 50 mínútur. * "Geiger woman" hárfjarlægingarsprotinn. Úðar þig með geislavirkum jónum þannig að þessi óþægilegu aukahár detta af og koma aldrei aftur. Forever cosmetics. Designed by men. For women.

baun

lol - snilld:o)

Mjása

Tíhí. Geir er ekta löggunafn.

Elín

ROFL...... mig langar í Geiger woman :)

Hugi

Mjása, mig langaði að skrifa "Grani" en hætti við það af einhverri ástæðu :). Baun. Vá, hvað ég saknaði þín úr tjáskiptunum. Fattaði það ekki fyrr en ég sé þig hérna aftur. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur og fengið svo aftur hefur. Eða þannig. Elín, Geiger Woman er ekki kominn í framleiðslu, en ef þú stendur fyrir framan örbylgjuofn í nokkra mánuði ætti það að hafa svipuð áhrif.

Elín

Okey ég get það.... á ég að hafa hann í gangi?

Simmi

En hvernig stendur á þessum fjölmiðlaáhuga á holunni? Búnir að finna síðasta framsóknarmanninn?

Þór

Ha ? Meinarðu að Halldór hafi skriðið ofan í holuna í garðinum hjá Huga ? Ég var einmitt að velta því fyrir mér hvað hefði orðið um hann eftir Þingvallafundinn.... :-Þ

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin