Alveg eins og fullnæging, nema bara að maður borðar hana.
Innihald
- Lambalæri, ca. 2 kíló
- 2 krukkur af hvítum baunum, með safanum
- Hálf flaska af rauðvíni
- Sletta af marsala, púrtvíni eða sérríi má sleppa)
- 2 stórir laukar
- 10 skalottulaukar. Eða 11. Eða 12.
- 6 tómatar, afhýddir og skornir í fernt
- 3msk af tómatpúrru
- Salt
- Svört piparkorn
- 10 hvítlauksrif
- Slatti af svörtum ólífum
- 2 lárviðarlauf
- 3 greinar af fersku rósmaríni
Aðferð
- Skelltu lærinu í öflugan steikarpott.
- Grófsaxaðu laukinn og skalottulaukinn
- Afhýddu tómatana og skerðu þá í ferninga (það er þægilegt að afhýða tómata með því að skera kross í rassinn á þeim og smella þeim svo í sjóðandi vatn í nokkrar sekúndur - þá rennur hýðið af).
- Helltu öllu dótinu í pottinn, yfir lærið.
- Settu lokið á pottinn og smelltu því inn í ofn. Lærið á að elda í 4 tíma á 140°C, en svo má kýla á það með 220°C í svona hálftíma undir lokin. Hrærðu reglulega hvoru í pottinum, og austu mallinu yfir lærið í leiðinni.
Þegar eldamennskunni lýkur, þá er grænmetið búið að draga í sig alla fituna úr lærinu og kjötið bókstaflega dettur af beininu. Kjörið að bera fram með feitri kartöflumús.
Fyrstu fjóra tímana í ofninum er hægt að framkvæma daginn áður.
Það er gott að setja nokkrar ansjósur með í pottinn. Ansjósubragðið hverfur alveg en þær styrkja bragðið af lambakjötinu mikið.